18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

121. mál, almannatryggingar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þar sem ég mun í máli mínu beina beinni fsp. til hæstv. ráðh., þá vil ég eindregið fara þess á leit að það verði kannað hvort hæstv. heilbrrh. sé í þinghúsinu, áður en ég byrja ræðu mína. (Forseti: Að beiðni hv. 8. landsk. þm. verða starfsmenn þingsins beðnir að kanna hvort hæstv. ráðh. er viðlátinn. — Starfsmaður þingsins ber þau boð, að hæstv. trmrh. sé ekki enn kominn í Alþingishúsið.) Hæstv. forseti. Mér finnst mjög óeðlilegt, þegar mál eins og hér um ræðir er til 1. umr. og þegar vita má að þm. kynnu að hafa ákveðnar fsp. fram að leggja fyrir hæstv. ráðh., enn fremur þar sem vitað er að það lifa ekki nema nokkrir klukkutímar eftir af starfstíma þingsins, þannig að e. t. v. gefst þess ekki kostur að koma þeim fsp. á framfæri við ráðh. sem ég hef í hyggju að bera fram, — þá finnst mér það nokkuð óeðlilegt að hæstv. ráðh. sé ekki mættur þegar þingfundur hefst að nýju og á að taka stórmál, sem hann flytur til umr. Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. forseta hvort það sé möguleiki á því að reynt sé að hafa samband við ráðh. og spyrja þess hvort hann sé væntanlegur fljótlega í þingsalinn. (Forseti: Ég get fallist á það með hv. þm. að ekki er ráðh. vandara um en okkur öðrum að sækja fundi á þessum annadögum. En jafnframt vil ég beina því til hv. þm. hvort ekki eru önnur efnisatriði í ræðu hans sem ekki víkja beint að hæstv. ráðh. meðan ég læt enn reyna að koma til hans boðum.) Það eru að sjálfsögðu ýmis atriði í minni ræðu, sem ekki lúta beint að fsp. til hæstv. ráðh., og mun ég þá hefja mitt mál og vænti þess þá að leitað sé eftir því að ráðh. komi í salinn. Þegar að því kemur að ég muni bera fsp. fram til hæstv. ráðh., þá mun ég aftur gera hlé á máli mínu.

Herra forseti. Áður en ég kem að efni þess frv., sem hér er flutt, langar mig til þess að fara örfáum orðum um orsök þess að það er flutt. Einkum og sér í lagi vil ég nota tækifærið til þess og jafnframt til þess að lýsa afstöðu þingflokks Alþfl. til þessa frv. þar sem fulltrúi okkar á ekki sæti í þeirri hv. nefnd sem væntanlega fær þetta mál til umfjöllunar.

Það kemur fram í grg. með þessu frv. á bls. 2 hvað veldur því í raun og veru að mál þetta er tekið upp hér á hinu háa Alþ. Þar er greint frá framlögum annars vegar til lífeyristrygginga og hins vegar til sjúkratrygginga á nokkrum undanförnum árum. Þar kemur í ljós að á árinu 1974 hafa orðið alger umskipti í sambandi við tengsl lífeyristrygginga og sjúkratrygginga. Fram til ársins 1974 er kostnaður við sjúkratryggingar talsvert lægri en kostnaður við lífeyristryggingar. Á árinu 1974 gerist það hins vegar í fyrsta skipti að sjúkratryggingar gerast dýrari en lífeyristryggingar, og á næstu árum á eftir, árin 1975 og 1976, hefur þetta bil breikkað að mjög miklum mun. Ef við tökum árabilið 1972–1976, þá hafa framlög til sjúkratrygginga hækkað úr 2887 millj. kr. í 11629 millj. kr., eins og framlagið eða kostnaðurinn við kerfið er áætlaður 1976. Á sama tíma hefur hins vegar kostnaður við lífeyristryggingar hækkað úr 3178 millj. kr. í 7715 millj. kr. Sjúkratryggingar, sem allt fram til ársins 1974 voru ódýrari, kostuðu minna en lífeyristryggingar, eru nú um það bil 50% dýrari, um það bil 50% kostnaðarmeiri. Þessar tölur segja okkur vitaskuld ákveðna sögu. Sagan er ekki sú að lífeyristryggingarnar hafi á þessu árabili dregist svo ýkjamikið aftur úr. Það hefur ekki orðið um afturför að ræða í lífeyriskerfinu á þessu árabili þegar lítið er á árabilið í heild, svo að skýringin á þessum mikla mismun milli kostnaðar við lífeyristryggingar og kostnaðar við sjúkratryggingar liggur sem sé ekki í því að lífeyristryggingarnar hafi dregist aftur úr. Það, sem hins vegar hefur gerst, er að kostnaður við sjúkratryggingakerfið hefur vaxið að miklum mun. Þetta kemur glögglega fram í þessum talnasamanburði. Þá er spurningin að sjálfsögðu sú: Hvað veldur því að kostnaður við sjúkratryggingar hefur vaxið svo mjög, að því er sumir munu jafnvel segja keyrt úr hófi fram?

