17.12.1975
Neðri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Frsm, minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Forseti. Á þskj. 184 er nál., sem við stöndum að, hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og ég. Í þessu nál. lýsum við yfir andstöðu okkar við þetta frv., en efni þess er í stuttu máli að veita ríkisstj. heimild til þess að lækka um allt að 5% framlög til ýmissa mála sem bundin eru í lögum.

Í nál. okkar birtum við nokkrar upplýsingar um málið, sem n. bárust, en þar er að finna grg. um það, að verði þessi 5% heimild notuð í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir á fjárlagafrv., þá mundi hér vera um að ræða lækkun á ríkisútgjöldum á næsta ári um rúmlega 276 millj. kr. En fleiri liðir en þarna eru til greindir geta komið til, enda mun vera gert ráð fyrir í grg. fjárlagafrv. að hægt eigi að vera að spara í ríkisútgjöldum eftir þessari heimild um 300 millj. kr.

Það vekur athygli við þessar upplýsingar, að það er fyrst og fremst einn liður, sem hér dregur eitthvað sem heitir í sparnaði, en það er lækkun á útgjöldum til vegagerðar um 175 millj. kr. af þessum 276 sem gert er ráð fyrir að spara með þessum hætti. Það virðist fremur óeðlilegt að hægt sé að nota þessa heimild á þennan hátt, þ. e. a. s. að lækka útgjöld til vegagerðar um 175 millj. kr. samkv. þessari heimild, vegna þess að eins og kunnugt er, þá leggur ríkissjóður Vegasjóði tiltölulega lítið fé til framkvæmda hans, en Vegasjóður hefur fyrst og fremst markaða tekjustofna sem aðallega eru af umferðinni í landinu, þ. e. a. s. bensíngjald og þungaskatt af bifreiðum og nokkur önnur skattgjöld. En vegna þess að þessir sérstöku tekjustofnar Vegasjóðs renna að forminu til í gegnum ríkissjóð, þá virðist vera gert ráð fyrir því að ríkissjóður geti skorið niður þessar greiðslur um 5% samkv. þessari heimild og minnkað þannig tekjur Vegasjóðs um þessa fjárhæð, þó að Vegasjóður hafi átt að fá þessar tekjur samkv. sérstökum lagaákvæðum og þær eigi þangað að renna í rauninni beint, þó að þær fari bókhaldslega í gegnum ríkissjóð. Þetta tel ég fyrir mitt leyti alveg óeðlilegt, og þetta er kannske ljósasta dæmið um það, að þessi niðurskurðarheimild, sem hér er verið að leita eftir, er óraunhæf. Það eru allar líkur til þess, að það verði harla lítið úr henni í framkvæmd.

Á öðrum liðum, sem þarna eru veittar upplýsingar um, dregur þessi niðurskurður harla lítið. Það er að vísu um 24 millj. kr. lækkun á framlagi til Fiskveiðasjóðs, um 15 millj. kr. lækkum á framlagi til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og 31 millj. kr. lækkun á framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs. En aðrar fjárhæðir, sem sparast mundu með þessari heimild, eru mjög óverulegar, eins og til Kirkjubyggingasjóðs. Þar er gert ráð fyrir að spara 5 þús. kr. á ári, og ýmsar aðrar upphæðir eru hér mjög óverulegar. Ráðgert er að spara á sjálfum Kristnisjóði 315 þús. kr. með þessu. Og hér er nefndur Húsfriðunarsjóður, það á að spara á honum 217 þús. kr.

Ég held að hér sé í rauninni farið inn á alranga braut af hæstv. ríkisstj., að ætla sér að ná fram nokkrum teljandi sparnaði í útgjöldum ríkissjóðs með þessari heimild. Hér er í flestum greinum um að ræða lögbundin framlög til ýmiss konar starfsemi og til ýmissa sjóða í landinu, — framlög sem verður að telja að séu réttmæt og eðlileg og það sé varla eðlilegt að fara að skera þetta niður. Ég efast því um að það verði nokkuð úr þessum sparnaði í reynd, nema þá að það verði farnar krókaleiðir eins og þessi, sem snertir Vegasjóð, sem vægast sagt er óeðlileg, að ríkissjóður geti náð fram sparnaði í rekstri sínum um 175 millj. kr. á raunverulega sérmörkuðum tekjum Vegasjóðs. Vegna þess að hæstv. samgrh. er hér viðstaddur, þá hefði ég gjarnan viljað heyra álit hans á því, hvort hann sé ánægður með það að markaðir tekjustofnar Vegasjóðs eins og ástatt er í fjármálum Vegasjóðs nú, verði skornir niður samkv. þessari heimild um 175 millj. kr. Ég hélt satt að segja, að þau mál stæðu þannig, að menn væru miklu frekar uppi með hugleiðingar um að afla Vegasjóði meiri tekna, til þess að hann gæti staðið við algjörlega nauðsynlegar framkvæmdir, en ekki að markaðir tekjustofnar hans væru teknir á þennan hátt inn í sparnaðardæmi ríkissjóðs.

Ég vísa að öðru leyti til nál. okkar á þskj. 184. Við erum andvígir þessu frv. og leggjum til. að það verði fellt.