18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

89. mál, vörugjald

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vek athygli hv. þdm. á því að hæstv. viðskrh. viðurkenndi skýrt og skorinort í ræðu sinni áðan að undanfarin 41/2 ár hefði með ólögmætum hætti verið greitt úr verðjöfnunarsjóði olíu sem svarar söluskatti á olíu til fiskiskipa. Þetta upplýsti ég í ræðu minni, og nú er komin staðfesting á því af hálfu sjálfs hæstv. viðskrh. að þetta hefur átt sér stað. Jafnframt skýrði hæstv. ráðh. frá því, að nú nýlega hefði verið ákveðið að hætta þessum ólöglegu greiðslum úr verðjöfnunarsjóði olíunnar, og sagðist hæstv. ráðh. vona að þar með lyki hneykslun minni. En nú verð ég að valda honum vonbrigðum. Hneykslun mín var á því að það skyldi hafa getað viðgengist undir hans stjórn í 41/2 ár að ólöglegar greiðslur ættu sér stað úr verðjöfnunarsjóði olíu, m. ö. o. olíuverði hefði verið haldið hærra en það hefði þurft að vera, þannig að olíusjóðurinn skuldar vegna þessara greiðslna núna 450–460 millj. kr. Ég er því jafnhneykslaður og ég var í fyrri ræðu minni á því að slíkt skuli hafa getað gerst í 41/2 ár, þótt auðvitað sé fagnaðarefni að nú sé horfið frá því sem áður var ólögmætlega gert.