Við skulum þá í fyrsta lagi gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki aðeins reynsla sem við Íslendingar höfum orðið fyrir, þetta er jafnframt reynsla sem okkar nágrannaþjóðir hafa orðið fyrir og stafar fyrst og fremst af því að kostnaður við heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu hefur farið mjög ört vaxandi á fáum árum. Þessi kostnaður hefur vaxið svo ört að í ýmsum nálægum löndum, sem búa við svipað stjórnarfar og við íslendingar gerum og eru með svipaðar félagslegar aðstæður eins og eru fyrir hendi hér á Íslandi, í ýmsum af þessum löndum, t. d. Bretlandi, er sjúkratryggingakerfið nú að komast í þrot vegna þrýstings frá stöðugum kostnaðarhækkunum við heilsugæslu. Það, sem bretar standa frammi fyrir nú, er það vandamál að sjúkratryggingakerfið, samhjálparkerfið í þjóðfélaginu sem á að tryggja sjúku fólki viðunandi lífsöryggi, það er að bresta, þetta tryggingakerfi er að bresta undan ofurþunga stöðugt hækkandi útgjalda og hækkandi kostnaðar við heilsugæsluþjónustu. Ég held að það sé ekki ofsagt að þessi þróun sé einhver óskaplegasta ógnun við grundvallaratriði velferðarþjóðfélags sem vestrænar þjóðir horfast nú í augu við. Að vísu eru til margar skýringar á því hvað veldur því að kostnaður við heilsugæslu og heilbrigðismál hefur vaxið svo gríðarlega ört á svo fáum árum.

Ég tek það sérstaklega fram að ég er hér ekki að benda á nein ný sannindi. Hér er um mál að ræða sem a. m. k. alþm. og raunar þjóðinni allri hefur verið ljóst um nokkuð langt skeið að hefur verið að gerast. Ég vek í þessu sambandi sérstaka athygli á till. til þál. á þskj. 164 sem tveir hv. þm., sem jafnframt eru læknar, þeir Sverrir Bergmann og Oddur Ólafsson, hafa flutt, en þar leggja þeir til að fram fari könnun á skipulagi ýmissa þátta heilbrigðisþjónustunnar með það að markmiði að gera heilsugæslukerfið ódýrara með því að beita hagræðingu, aðhaldi og sparnaði.

Vissulega má rétt vera að kostnaðurinn við heilsugæslu og þar með sjúkratryggingakerfi stafi að einhverju leyti af því að það sé ekki beitt nógu hagrænum vinnubrögðum í sambandi við skipulagningu sjálfrar heilbrigðisþjónustunnar, eins og þeir ætla, læknarnir, hv. þm. Sverrir Bergmann og Oddur Ólafsson, sem ættu að vera þeim hnútum nokkuð kunnugir. Hins vegar er því heldur ekkert að leyna, að það er skoðun ýmissa, m. a. skoðun mín, að þarna komi fleira til. Ég vil sérstaklega minna á það að blaðamaður og rithöfundur, Þorsteinn Thorarensen, skrifaði fyrir örfáum árum greinaflokk í dagblaðið Vísi þar sem hann lýsti þessu vandamáli frá annarri hlið, þ. e. a. s. þar sem hann fjallaði sérstaklega um miklar kröfur ýmissa heilsugæslustétta, ekki aðeins til hærri launa, jafnvel óeðlilega hárra launa, heldur einnig til mjög dýrrar aðstöðu. Ég ætla ekki að gera mig að dómara í þessari sök. Ég held að þarna sé um að ræða bæði þessi atriði sem valda hinum miklu og óhugnanlegu kostnaðarhækkunum í sambandi við heilsugæslumál sem nú ógna sjúkratryggingakerfinu, það sé bæði skortur á skipulagi í heilbrigðisþjónustunni og enn fremur oft á tíðum mjög óeðlilegar kröfur ákveðinna heilsugæslustétta, þó langt í frá stéttanna í heild, heldur ákveðins hluta þeirra, mjög óeðlilegar launakröfur.

