19.12.1974
Efri deild: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

116. mál, lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Sem garðhreppingur sýnist mér ég verða að segja örfá orð um þetta mál. Ég þekki það mjög vel. Mér er næst skapi að greiða atkv. gegn þessu frv., en ég ætla samt að sitja hjá.

Aðdragandi málsins er þannig: Eins og rakið var hjá frsm. á að byggja þarna dvalarheimili sjómanna, og því fögnum við garðhreppingar. Það á að byggja í okkar nágrenni. Hins vegar sýnist mér að ljóst hafi mátt vera frá upphafi að það landssvæði, sem ráðstafað var af hálfu Hafnarfjarðar í þessu skyni, var hvergi nærri nóg og gekk inn á lögsagnarumdæmi Garðahrepps. Hreppsnefnd Garðahrepps fjallaði um þetta mál nokkrum sinnum og lagði áherslu á að afsala ekki landi, þótt þannig væri um málið búið. Nú hefur þetta breyst og nú á að afsala þarna hálfum hektara lands, sem er ekki mikið, en engu að síður sýnist mér að eðlilegra hefði verið að hafa þarna makaskipti. Það er þarna töluvert land á mörkum sem liggur þannig að er eðlilegt innan marka Garðahrepps. Ég hefði því kosið þá leið, en mun þó ekki greiða atkv. gegn þessu frv., vegna þess að ég vil ekki standa í vegi fyrir byggingu þessa dvalarheimilis.