18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

110. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Eyjólfur K. Jónsson:

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur rætt frv. til l. um aukatekjur ríkissjóðs og orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með einni örlítilli breytingu sem er nánast formsatriði. En það er að bætt sé við í 17. gr. orðunum: „enda sé ákvörðun þess eigi falin öðrum ráðh. með lögum“, en þar er gert ráð fyrir að fjmrh. setji í reglugerð ákveðin gjöld fyrir ýmiss konar leyfisbréf, skírteini og skráningar. En í fjölda laga er viðkomandi ráðh. ætlað að ákveða þessi gjöld og því eðlilegt að þetta ákvæði komi þarna inn í svo að ekki orki neitt tvímælis hverjir skuli ákveða gjaldið.