Mér er kunnugt um ýmis dæmi í þessu sambandi sem ég býst við að mörgum hv. þm. sé enn fremur kunnugt um. Mér er t. d. kunnugt um það, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur borist bréf frá sveitarfélagi einu hér í landinu sem þurfti á aðstoð skólatannlæknis að halda, þurfti að ráða sér skólatannlækni til starfa í einn mánuð til þess að sinna tannlæknishjálp við börn á skólaaldri. Sú reikningsupphæð, sem tannlæknir þessi gerði sveitarfélaginu að greiða fyrir þessi störf í einn mánuð, nam 2.5 millj. kr. Þó höfðu honum verið fengin í hendur bæði tæki til þess að vinna verkið, ókeypis farareyrir heiman og heim og ókeypis húsnæði á staðnum. Ef þetta er algild regla hjá þessari ákveðnu heilbrigðisstétt, þá er óhætt að fullyrða að það eru a. m. k. til dæmi um að tannlæknar geti tekið allt að 15 millj. kr. í árslaun, einn maður, frá 15–20 millj. kr. í árslaun eftir því hvað það efni, sem hann notar við tannlæknishjálpina, hefur verið dýr þáttur í tekjum hans. Þá er mér enn fremur kunnugt um að það hafa verið lagðar fram fyrir sveitarfélög hér í nágrenni Reykjavíkur reikningar frá skólatannlæknum fyrir hálfs dags vinnu sem samsvarar því að þeir taki sér í laun 50 þús. kr. á dag fyrir hálfs dags vinnu við skólatannlækningar. Þessi bréf eru líka til í vörslu sveitarfélags í nágrenni Reykjavíkur.

E. t. v. eru þetta algerar undantekningar, þau dæmi sem ég hef hér nefnt. En vissulega vekja þau mann til umhugsunar um hvort það getur átt sér stað að það séu kröfur af þessu tagi frá tiltölulega fámennum hópi manna sem standi á bak við hinar gífurlegu kostnaðarhækkanir, sem orðið hafa á örfáum árum í sambandi við heilbrigðisþjónustuna og eru orðnar svo miklar að þær ógna núna, eins og sakir standa, kerfi sjúkratrygginga í landinu. Ég tel að áður en lagt er út á þá braut, sem hér er gert með því að hæstv. ríkisstj. og ríkissjóður raunverulega gefist upp fyrir þeim vanda sem við er að glíma til þess að halda sjúkratryggingakerfinu í lagi, — áður en lagt er út á þá braut ætti að kanna hvað það er, sem orsakar þessar óeðlilegu og öru kostnaðarhækkanir varðandi heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisgæslu sem orðið hafa á örfáum árum og hafa gert það að verkum, eins og ég sagði áðan, að ógna einni helstu undirstöðu velferðarríkis á Íslandi þar sem sjúkratryggingar eru.

