19.12.1974
Efri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

125. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá síðasta ræðumanni, að hér er sannarlega um merkismál að ræða eins og flestar þær umbætur sem gerðar eru á okkar tryggingalöggjöf.

Ekki er vafi á því, að það var mjög mikilvægt þegar það fékkst þó inn sem heimildarákvæði að það mætti greiða þetta allt upp í 24 mánuði. En eins og fram kom við athugun einmitt á þessu málefni í fyrra, eru allmargir flokkar sjúklinga sem þurfa endurtekið að fara inn á sjúkrahús, en geta verið heima hjá sér á milli. Þarna er um taugasjúklinga að ræða, þarna er um astmasjúklinga að ræða og sjúklinga með fleiri lungnasjúkdóma, sem valda því, að fólkið getur verið sæmilega frískt um nokkurn tíma , en þurft svo skyndilega að fara inn á sjúkrahús og dvelja þar lengri eða skemmri tíma, jafnvel oft á ári, en tiltölulega stuttan tíma í einu. Þess vegna var það að þetta er komið inn sem heimildarákvæði, meginatriðið í því sem hér um ræðir, en hins vegar er því ekki að neita, að það er sannarlega miklu æskilegra að fá þetta inn sem ákveðið ákvæði.

Það er þó ekki svo, að öllu réttlæti sé fullnægt með þessu. Mér dettur þá í hug að þetta varðar að verulegu leyti ellilífeyrisþega ekki síður en örorkulífeyrisþega. En nú er það svo að þegar ellilífeyrisþegi fer inn á elliheimili, þá verður hann að borga allar sínar tekjur, sinn ellilífeyri og reyndar kannske meira til, ef hann hefur einhverja aðra tekjumöguleika til síns nauðsynlegasta uppihalds. Þarna er enn þá gat í okkar lögum sem við þurfum vafalaust fljótlega að greiða eitthvað úr. Það er lítil sanngirni í því, að ef maður fer inn á sjúkratryggingagreiðslur á sjúkrahúsi, þá fái hann sínar fullu bætur áfram, aftur á móti ef hann fer inn á elliheimili, þá séu allar hans tekjur af honum teknar til greiðslu á dvalargjaldi.

Það var eins og hér hefur komið fram, að enda þótt miklar umbætur hafi orðið á okkar tryggingalöggjöf á undanförnum árum, þá bætast alltaf við ný augljós atriði sem lagfæra þarf. Ég vona að við lítum á þessi mál hér með miklum skilningi og velvilja og reynum að fá þessa lagfæringu í gegn.