17.12.1975
Neðri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

89. mál, vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Hæstv. forseti. Brtt., sem fluttar eru á þskj. 198, fela það í sér, að í stað þess að hið sérstaka vörugjald falli að fullu niður í ársbyrjun 1976 lækki það í áföngum á næsta ári. Þannig er gert ráð fyrir að gjaldið verði 10% fyrstu 8 mánuði ársins og 6% síðustu 4 mánuði ársins og gildi til áramóta 1976–1977. Áætlað er að tekjur af gjaldinu á árinu 1976 verði um 2 milljarðar og 200 millj. kr. Jafnframt er ákveðið, að úr þeirri lækkun niðurgreiðslna, sem ráðgerð var á næsta ári í fjárlagafrv., verði dregið að mun. Verður lagt til að fjárveiting til niðurgreiðslu vöruverðs verði 700 millj. kr. hærri en var í frv. í upphaflegri gerð. Þessi ákvörðun er nauðsynleg til þess að halda þeirri meginstefnu fjárlagafrv., að það feli ekki í sér aðgerðir sem valdi verðhækkun, fremur hið gagnstæða. Þessar ráðstafanir teknar saman styrkja því fjárhag ríkissjóðs um 1500 millj. kr. á næsta ári frá því sem annars hefði orðið.

Ástæðurnar til þess, að þessar till. eru nú fluttar, eru einkum tvær.

Í fyrsta lagi er sýnt að fjárhagsstaða ríkissjóðs á árinu 1975 verður mun erfiðari en ætlað var á miðju ári, þegar vörugjaldið var á lagt. Þótt hið sérstaka vörugjald virðist munu skila nokkru minni tekjum en áætlað var, eða 1300 millj. kr. í stað 1700 millj. kr., eru nú horfur á, að innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1975 verði um 50 milljarðar kr., eða svipaðar og áætlað var í sumar. Hins vegar verða útgjöldin í heild þó nokkru hærri, og að teknu tilliti til lánahreyfinga má búast við því að greiðsluhalli ríkissjóðs verði rúmlega 3 milljarðar á árinu. Hér veldur mestu að enn eru að koma fram margvísleg tafin áhrif af þeirri öru verðbólgu sem geisað hefur hér undanfarin tvö ár. Þótt á síðari helmingi þessa árs hafi hægt stórlega á verðhækkunum eru enn að koma fram víða í ríkisbúskapnum kostnaðarhækkanir sem teygja sig langt aftur. Af þessum sökum verður við endanlega afgreiðslu fjárl. að reikna með vöxtum og afborgunum af skuldum ríkissjóðs við Seðlabankann sem stofnað hefur verið til á þessu ári. Til þessa verður að ætla a. m. k. 900 millj. kr. Auk þess koma til skuldbindingar vegna sjávarútvegsins sem nú á við örðuga afkomu að búa. Í fyrsta lagi skuldbinding vegna gengistryggingar, innstæðna í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, sem lögum samkv. fellur á ríkissjóð en til þess verður að ætla um 350 millj. kr. á næsta ári, en auk þess er hér um að ræða sérstaka ábyrgð ríkissjóðs á greiðslugetu frystideildar Verðjöfnunarsjóðs vegna framleiðslunnar okt.-des. 1975, aukið framlag til Ríkisábyrgðasjóðs vegna togaralána og skuldbindingar vegna lána sem tekin hafa verið til þess að létta kröfum Lífeyrissjóðs sjómanna af togaraútgerðinni. Þá má nefna útgjaldaauka vegna kaupa á skipi fyrir Hafrannsóknastofnunina. Þessar skuldbindingar vegna sjávarútvegsins gætu numið á næsta ári um 900 millj. kr. Þessi atriði nefndi ég við 1. umr. fjárlagafrv., og ég mun nánar gera grein fyrir þeim við 3. umr , en þá verður einnig gerð grein fyrir endurskoðun tekjuáætlunar til samræmis við ríkjandi verðlag og kaupgjald. Niðurstaðan verður sú, að óhjákvæmilegt sé að halda vörugjaldinu að hluta á næsta ári til þess að koma á því jafnvægi í ríkisfjármálum, sem er forsenda efnahagsjafnvægis.

Önnur meginástæða þess, að sú leið er valin að halda vörugjaldinu að hluta lengur en ætlað var, er þróun utanríkisviðskipta á árinu 1975. Þrátt fyrir mikinn samdrátt innflutnings, eins og að var stefnt, hefur viðskiptahallinn orðið mun meiri en ætlað var og gjaldeyrisstaðan því afar tæp. Ástæðan er fyrst og fremst erfiðara útflutningsárferði en reiknað var með. Á allra síðustu mánuðum hefur innflutningur auk þess fremur virst vera að örvast. Við þessar aðstæður verður að telja hyggilegt að svipta ekki burt í einu lagi vörugjaldinu sem, þótt almennt sé, leggst fyrst og fremst á ýmsar innfluttar vörur sem naumast verða taldar til lífsnauðsynja. Ég tel víst að þessi skoðun mín eigi mikið fylgi meðal þm. og raunar alls almennings, ekki síst þar sem þessi gjaldtaka gerir kleift að halda meiri niðurgreiðslu á búvörum en annars væri.

Bein verðlagsáhrif af till. frv. svo breytts, ef samþ. verður, eru þau, að í stað lækkunar verðlags á mælikvarða framfærsluvísitölu um 10–12 stig vegna afnáms vörugjalds, kemur lækkun í upphafi ársins um 1.5 stig og síðar um 3.5–4 stig, til viðbótar frá 1. ágúst 1976. Til viðbótar við þessi verðlækkunaráhrif koma svo áhrif tollalækkana um 800–900 millj. kr. frá ársbyrjun samkv. tollskrárlögum sem meta má sem 1.5–2 stig. Áhrif af niðurgreiðslubreytingum, sem nú eru ráðgerðar, yrðu 2.5–3 stig til hækkunar í ársbyrjun, en 4 stig alls, þegar allt væri fram komið. Þannig yrðu þessar aðgerðir ekki til að hækka almennt verðlag í landinn á næsta ári, fremur hið gagnstæða, þar sem vörugjaldið og tollarnir ættu að hafa viðtækari verðlagsáhrif en fram koma í framfærsluvísitölu, eins .og að er vikið í grg. fjárlagafrv.

Hæstv. forseti. Ég tel eðlilegt með tilliti til þeirrar brtt., sem hér er flutt, að umr. um þetta mál verði frestað og hv. fjh.- og viðskn. fái tækifæri til þess að skoða brtt. og fá þær upplýsingar sem hv. nm. óskuðu eftir, og þar sem einn þingflokkanna á ekki sæti í þeirri n. og þar sem þess er að sjálfsögðu óskað að hægt sé að hraða afgreiðslu málsins, tel ég rétt, að sá þingflokkur fái tækifæri til þess að fylgjast með og fá upplýsingar varðandi þetta mál á þeim nefndarfundi. Ég legg því til að umr. um málið verði frestað og hv. fjh.- og viðskn. fái tækifæri til þess að skoða málið, en svo að lokinni umr. verði brtt. samþykkt og málinu þannig breyttu vísað til Ed. til fyrirgreiðslu.