Það sem mér finnst, svo að ég snúi mér að þessu frv., það sem mér finnst einkum og sér í lagi athugavert við þá stefnu, sem þetta frv. boðar, er að gagnvart þessum vanda, sem ég hef hér reynt að lýsa, gefst hæstv. ríkisstj. upp. Hún grípur ekki til þess ráðs að reyna að kanna hvaða orsakir séu fyrir því að sjúkratryggingakerfið í landinu sé að bresta undan kostnaðarhækkunum. Hún leggur ekki út á þá braut, heldur tekur hins vegar upp það úrræði að veita kostnaðarhækkuninni ýmist yfir á sjúklingana sjálfa eða skattborgara með aukinni og sérstakri tekjuöflun í þessu skyni. Það mætti svo sem segja að úrræði eitthvað í þessa veru gætu menn sætti sig við um stundarsakir. En mig uggir það mjög að hér sé ekki um stundarfyrirbrigði að ræða, heldur fyrirboða um það sem koma skal, að á næsta ári eða því þar næsta verðum við ekki að ræða um úrlausn eins og þá, sem hæstv. ráðh. hefur hér mælt fyrir, heldur e .t. v. enn frekar um úrlausn eins og þá sem hann minntist á í ræðu sinni hér áðan að til mála hefði komið, þ. e. a. s. að leggja sérstakt gjald á sjúklinga á sjúkrahúsum, væntanlega þá fyrst eitthvert innritunargjald og síðan gjald á legudag, þannig að fyrir meðalsjúkrahúslegu gætu sjúklingar þurft að greiða 30–40–50 þús. kr., eins og ég hygg að hafi falist í þeirri hugmynd sem hann drap á áðan. Og fyrst við á annað borð erum komnir út á þessa braut sem ég tel að verið sé að byrja að feta eftir með þessu frv., hvar getur þetta þá endað? Það endar auðvitað hvergi annars staðar en í svipuðu kerfi og í Bandaríkjunum þar sem venjuleg launþegafjölskylda getur ekki risið undir kostnaði við algengustu læknisaðgerðir og þess er krafist á spítölum áður en sjúklingar eru teknir til meðferðar að þeir leggi fram skriflega greinargerð og yfirlýsingu sem sanni greiðslugetu þeirra ella eru þeir ekki teknir inn á sjúkrahúsið. Ég ber mikinn ugg í brjósti um að með þessu, sem er lagt til í því frv. til l. sem hér er til umr., sé verið að taka fyrstu sporin eftir þessari braut. Og ég vil eindregið vara hæstv. ríkisstj. við því hvernig hún hyggst leysa þetta vandamál, þ. e. a. s. að endurskoða ekki kostnaðinn við heilbrigðiskerfið með það fyrir augum að hann verði eðlilegur, með svipuðu móti og hann hefur verið allt fram til 1973–1974, heldur að leysa þennan vanda, sem við er að etja í dag, með því að láta allt haldast óbreytt að öðru leyti en því að taka upp á því að veita töluverðum hluta kostnaðarins yfir á sjúkt fólk í samfélaginu.

Svo að ég víki frekar að frv. þessu, þá kemur það fram í 1. gr. frv. að áætlað er að leysa hluta af vandamáli sjúkratryggingakerfisins með því að leggja á sjúkt fólk og fólk, sem þarf á lyfjagjöfum eða sérfræðihjálp að halda, nýjar álögur sem nema 480–500 millj. kr. á ári. Það mætti svo sem segja að nóg væri á þetta fólk lagt fyrir. Það þarf að bera allar þær almennu skattahækkanir, sem boðaðar hafa verið hér á hinu háa Alþ. á síðustu dögum, — þessar skattahækkanir þarf þetta sjúka fólk að bera til jafns við þá, sem heilbrigðir eru. Þetta fólk hefur þurft að bera afleiðingarnar af óðaverðbólgustefnu hæstv. ríkisstj. sem hafa stórlega rýrt kjör almennings í landinu. Þessir sjúklingar hafa þurft að bera afleiðingar þess arna ekki siður en almennt launafólk í þjóðfélaginu, þeir sem heilbrigðir eru. Svo ætlar hæstv. ríkisstj. að bæta gráu ofan á svart með því að leggja sérstakar álögur að upphæð um 500 millj. kr., ekki á hina heilbrigðu þjóðfélagsþegna í samfélaginu, heldur á þá sem þurfa á læknishjálp og lyfjagjöfum að halda. Þetta er sem sé lausn hæstv. ríkisstj. á þeim vanda sem ég var að lýsa hér áðan, að bæta sérstökum álögum á sjúkt fólk. Þannig á að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs. Það á að leysa 500 millj. kr. fjárhagsvanda með því að taka þá byrði af ríkissjóði og leggja hana á bak þeirra sjúku í samfélaginu.

