18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Í fyrirliggjandi frv. er óskað eftir heimild til handa ríkisstj. til þess að mega taka erlend lán sem nemur 3580 millj. kr. vegna ríkisframkvæmda á næsta ári. Og nú hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. flutt brtt. þar sem gert er ráð fyrir hækkun þessarar fjárhæðar í 4610 millj. kr. á nál. á þskj. 214 gerum við í minni hl. fjh.- og viðskn., ég og hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, grein fyrir almennri afstöðu okkar til þessa frv. og til þessara till., en hún er sú að við getum ekki fallist á að styðja þessa helmild. Meginástæðan er sú, að þó að við viðurkennum að hér sé leitað eftir heimildum til lántöku til ýmissa framkvæmda sem telja verður nauðsynlegar og eðlilegt að tekin séu lán til. þá er hér um að ræða hluta af heildarfjármálastefnu ríkisstj. sem við viljum ekki bera ábyrgð á á neinn hátt, og auk þess er hér stefnt að erlendum lántökum í sambandi við vissar framkvæmdir sem ég fyrir mitt leyti er algjörlega á móti að ráðist verði í.

Það hefur verið gerð nokkur grein fyrir áætluðum lántökum til opinberra framkvæmda á næsta ári, og sérstaklega koma fram allmiklar upplýsingar um þau mál í þeirri skýrslu sem ríkisstj. hefur látið gera um lánsfjáráætlun á árinu 1976. Það kemur í ljós að út frá því er gengið að tekin verði lán á næsta ári sem nema rétt tæpum 10 milljörðum kr. vegna ríkisframkvæmda. Þar er um bæði innlend og erlend lán að ræða, en auk þess er svo um að ræða lántökur vegna framkvæmda Landsvirkjunar, en þær lántökur er áætlað að nemi 3470 millj. kr. á næsta ári. Hér er því gert ráð fyrir því að lán verði tekin til ríkisframkvæmda og framkvæmda Landsvirkjunar sem nema samtals rúmum 13 milljörðum kr. Þó að ekki sé leitað eftir heimildum til þess að mega taka erlend lán meira en sem nemur 4.6 milljörðum, þá stafar það eingöngu af því að ríkisstj. telur sig hafa heimildir í öðrum lögum og annars staðar til þess að taka það sem upp á vantar, þannig að heildarlántakan fáist, sú sem ég var að greina frá. Hér er að sjálfsögðu um gífurleg ný lán að ræða og hefði vissulega verið ástæða til þess að hér hefðu getað farið fram á hv. Alþ. ítarlegar umræður um þær framkvæmdir allar, sem hér er stefnt að, og fjármögnun þeirra.

Í þessari skýrslu, sem ég vilnaði til, kemur m. a. fram, að út frá því er gengið að ráðist verði í hafnargerð við Grundartanga í Hvalfirði á næsta ári. Greint er frá því að heildarkostnaðaráætlun, sem nú liggur fyrir um það verk, nemi 600 millj. kr., en áætlað er að verja þegar í stað 50 milli. kr. til áætlunargerðar og hönnunar í sambandi við verkið. Í öðru lagi kemur fram í þessum upplýsingum, að gert sé ráð fyrir að taka þurfi lán vegna byggingar járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði að upphæð 975 millj. kr. Af þessu verður talið sem eigið fjárframlag ríkisins 800 millj. og 175 millj. kr. falla á hlut ríkisins vegna fjármagnsútgjalda, þ. e. a. s. í sambandi við vexti og afborganir af lánum sem þegar hafa verið tekin. Frá því er einnig skýrt í þessum upplýsingum, að þegar hafi verið greiddar á árinu 1975 445 millj. kr. vegna þessara framkvæmda.

Ég tel fyrir mitt leyti að það ætti að falla frá þessum fyrirætlunum varðandi járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði og hafnargerð þar. Það hefur þegar verið tilkynnt að byggingu verksmiðjunnar hafi verið frestað og standi yfir ný athugun ú málinu í heild. Ég hefði því talið eðlilegt að það hefði verið fallið frá ráðagerðum um fjárútveganir í þessum efnum og útgjöld að þessu leyti, vegna þess að ég álít að heilladrýgst hefði verið fyrir okkur að hætta með öllu við byggingu þessara mannvirkja, bæði hafnargerðina við Grundartanga og eins við byggingu verksmiðjunnar. Og ég tel mjög óeðlilegt að taka fjárútvegun í þessu skyni upp á lánsfjáráætlun næsta árs, þar sem málið er allt í rannsókn og engan veginn er víst að sú rannsókn leiði til þess að rétt þyki að halda áfram með þetta mannvirki.

