17.12.1975
Efri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til laga um fjáröflun til vegagerðar á þskj. 148. Breytingar þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá núgildandi lögum, munu vera byggðar á þeirri staðreynd að Vegasjóður hefur haft lægri tekjur af þeim bifreiðum sem nota annað eldsneyti en bensín, og ástæðan mun m. a. hafa verið sú að ekki er hægt að haga innheimtu gjaldanna af þeim á sama hátt og af öðrum bifreiðum. Var farin sú leið með gjaldheimtu af dísilbifreiðum að ákveðið árgjald var lagt á þær, hækkandi eftir þyngd. Fyrir nokkru var því þó breytt þannig, að gjaldmælar voru settir í allar stærri bifreiðar, þannig að gjöldin af þeim færu eftir notkun.

Með frv. til l. á þskj. 148 var lagt til að heimildin til notkunar gjaldmæla yrði látin ná einnig til minni bifreiða með það sjónarmið í huga að þeir, sem meira ækju, greiddu meira. Þó var hinum minni bílum einnig gefinn kostur á að greiða fast gjald í stað þess að taka akstursmæla, en fastagjaldið var þrefaldað fyrir minnstu bílana. Það var því augljóst að samþykkt á frv. á þskj. 148 hefði í för með sér að mikill meiri hl. eigenda þeirra bifreiða, sem þar er um rætt, mundi kaupa mæla. Þessi breyting hefði því leitt af sér mikinn aukakostnað fyrir gjaldendurna vegna þess, hvað mælarnir eru dýrir, og jafnframt átti að taka þarna hækkun á fastagjaldinu, mjög mikla hækkun í einu stökki, og þá hefði verið raskað því hlutfalli sem hefur verið milli rekstrarkostnaðar á þessum bifreiðategundum.

Af þessum ástæðum, fyrst og fremst vegna þess kostnaðar, sem af mælakaupum hefði leitt og þessu mikla stökki, hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. ákveðið að leggja til að breytingin við núgildandi lög verði á þá leið að fastagjaldið verði hækkað miklu minna en gert var ráð fyrir í frv. á þskj. 148, til þess að ekki þurfi að leggja í þennan mikla aukakostnað við mælana. Þessi breyting er flutt sem sérstakt frv. á þskj. 204 og hefur í sér fólgna breytingu á 5. gr. núgildandi laga um fjáröflun til vegagerðar. Fastagjaldið er þar miðað við 70 þús. kr. í stað 42 þús. kr. áður, og af bifreiðum, sem ekið er gegn gjaldi samkv. löggiltum mælum, skal árgjaldið vera 30% hærra, þar sem það mun augljóst að þeim er ekið allmiklu meira. Fyrir utan þessa breytingu er ráðh. í síðasta málslið 1. gr. frv. veitt heimild til að hækka bensíngjald og þungaskatt í hlutfalli við hækkun á byggingarvísitölu. Á meðan þessi gjöld eru aðaltekjustofnar íslenskrar vegagerðar hljóta þau að verða að hækka eitthvað samfara kostnaðarhækkunum við vegagerð ef þar á ekki að skapast algjört vandræðaástand. Það er að mati meiri hl. n. heppilegra að það sé ekki tekið í allt of stórum stökkum, eins og hefur viljað verða þegar það er bundið fast í lögum.

Ákvörðunin um heildarupphæðina, þ. e. a. s. þörfina á því fjármagni sem fæst með þessu gjaldi, er eftir sem áður í höndum Alþ., þar sem það er ákveðið í vegáætlun.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.