17.12.1975
Efri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Orð mín áttu ekki að skiljast svo að ég væri að álasa nefndinni fyrir hennar störf. Ég tók það einmitt fram að það frv. sem hún skilaði frá sér, væri stórum skárra en það sem ríkisstj. skilaði frá sér. Þegar ég nefndi slæm vinnubrögð, þá átti ég einfaldlega við það að ríkisstj., sem leggur fram stjórnarfrv. á Alþ., á að hugsa áður en hún semur frv. og leggja hér fram frv. sem hún síðan getur treyst sér til að verja og standa við. Slíkt getur að vísu komið fyrir í einstaka tilviki, að menn neyðist til þess að afturkalla mál sem þeir hafa hér flutt af því að þau reynist vanhugsuð. En ég var að ávíta það að þetta gerðist hér í hverju málinu af öðru, að ríkisstj. væri með yfirlýsingar um að hún ætlaði að halda á málum með ákveðnum hætti. Við vitum hvernig þetta er í sambandi við almannatryggingarnar, og við vitum hvernig þetta er á sambandi við tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga. Allt þetta hefur gjörbreyst frá því að upphaflegar yfirlýsingar voru gefnar, og það var þetta sem ég var að gagnrýna.

Varðandi það, að í nefnd hefðum við hv. þm. talið að einmitt ætti að stefna í þessa átt, að fella niður mælana og lækka gjaldið, þá er það laukrétt. Við lögðum megináherslu á einmitt þessi tvö atriði, og ég tel að það séu einmitt kostir þessa frv. að við því hefur verið orðið, mælarnir hafa verið lagðir niður, enda var það einhver sú alvitlausasta till. sem lengi hefur séð dagsins ljós á Alþ., að ætla að fara að stefna mönnum út í 70–80 millj. kr. útgjaldaauka vegna þessara mælakaupa. Það var ekki annað að sjá en þetta væri aðallega gert til þess að skapa ákveðnum innflytjanda sem mestar tekjur af innflutningi. Og eins er hitt, að gjaldið var óhæfilega hátt. Nú hefur þessu verið hreytt, en að minni hyggju hefur ekki verið gengið nægilega langt. Eins og ég skýrði meðnm. mínum frá í morgun, er gjaldið enn allt of hátt. Ég tel að það þyrfti að lækka um a. m. k. 20 þús. í hvoru tilviki um sig til þess að það gæti átt rétt á sér. Hins vegar vil ég upplýsa það, að eftir að nefndarfundir voru haldnir fyrir belgi hef ég rætt þetta mál töluvert við bílstjóra, og eftir að hafa skipst á skoðunum við menn um það er ég orðinn sannfærður um að langréttlátasta leiðin er sú að leggja 16 kr. gjald á olíuna líka, því að með þeim hætti geta menn leyft sér að eiga dísilbíl án þess að keyra nein lifandis ósköp, en þegar gjaldið er svona gríðarlega hátt, að einstaklingar, sem nota bíl til eigin þarfa, þurfa að borga 70 þús. kr. bara í þungaskatt og atvinnubílstjórar þurfa að greiða 91 þús. kr., þá þurfa menn að keyra býsna mikið áður en menn fara að vinna upp þetta fastagjald, og það er sem sagt með þeim hætti verið eiginlega að handa mönnum frá að nota svona bíla nema þeir keyri áreiðanlega töluvert yfir 20 þús. km. Þetta má allt ræða betur við 2. umr. og nefna þar ákveðin dæmi, en þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að ég hef skipt um skoðun hvað það snertir að ég tel að við eigum að afnema gjaldið með öllu, það sé vitlaust og heimskulegt skipulag, og taka eigi upp fast gjald á lítra.