18.12.1975
Efri deild: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

48. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Mál þetta er flutt af allshn. hv. Nd. eftir beiðni hagstofustjóra, eins og fram er tekið, og er sú breyting, sem þar um ræðir, efnislega fyrst og fremst á þá leið að héðan frá verði reiknaðir út og birtir ákveðnir verkþættir byggingargjalda fyrir einstök byggingarstig, enn fremur að vísitalan verði reiknuð út fjórum sinnum á ári í stað þess að nú er hún reiknuð þrisvar á ári og einnig að því sé slegið föstu að athugun fari fram eigi sjaldnar en á 5 ára fresti hvort ástæða sé til þess að endurskoða grundvöll vísitölunnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara fleiri orðum um frv. Því fylgir allítarleg grg., og í hv. Nd. var algjört samkomulag um afgreiðslu málsins. Félmn. þessarar hv. d. hefur athugað málið og leggur til að það verði samþykkt, eins og fram kemur í nál. á þskj. 210.