18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

89. mál, vörugjald

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Af því að tímanum er nú háttað eins og honum er nú háttað, verður maður að stilla sig, þó að ýmislegt hafi komið fram í ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna sem ástæða væri að fjalla um. Það verður þá að bíða betri tíma. En ég vil aðeins út af því, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, vék að í sambandi við greiðslu söluskatts af olíu til húsahitunar, taka fram að það er rétt að það hefur verið ólögmæt framkvæmd á þessu. En ég get huggað hann með því og létt af honum hans hneykslan, að það hefur verið gerð nú ný samþykkt um þetta í verðlagsnefnd þar sem ákveðið er að hætta þessu, og ég vona að hann verði ánægður með það. Það er slæmt að hann skyldi ekki vera búinn að fá upplýsingar um það áður. (Gripið fram í) Þá hefði hann getað sparað sér þessa miklu hneykslun.