Það má vel vera að hæstv. ríkisstj. þyki þessi kostur góður. En ég verð að segja eins og er, að á sama tíma og 45% allra þeirra einstaklinga, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri í landinu, — á sama tíma og 45% allra slíkra einstaklinga borga ekki grænan eyri til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar í formi tekjuskatts, þá velur hæstv. ríkisstj. þá leið að hlífa þessum einstaklingum til þess að geta lagt 480–504 millj. kr. aukabyrði á sjúkt fólk í þessu þjóðfélagi. Og á sama tíma og hundruð atvinnufyrirtækja sem samtals velta á milli 100 og 130 þús. millj. kr. á ársgrundvelli, — á sama tíma og þessi atvinnufyrirtæki borga ekki grænan eyri til sameiginlegra þarfa þjóðarbúsins í formi tekjuskatts, þá velur hæstv. ríkisstj. þá leið til þess að bjarga sér út úr fjárhagskröggum að leggja 480–500 millj. kr. nýja byrði á þá sem þurfa að leita sér lækninga eða lyfjagjafa. Þetta er auðvitað glögg vísbending um hvers konar ríkisstj. situr að völdum á Íslandi. Þetta er ríkisstj. sem vill hlífa þeim sem nú þegar sleppa við að axla sameiginlega með öðrum þjóðfélagsþegnum þær byrðar sem íslendingar þurfa saman að axla. Þetta er ríkisstj., sem vill hlífa þessum atvinnufyrirtækjum sem ég nefndi hér áðan, þessum atvinnurekendum sem ég nefndi hér áðan, og hún vill hlífa þeim þó að það kosti það að hún þurfi að leggja á sjúkt fólk 480–500 millj. kr. nýjar álögur. Ríkisstj., sem þannig hegðar sér, er að sjálfsögðu forhert afturhalds- og íhaldsstjórn enda hef ég aldrei frá upphafi þessa stjórnartímabils efast um að svo muni vera. Nóg um það. Ég held, að það komi algerlega og glögglega fram í þessum orðum mínum að þingflokkur Alþfl. er á móti efnisatriðum 1. gr. þessa frv. og mun greiða atkv. gegn þeim.

Annað meginatriði frv. kemur fram í 3. gr. þess. Þar er gert ráð fyrir því að innheimta sérstakt 1% álag á gjaldstofn útsvara til tekjuöflunar fyrir sjúkratryggingakerfið og losa ríkissjóð undan framlögum sem því nemur. Ég vil taka það sérstaklega fram að við höfum sagt það alþfl.-menn, í umr. um þetta mál og áður en þetta mál kom á dagskrá, að ef valkosturinn væri um það annars vegar að skera niður lífeyristryggingar eða auka byrði sjúkra í samfélaginu, ef valkosturinn sé á milli þess annars vegar og hins vegar þess að leggja nýjar byrðar að einhverju leyti á þá sem hraustir eru og heilbrigðir í þessu samfélagi og fullvinnandi, þá mundum við velja síðari kostinn þótt við gerum okkur fyllilega ljóst að það er ekki vinsæll kostur. Þess vegna mætti spyrja okkur hvort við hefðum eitthvað á móti þeirri leið sem til greina kemur í 3. gr. þessa frv. Í því sambandi vil ég benda sérstaklega á það að við undirbúning að þessari innheimtu hefur hvorki verið haft samráð, — a. m. k. ekki samráð að neinu gagni — við þá nefnd, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka til þess að taka tryggingamálin til athugunar, né heldur hið minnsta samráð við sveitarfélögin sjálf og samtök þeirra. Þetta er hugdetta sem hæstv. ríkisstj. grípur svo að segja úr lausu lofti og slengir fram á borð okkar alþm. örfáum dögum fyrir þingfrestun vegna jólaleyfis. Og mér er ekki kunnugt um það a. m. k. hefur það ekki komið fram að nokkur athugun að ráði hafi verið gerð á því af hálfu hæstv. ríkisstj. hvort ekki væri einhver önnur og betri leið heldur en fram kemur í 3. gr. fær til þess að útvega sjúkratryggingakerfinu meira fé. Það hefur t. d. engin athugun verið gerð á því hvort unnt sé að spara hluta af þessu fjármagni í rekstrarútgjaldaliðum ríkissjóðs. Það hefur engin athugun verið gerð á því hvort þetta sé eðlileg og æskileg innheimta. Og í því sambandi vil einkum og sér í lagi benda á það að sveitarfélögin sjálf eru mjög mótfallin þessari innheimtu sem hér um ræðir, ekki endilega vegna þess að þarna sé verið að leggja ný gjöld á sveitarfélögin því að það er ekki verið að gera, — það er verið að leggja ný gjöld á útsvarsgreiðendur, en ekki sveitarfélögin sjálf, svo að það er ekki ástæða fyrir því að sveitarfélögin hafa mótmælt. Sveitarfélögin hafa mótmælt þessari leið vegna þess að þau telja að hún sé bæði mjög kostnaðarsöm og illframkvæmanleg, þarna sé verið að ráðast út í tekjuöflun sem sé óeðlilega flókin, óeðlilega dýr og hafi í verið ráðist mjög svo að óathuguðu máli. Á sama tíma og boðaður er samdráttur í ríkisrekstrinum og almenn hagræðing í ríkisrekstri og opinberum rekstri er hér verið að setja upp sérstakt innheimtukerfi við hliðina á öllum þeim öðrum sem fyrir eru. Þetta tel ég að stefni þvert gegn því sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað.

