18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

89. mál, vörugjald

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. í haust er m.a. að finna þessa setningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðað er við að 12% vörugjaldið verði afnumið um næstu áramót.“

Þessi yfirlýsing var í fyllsta samræmi við þann rökstuðning sem settur var fram fyrir brbl. um vörugjaldið. Strax í fyrirsögn þeirra var það kallað „sérstakt tímabundið vörugjald“ og áhersla lögð á að það ætti aðeins að gilda um takmarkaðan tíma. En svo gerist það í gær að á borð þm. kemur þskj. 198, sem er brtt. frá hæstv. fjmrh. við frv. til staðfestingar á brbl. um sérstakt tímabundið vörugjald, og þessi brtt. fjallar um að þetta sérstaka tímabundna vörugjald skuli ekki vera tímabundið að ráði, a. m. k. ekki næsta ár. Till. ber með sér að ríkisstj. hefur ákveðið að framlengja vörugjaldið, það skuli að vísu lækka úr 12% í 10% nú við áramótin, en þessi 10% skuli standa til ágústloka, síðan skuli koma annað lækkunarþrep og sé vörugjaldið haft 6% fjóra síðustu mánuði ársins. Í þessu felst að næsta ár verður vörugjaldið, þegar á heildina er litið, 82/3 árið í heild, svo að lækkunin milli ára er 31/3.

Þegar slík till. kemur fram frá hæstv. ráðh. á síðustu dögum þinghalds fyrir jól, þá mætti ætla að hún væri rækilega rökstudd og sýnt fram á að brýna þörf og skjótar og skyndilegar aðstöðubreytingar sem hafi gert slíkt ráðslag knýjandi og óhjákvæmilegt. En helstu rök hæstv. ráðh. fyrir því að framlengja tímabundna vörugjaldið, að gera það ótímabundið a. m. k. næsta ár, eru þau að ríkissjóður þurfi að standa straum af skuld sem myndast hefur við Seðlabankann á s. l. ári, og í öðru lagi að ríkissjóður þurfi að standa við ýmsar skuldbindingar gagnvart útgerð og fiskvinnslu í landinu.

Um þessa útgjaldaliði var tvímælalaust fyrir hendi allnáin vitneskja þegar fjárlagafrv. var lagt fram, a. m. k. þegar fyrir því var talað. Þá var þegar fyrirsjáanlegt að á ríkissjóði yrði mikill greiðsluhalli á yfirstandandi ári, og einmitt þá var nefnd sama tala og nú er talin munu standast, 3.5 milljarðar kr., sem greiðsluhalli á þessu ári. Sömuleiðis lágu þá fyrir, eins og nógsamlega hefur verið rakið og ég ætla ekki að endurtaka, flestir ef ekki allir þeir útgjaldaliðir sem komnir eru til vegna útgerðar og fiskvinnslu. Ég hlýt því að álykta — og ég býst við að fleiri geri svo — að það hafi eitthvað annað komið til sem hafi gert þessa ráðabreytni svo knýjandi að hæstv. fjmrh. hleypur til og breytir frv. um staðfestingu brbl. á svona róttækan hátt á síðustu stundu. Ég fæ ekki betur séð en að eina fullnægjandi og eðlilega skýringin sé sú, að komið hafi í ljós allmikið og óvænt gat á þeim fjárlögum sem hæstv. ráðh. lagði hér fyrir í haust, að það hafi komið í ljós við nánari skoðun að tekjuáætlun þeirra sé þannig úr garði gerð að hún standist ekki og nú þurfi að leggja á ný útgjöld til að bæta upp það sem á vanti að tekjuáætlun, sem gengið var frá í haust, fái staðist.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti í meðförum fjármála á þessu þingi sem ríkisstj. leggur fram till. um nýjar álögur og þær ekki smálegar. Strax í fjárlagafrv. var því slegið föstu að ríkisstj. væri staðráðin í því að taka í ríkissjóð tvö stig af söluskattsstofni sem undanfarið hafa gengið til Viðlagasjóðs. Þar er komin upphæð sem samkv. áætlunum um hvað söluskattsstig geri á næsta ári nemur alls ekki lægri fjárhæð en 2 milljörðum 300 millj. kr. og getur farið upp í hálfan þriðja milljarð. Nú kemur hér í viðbót framlenging á vörugjaldi sem talin er nema á næsta ári 2 milljörðum og 200 millj. kr. Og loks hefur verið lagt fram frv. um að hækka gjöldin, sem tekin eru af útsvarsstofni, um 1% eða 1 milljarð 200 millj. kr. Þetta gerir til samans 5 milljarða 700 millj. kr., sem eru nýjar álögur í ríkissjóð sem komið hafa frá hæstv. ríkisstj. á síðustu vikum.

