22.10.1975
Efri deild: 8. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

16. mál, heilbrigðisþjónusta á Vestfjörðum

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :

Herra forseti. Ég flyt hér þáltill. um heilbrigðismál og er það gert m. a. vegna þess að fyrir liggur að endurskoða þessi lög nú í vetur. Ég vil byrja á því að lesa það yfir sem hér stendur, en mun að því búnu reifa þetta mál nokkuð. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að sjá um að við þá endurskoðun, sem nú stendur yfir á heilbrigðislöggjöfinni, skuli ákveðið að læknir hafi búsetu á Suðureyri við Súgandafjörð, á Bíldudal í Arnarfirði, á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu og í Árneshreppi í Strandasýslu.

Greinargerð:

Með lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 56/1973, er í 1. gr. l. útskýrt markmið þeirra og verður að telja að það hafi verið óviljaverk að l. ná ekki tilgangi sínum. Þar segir svo:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“

Samgöngur yfir vetrartímann valda því að þeir staðir, sem taldir eru upp í ályktun þessari, eru algjörlega útundan hvað öryggi í heilbrigðisþjónustu snertir þann tíma ársins sem akvegir eru lokaðir.

Á þessum stöðum er um afturför að ræða á sviði heilbrigðismála og blasir sú staðreynd við að fólk flytur burt sem ella hefði unað þar hag sínum. Hvort hafa beri H-1 heilsugæslustöðvar á þessum stöðum eða fjölga læknum á þeim heilsugæslustöðvum sem fyrir eru, en láta nægja að setja búsetuskilyrði, er svo matsatriði í hverju tilfelli.

Ekkert er þó því til fyrirstöðu að nýta starfskrafta þessara manna til þjónustu stærra svæðis þann tíma sem samgöngur eru viðunandi, en það er á þeim tíma sem sumarleyfi ganga yfir og gæti því verið hagkvæmt.

Nú hafa þær fréttir borist að meira framboðs sé að vænta af læknum en verið hefur, og vekur það vonir um að auðveldara verði að fá lækna til starfa í dreifbýlinu. Sú breyt., sem hér er lögð til, bætir til muna starfsskilyrði þeirra og leggur þeim hóflegri kröfur á herðar til ferðalaga. Þar sem endurskoðun heilbrigðislaganna hefst núna á næstunni er eðlilegt að Alþ. taki afstöðu til þess hvort 1. gr. þeirra heilbrigðislaga, sem nú eru í gildi, eigi við landið allt.

Nú er það von mín að Alþ. taki ábyrga afstöðu til þessara mála, en varði ekki veg nýrrar heilbrigðislöggjafar með dauðsföllum af hennar völdum.“

Ég veit að það verður á mig borið að flytja hér till., sem stuðlar að því að auka ríkisútgjöld og í ljósi þess verður hún e. t. v. skoðuð á þessum erfiðu tímum. En ég get ekki látið hjá líða að rekja það að nokkru að baráttan fyrir því að heilbrigðísþjónusta sé viðunandi þar vestra er ekki ný.

Mín heimabyggð, Súgandafjörður, hafði um langt árabil orðið að lúta því að héraðslæknirinn var staðsettur í Önundarfirði. Ég vil geta þess, svo að menn geri sér grein fyrir þeirri alvörn sem því fylgir fyrir þann mann sem gegnir því starfi, að hann er skyldugur að lögum að vitja sjúklings ef líf liggur við og þá er ekki um annað að gera en að fara.

Ömmubróðir minn gerði það eitt sinn í illviðri miklu að fara yfir þann fjallveg sem þarna er á milli, svokallaða Klofningsheiði. Læknir sagði að hann gæti ekkert gert fyrir þennan sjúkling og hann skyldi bara fara sjálfur til baka. En hinn kvaðst ekki mundu fara heim, heldur þá beint á sýslukontórinn á Ísafirði og kæra hann fyrir að mæta ekki. Þeir fóru saman yfir fjallið og sjúklingurinn dó. Mat læknisins var rétt, en hann þakkaði honum fyrir að hafa beitt hann slíkri hörku.

Seinna höfum við um alllangt árabil átt því láni að fagna að héraðslæknir bjó í Súgandafirði. Það er örasta uppbyggingarskeið fjarðarins, og það er engin tilviljun að það mál að koma þar upp læknisbústað og koma þar upp sjúkraskýli átti meiri forgangi að fagna heima í byggðarlaginu en nokkurt annað. Þessi hús standa nú án þess að þau séu notuð nema stuttan tíma, þann tíma sem við fáum mann frá Ísafirði til að gegna þessum störfum. Mikinn tíma ársins er þar um það að ræða að við verðum að fara með snjóbíl yfir heiðina ef við ætlum að ná í menn úr öðrum byggðarlögum.