Eftir samþykkt þessa frv. verður því um að ræða tvenns konar kostnaðaraðild sveitarstjórna að sjúkratryggingakerfinu. Í fyrsta lagi þurfa þau að standa skil á 10% kostnaðarframlagi sinu. Í öðru lagi þurfa þau að annast þessa sérstöku innheimtu fyrir sjúkratryggingakerfið og gera skil á því sérstaklega. Ég vil benda sérstaklega á það að um þetta hefur ekkert samráð verið haft við sveitarfélögin og þau hafa alfarið lagst gegn þessari tekjuöflun. Ég vil enn fremur biðja hv. þm. að gefa því gaum að samkv. grg. frv. er ráð fyrir því gert að þessi sérstaka innheimta geti skilað um 1200 millj. kr. af þeim 667 millj. sem þar um ræðir. Nú held ég að það sé rétt frá skýrt að þetta 1% álag, ef það allt innheimtist, geti skilað þessari upphæð. En reynsla sveitarfélaganna er sú að það innheimtist aðeins á hverju ári um 80% af álögðum útsvörum, svo að það eru aðeins um 80% af þessum 1200 millj. kr. sem á að fá sjúkratryggingakerfinu með þessari innheimtuleið. Það eru aðeins 80% af því fé sem líklegt er að innheimtist á næsta ári. Hver á þá að brúa bilið? Hver á þá að jafna mismuninn á útgjöldum og tekjum sjúkratryggingakerfisins? Mér er kunnugt um að yfirvöld Reykjavíkurborgar spá því að þau muni geta með þessari innheimtu skilað sjúkratryggingakerfinu um 400 millj. kr. á næsta ári. Álögð útsvör í Reykjavík eru um 40% af álögðum útsvörum yfir landið í heild, þannig að það má reikna með því að þetta kerfi geli skilað sjúkratryggingunum um 900–950 millj. kr. á næsta ári og þá vantar 250–300 millj. kr. upp á það að sjúkratryggingakerfið fái þær tekjur sem það á að fá samkv. þessu.

Því spyr ég hæstv. ráðh.: Hvernig er ætlunin að jafna þennan mun á næsta ári? Mér kemur ekki til hugar að hann hafi í sínum útreikningum miðað við aðrar tölur en þessar, a. m. k. ekki hafi hann eitthvert tal haft af forráðamönnum sveitarstjórnarmála áður en hæstv. ráðh. mælti fyrir máli þessu í hv. Ed., að mig minnir í gær.