Það er sem sagt augljóst að stefna hæstv. ríkisstj. er sú að halda áfram með byggingu verksmiðjunnar. Hún setur ekki fyrir sig, þó að þegar hafi verið tekið mikið af lánum, að bæta við allmyndarlegum fjárhæðum, — fjárhæðum sem fljótlega munu skipta nokkrum milljörðum, til þess að leggja fram ýmist sem stofnfé í þessa verksmiðju eða þá sem beint lánsfé og íslenska ríkið verður að leggja fram að sínum hluta til þessara framkvæmda. Ég álít að þetta dæmi eitt út af fyrir sig sýni einkar ljóslega hvernig hæstv. ríkisstj. lítur á þessi mál. Hún er ekki hrædd við auknar lántökur í sambandi við þessa framkvæmd, þar kvíðir hún engu. Þar skiptir ekki máli þó að þurfi að leggja í mikinn fjármagnskostnað á hverju ári, þ. e. vexti og afborganir af lánum, og þó að þurfi að bæta við miklum lánum til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, bæði hafnargerð og verksmiðjubyggingu, þrátt fyrir alla þá óvissu sem er ríkjandi um málið.

Hins vegar kemur það glöggt fram í þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í lánsfjáráætlun fyrir árið 1976, að ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um annað atriði sem miklu máli skiptir varðandi fjármál. en það er að það skuli dregið mjög verulega úr fjármagni til stofnlánasjóða atvinnuvega landsmanna og beinlínis gert ráð fyrir að það fjármagn, sem þeir eiga að hafa yfir að ráða, verði allmiklu minna en upplýsingar liggja fyrir um að þeir séu þegar búnir að taka á sig skuldbindingar um. Það er t. d. gert ráð fyrir því, að það eigi að vanta um 1 milljarð upp á ráðstöfunarfé Fiskveiðasjóðs, það ráðstöfunarfé sem hann telur að hann þurfi að hafa vegna þegar gefinna loforða. Og það er líka mjög táknrænt hvar niðurskurðurinn á einkum að koma til framkvæmda í sambandi við Fiskveiðasjóð. Stjórnendur Fiskveiðasjóðs hafa talið að þeir þyrftu að fá til lánveitinga 1.8 milljarða kr. vegna innlendra skipasmíða. Þetta á að skera niður í 1.3 milljarða kr. eða um 500 milljónir. Það á einnig að skera niður það sem stjórnendur sjóðsins telja óhjákvæmilegt að hafa sem fjármagn til uppbyggingar á vinnslustöðvum sjávarútvegsins, það á að skera niður og einnig á að skera niður lánveitingar til nauðsynlegra tækjakaupa og viðgerða á vegum Fiskveiðasjóðs. Ég tel að þessi stefna segi býsna mikið þegar það er haft í huga að ríkisstj. er alls ekkert á þeirri braut að minnka við sig lántökur eða draga almennt úr framkvæmdum. Hún er aðeins að breyta til. Það er verksmiðjubyggingin í Hvalfirði sem er sett á forgangslista, en úr stofnlánum til íslenskra atvinnuvega á að draga.

Það er alveg sama hvar á þessi mál er litið, það kemur alltaf út þessi sama mynd sem ég hef verið hér að vekja athygli á. Það er um samdrátt að ræða — jafnvel beint í krónum talið — til lánveitinga sem þjóna íslenskum atvinnuvegum og þeim málaflokkum sem hafa mikla þýðingu fyrir landsmenn, en hins vegar eru verulega aukin útgjöld m. a. til orkuframkvæmda, augsýnilega með það í huga að þessar orkuframkvæmdir eigi að verða undirstaða undir nýrri og erlendri stóriðju. Það er á móti þessari stefnu sem við alþb.- menn erum. Við teljum að hér sé stefnt í ranga átt og að þessi stefna hæstv. ríkisstj. geti aldrei leitt af sér annað en aukna erfiðleika. Það er rétt að út af fyrir síg geta framkvæmdir í orkumálum haft almenna þýðingu og verið gagnlegar og við þurfum vissulega á slíkum framkvæmdum að halda að vissu marki. En það er þýðingarlaust með öllu að neita því, að slíkar framkvæmdir eru efnahagslega erfiðar, þær kosta mikið átak á meðan þær standa yfir og fyrstu árin eftir að orkuverin eru komin upp. Hin nýju orkuver auka ekki á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar þegar fram í sækir og spara tiltölulega lítið á fyrsta stigi borið saman við þung útgjöld. Það er hví enginn vafi á því, að mjög einhliða áhersla á slíkar framkvæmdir með það í huga að ráðstafa verulegum hluta af orkunni á tiltölulega mjög lágu verði til erlendrar stóriðju hlýtur að valda okkur vaxandi erfiðleikum á næstu árum. Það er hins vegar skoðun mín að við hefðum átt að halda áfram að hlúa að íslenskum atvinnuvegum og beina því fjármagni, sem við höfum yfir að ráða, fyrst og fremst til þeirra til þess að styrkja aðstöðu þeirra og vinna þannig að því að auka gjaldeyrisframleiðsluna, en með slíkum ráðstöfunum hefði verið hægt að minnka þann vanda sem við er að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar miklu fljótar en verður, jafnvel þó að takist vel um stórframkvæmdirnar sem ráðgerðar eru eftir þeirri leið sem hæstv. ríkisstj. velur.

Ég skal ekki fara í meiri almennar umr. um þessi mál, en vil undirstrika það að við í Alþb. teljum okkur ekki fært að samþykkja það frv. sem hér er um að ræða. Vísa ég þar m. a. til þess nál. sem ég gat um áðan á þskj. 214 og ég stend að og hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, en við erum báðir á móti þessu frv.