17.12.1975
Neðri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Forseti. Á þskj. 185 skilum við hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, og ég séráliti í þessu máli og leggjum þar til að gerð verði nokkur breyt. á frv.

Meginefni frv. er það, að við álagningu eignarskatts til ríkissjóðs skuli margfalda með 2.7 núgildandi fasteignamat. Það er skoðun okkar að það sé ekki óeðlilegt að matsverð á fasteignum til eignarskatts sé hækkað. Við teljum að það sé full ástæða til þess vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á verðgildi eigna síðan fasteignamatið var gert og getum því út af fyrir sig samþ. þá till. í frv. sem miðar að þessu.

En í frv. er gerð önnur breyt. frá gildandi lögum og hún varðar þá fjárhæð í fasteignum sem telst vera skattfrjáls. Í gildandi lögum er 1 millj. heimiluð skattfrjáls, og ekki kemur til skattlagningar fyrr en eign er yfir þeirri fjárhæð. Með þessu frv. er lagt til að sú fjárhæð verði hækkuð í 2 millj. kr. En við leggjum til í okkar brtt. að þetta mark verði haft alveg hliðstætt því sem áður var og markið 1 millj. verði því margfaldað einnig með 2.7 og ekki verði um að ræða skattlagningu fyrr en eignin nemur yfir 2.7 millj. kr.

Með breytingunni, sem felst í þessu frv., er verið að skattleggja ýmsa þá sem hingað til hafa ekki þurft að greiða eignarskatt af eignum sínum. Það er verið að færa sig neðar en áður var, og er talið að þessi aukaskattlagning á þá aðila, sem undir þetta mundu falla, geti numið í kringum 100 millj. kr. Við teljum að það sé ekki ástæða til að gera þessa breytingu og að hún mundi koma í mörgum tilfellum mjög illa við. Það er þekkt fyrirbæri að t. d. gamalt fólk, sem hefur ekki orðið neinar teljandi tekjur nema eftirlaunatekjur, eigi fasteignir, sem mundu vera metnar til þess verðs sem hér er verið að ræða um til skattlagningar. Við sjáum ekki ástæðu til að breyta þeim hlutföllum, sem hafa ríkt í þessum efnum, og vera að teygja sig til þess að skattleggja m. a. þessa tekjulausu aðila, þó að þeir eigi fasteignir sem metnar eru á þessu verði eða hafa verið metnar á 1 millj. kr., en mundu nú eftir þessa breytingu verða metnar á 2.7 millj.

Sem sagt, við leggjum til að sú breyt. verði gerð á frv. sem er að finna í till. á þskj. 185.