Þá er líka mjög erfitt fyrir sveitarfélögin að sundurgreina sína innheimtu vegna þess að á einu og sama árinu eru sveitarfélögin að sjálfsögðu að innheimta margra ára gjöld. Á næsta ári, árinu 1976, innheimta þau ekki aðeins útsvör ársins 1915, heldur líka útsvör ársins 1974, 1973, 1972 o. s. frv. Hvernig halda menn svo að útkoman verði þegar á að fara að greina niður alla þessa innheimtu til réttra ára mánaðarlega til þess að geta staðið sjúkratryggingakerfinu skil á þeirri sérstöku innheimtu sem hér um ræðir? Það verður að sjálfsögðu ekki nóg að gera þetta uppgjör tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum á ári, það verður að gera þetta uppgjör mánaðarlega. Þá liggur það einnig fyrir að um helmingur allra útsvarstekna sveitarfélaga innheimtist á 3–4 síðustu mánuðum ársins. Um helmingur af öllum tekjum sveitarfélaganna af álögðum útsvörum og innheimtum útsvörum kemur á þessum mánuðum. Hins vegar er sveitarfélögunum ætlað að standa skil á þeim framlögum til sjúkratryggingakerfisins sem þeim er ætlað að innheimta mánaðarlega. Og þá spyr ég hæstv. ráðh.: Er það meiningin að þau skili aðeins mánaðarlega þeim hluta sem þeim er ætlað að innheimta og inn kemur, eða á að jafna þessum gjöldum á hina 11 innheimtumánuði ársins, þannig að fyrstu 8 mánuði ársins þurfi sveitarfélögin að greiða meira til sjúkratryggingakerfisins heldur en þau hafa innheimt? Þetta vildi ég gjarnan fá að vita líka.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðh. að því til þess að fá það alveg skýrt fram: Hefur þessi innheimta nokkur áhrif á það að sveitarfélögunum verði heimilað að leggja 1% álag á gjaldstofn útsvara eins og þeim hefur verið heimilað undanfarin ár, þ. e. a. s. að sveitarfélögum verði heimilað að leggja á 11% upp í útsvar? Hefur þessi innheimta einhver áhrif á þetta eða mun þetta verða til þess að sveitarfélögunum verði fyrir fram meinað að leggja út á þessa innheimtubraut sem a. m. k. flest þéttbýlissveitarfélögin hér í nágrenninu hafa notað á undanförnum árum? Ef sveitarfélögunum verður meinað þetta, þá er hér að sjálfsögðu um beint fjárhagslegt tap þeirra að ræða. Ef sveitarfélögunum verður ekki meinað þetta, þá er hér um beina nettóskattahækkun að ræða, enn einn nýjan skatt sem hæstv. ríkisstj. er að leggja á landslýð með aðeins fárra daga, jafnvel fárra klukkustunda umhugsun og umr. hér á hinu háa Alþingi.

Þá sagði hæstv. ráðh. áðan að hann teldi eðlilegt, að sveitarfélögin tækju þátt í rekstri ýmissa mannvirkja og þjónustustofnana. Hann sagði einnig, sem ég veit að er rétt, að þetta hafi ávallt verið hans stefna, m. a. vegna þess að þá teldi hann að sveitarfélögin gætu haft nokkur aðhaldsáhrif á hvernig þessar stofnanir eða þessi þjónusta væri rekin. En í sambandi við þetta mál, sem hér um ræðir, hefur þessi röksemd ekki nokkurt gildi, vegna þess að þó að sveitarfélög greiði einhvern hluta kostnaðar við rekstur sjúkrahúsa, þá vita allir sem nálægt sveitarstjórnarmálum hafa komið og átt hafa hlutdeild í rekstri sjúkrahúsa að sveitarfélögin geta eiginlega engin eða svo til engin áhrif haft á það hvernig þessi sjúkrahús eru rekin. Þau geta raunar engin áhrif á það haft í eina eða neina átt, svo að sú röksemd hefur bókstaflega ekkert gildi að ætla að halda því fram að það að leggja auknar byrðar á sveitarfélög geti haft þau áhrif að aukinni hagræðingu verði beitt í sambandi við rekstur sjúkrahúsa.

Herra forseti. Ég vil nú láta máli mínu lokið að sinni. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að þm. Alþfl. munu greiða atkv. gegn þessu frv. Við teljum að í því felist röng stefna. Við teljum að í því sé engin tilraun gerð til þess að svara því hvernig eigi að leysa vanda sjúkratrygginganna án þess að skerða félagslegt öryggi í samfélaginu. Við teljum raunar að eina svarið, sem hægt er að segja að hæstv. ríkisstj. gefi í þessu frv., sé að leggja út á þá braut að velta kostnaðarhækkunum vegna skipulagsgalla á heilbrigðiskerfinu eða of mikillar kröfugerðar heilbrigðisstétta um laun og önnur hlunnindi sér til handa, — velta þeim kostnaðarhækkunum yfir á sjúka fólkið í landinu. Ef eitthvert svar finnst í þessu frv. við þeim vandamálum sem ég hef lýst, þá er það þetta. Og þetta er svar sem þm. Alþfl. munu ekki sætta sig við og munu aldrei fylgja.