Hvernig eru svo þessar álögur í hátt? Á hverja leggjast þær þyngst? Ekki þarf að spyrja að söluskatti. Hann leggst jafnt á flest alla neyslu og þjónustu. Vörugjaldið er tekið af takmörkuðum vöruhópi, en það leggst jafnt á alla sem þær vörur þurfa að nota. Og útsvarsstofninn er brúttótekjur allra landsmanna. Útsvarið og önnur gjöld sem eins eru lögð á, þ. á m. þetta nýja fyrirhugaða gjald til trygginganna, leggjast á alla sem einhverjar tekjur hafa, meira að segja í framkvæmd á síðasta ári eftir skattalagabreytinguna sem þá var gerð, á lífeyrisþegana á ýmsum stöðum. Framkvæmdin á því ákvæði á síðasta ári mun að líkindum verða til þess að upp verði tekin í öllum sveitar- og bæjarfélögum álagning á lífeyrisþegana.

Eins og ég sagði er gert ráð fyrir að 900 millj. af þeim 2200 millj. kr., sem afla á með framlengingu vörugjaldsins, fari til þess að standa straum af þeirri skuld sem ríkissjóður hefur stofnað til á líðandi ári við Seðlabankann. Sú skuld er þannig til komin að fjárhagur og fjárreiður ríkissjóðs á þessu ári hafa farið gersamlega úr reipunum. Það var ekki gert ráð fyrir neinum halla á ríkissjóði við afgreiðslu síðustu fjárlaga, heldur smávegis greiðsluafgangi. En það hefur farið svo á þessu ári að sá litli greiðsluafgangur hefur breyst í halla sem alls ekki verður lægri en hálfur fjórði milljarður og getur hæglega orðið meiri þegar öll kurl koma til grafar. Eins og útlit er fyrir að gengið verði frá fjárlögum nú, má heldur ekkert út af bera til þess að greiðsluafgangurinn litli, um 200 millj., breytist í nýjan greiðsluhalla.

Sá aragrúi af lítt undirbúnum og vanhugsuðum tillögum um breytingar á útgjaldaliðum og á tekjuliðum, sem dunið hefur yfir okkur þm. síðustu daga, er ekki til þess fallinn að vekja traust á þeirri fjármálastjórn sem þar er að verki. Það verður hreinlega ekki annað séð en hæstv. ríkisstj. viti varla frá degi til dags hvað hún ætlar að gera né hvað hún er að gera þegar hæstv. ráðh. bera fram unnvörpum brtt. við 2. eða 3. umr. við frv. sem þeir báru fram fyrir nokkrum víkum eða í hæsta lagi mánuðum. Hér skortir auðsjáanlega samfelld vinnubrögð og yfirsýn. Hér virðist um að ræða svo tilviljanakennda meðferð mála að niðurstaðan hlýtur að vera að hér séu að verki menn á valdi atvikanna í staðinn fyrir að þeir ættu, ef vel væri, að hafa vald á atburðarásinni. Og þær nýju álögur sem til hafa komið, eru þannig á lagðar að þar gengur jafnt yfir menn hver sem greiðslugetan er. Hér er sælst til að hafa hinar nýju álögur þannig að tekinn sé jafn hlutur af mönnum hvort sem efnahagur þeirra og tekjustig er hagstætt eða óhagstætt. Við þm. Samtakanna getum ekki staðið að slíku.m ráðstöfunum og greiðum því atkv. gegn fram komnum tillögum.