18.12.1975
Efri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

119. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað frv. til l. á þskj. 173 um breyt. á l. nr. 55 25. apríl 1973, um breyt. á l. nr. 75 13. maí 1966, um Fiskveiðasjóð Íslands. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að framlengja 1% gjald sem í apríl 1973 var lagt á fob-verð útfluttra sjávarafurða annarra en þeirra sem koma frá hvalveiðum, selveiðum og hrognkelsaveiðum, en þegar þetta gjald var á lagt var það með þeim takmörkunum að gjaldið skyldi aðeins innheimt af sjávarafurðum sem framleiddar væru á tímabilinu frá 1. júlí 1973 til 31. des. 1975. Þess ber jafnframt að geta að ríkissjóður hefur skuldbundið sig til þess að leggja fram jafnháa upphæð á móti, en gjald þetta og sú upphæð, sem ríkissjóður leggur fram, renna til Fiskveiðasjóðs. Nefndin var sammála um að fella niður þetta ákvæði, þessa tímatakmörkun, þannig að gjald þetta er án tímatakmörkunar. Telur nefndin það eðlilegt með tilliti til mikilla fjárþarfa Fiskveiðasjóðs. Nefndin var sammála um þessa afgreiðslu.