Snjóbíll er auðvitað farartæki sem kemst sína leið þó að snjór sé yfir. En það getur verið spauglaust að rata yfir þennan fjallveg þegar veðurhæðin er kannske orðin slík að togaraflotinn allur er kominn að landi út af Vestfjörðum, og því miður hafa gerst alvarlegir atburðir í þessum snjóbíl á leiðinni yfir fjallið með menn sem verið var að flytja, konu í barnsnauð.

Ég held þess vegna að þó að tímar séu erfiðir, þá beri að skoða af fullri alvöru hvort það sé ekki á einhverjum sviðum öðrum sem við verðum að spara.

Hinir staðirnir, sem hér eru upp taldir, höfðu einnig sína lækna áður en breyt. gekk yfir. Og ég vil undirstrika það alveg sérstaklega að samgöngum er þannig háttað á þessum stöðum öllum að það er tómt mál að tala um að fólk, sem við alvarlega vanheilsu á að stríða, geti dvalið á þeim allan ársins hring. Þetta hefur haft þær afleiðingar að fólk flytur burt, ekki bara hinn sjúki, heldur að sjálfsögðu þeir sem honum eru nátengdastir. Einnig er annað sem menn verða að horfa á í þessu sambandi. Þeir staðir, sem þannig eru skildir útundan, verða smátt og smátt í vitund fólksins staðir þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að koma sér undan að sinna þeirri þjónustu sem alls staðar annars staðar er talin sjálfsögð. Það er þess vegna alveg fráleitt af ríkisvaldsins hálfu að standa samtímis að fjárveitingu t. d. til að byggja þörungaverksmiðju á Reykhólum, á sama tíma og verið er að svipta fólkið þar heilsugæslu. Þetta er ekki rökrétt. Það er líka fráleitt að vera að byggja hafnargarða og slíkt á þessum stöðum ef heilsugæsla á ekki þar að vera. Alþ. verður að vera sjálfu sér samkvæmt. Ef það ætlar að leggja þessa staði í eyði, þá verður það að taka þá ákvörðun um það, þora að segja fullum fetum, að það sé reiðubúið að greiða fólki fyrir þær eignir sem þar séu ef það vill flytja burt.

Ég segi hér nokkuð stóra hluti. En ég vil minna á það að 1965 komu norskir sérfræðingar til Vestfjarða. Þeir höfðu það erindi að gera áætlun, svokallaða Vestfjarðaáætlun. Það plagg komst aldrei fyrir almenningssjónir. Upplagið var brennt á sínum tíma þar sem þótti mjög hættulegt pólitískt ef það yrði sýnt. Höfuðorsök þess var að þar voru menn sem þorðu — og ég met þá fyrir hreinskilnina — þorðu að halda því fram fullum fetum að sum svæðin ættu að fara í eyði og það ætti að borga fólki búsetustyrk ef það flytti af þeim. Hitt er ræfildómur, hreinn ræfildómur, að auglýsa að það eigi að vera byggð, en vinna svo að því aftur á móti, að hin sama byggð fari í eyði. Nú er það svo með þessa staði, eins og t. d. Arnarfjörðinn, að þetta er einn af mestu og bestu fjörðum Vestfjarða. Þarna hófst þilskipaútgerð vestra. Þarna var eigin peningamynt einu sinni innan þorpsins. Þarna var blómlegt mannlíf með hátt á annað þús. manns. Hvað hefur gerst? Af hvaða orsökum er það að búið er að leggja þetta í auðn? Höfuðorsökin liggur í því innlenda sem staðsett var hér. Ég segi þetta því ekki til lasts. En hitt er staðreynd, að það var fátæk þjóð sem reyndi á auðveldasta háttinn að leysa sín vandamál. Hún byggði eina stofnun af hverri tegund fyrst og þær voru byggðar hér. Svo var farið að byggja annars staðar upp, en þá var brostinn flótti í byggðina og fólkið var farið áður en röðin kom að fjörðum eins og Arnarfirði. Þess vegna er spurningin sú í dag. Ætlum við að snúa þessu við og byggja þetta upp? Og spurningin gæti verið sú: Höfum við íslendingar efni á því að láta það ógert? — Svo þakka ég fyrir.