18.12.1975
Efri deild: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. um fjáröflun til vegagerðar, og á þskj. 218 leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. n. mun skila sérálíti.

Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það sem ég sagði hér við 1. umr. Það sem fyrir meiri hl. n. vakir, er fyrst og fremst það að gera innheimtu þessa gjalds sem ódýrasta, að hafa kerfið sem einfaldast svo að sem minnst af því fjármagni, sem lagt er á, fari í kostnað við að koma því til skila. Ég held að það sé það atriði sem þurfi að hafa í huga á sem flestum sviðum og athuga það nákvæmlega.

Í sambandi við brtt. minni hl. og ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. í gær langar mig að koma með örfáar ábendingar.

Í brtt. minni hl. er lagt til að lagður verði skattur á hvern lítra dísilolíu, 16 kr. á hvern lítra. Ef við athugum hvernig þetta kemur út t. d. fyrir bíl sem ekur 45 þús. km., eins og lagt er til grundvallar taxta leigubíla, og eyði hann um 13 lítrum á hundraðið, þá koma út úr þessum skatti 93 600 kr. eftir útreikningum sem við höfum fengið frá Landssambandi ísl. leigubifreiðastjóra. Hér er því um hækkun að ræða frá því sem lagt er til í frv. með fastagjaldinu og því held ég að það sé ekki til bóta hvað það snertir. Svo er aftur hvað varðar framkvæmdina á því að leggja þetta gjald á hvern lítra, þá var bent á það af hv. 12. þm. Reykv. í gær að það væri ekki auðvelt að koma því við. Hvernig á að fylgjast með því t. d. hvað er sett á vinnuvélar og hvað er sett á bíla? Það hefur sums staðar erlendis verið farið út í það að lita olíu sem er sett á bíla, en þá þarf heilan hóp af eftirlitsmönnum sem fylgist með því að það sé aðeins litaða olían sem er notuð til eldsneytis á bílana. Því held ég að það mundi ganga í þveröfuga átt og auk þess krefst það tvöfalds dreifingarkerfis sem einnig yrði stórkostlegur kostnaður af í okkar strjálbýla og fámenna landi. Það má aðeins geta þess að svíar t. d. reyndu að setja upp kerfið þannig að lita olíu á bifreiðar, en þeir hafa nú horfið frá því og tekið í staðinn upp annað kerfi. Ég held að þetta sé svo augljóst mál að það þurfi ekki að rökstyðja það frekar. En meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt.