18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

121. mál, almannatryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Það frv., sem nú liggur hér fyrir framan okkur til afgreiðslu, er í einu orði sagt hraksmán. Það ber enn einu sinni vitni andfélagslegri kjaraskerðingarstefnu þessarar ríkisstj. þar sem kjaraskerðingin er ævinlega látin bitna á þeim sem minnst mega sín, í þessu tilfelli á sjúkum, öryrkjum og gamalmennum. Það er kannske allt í lagi fyrir okkur, sem erum við sæmilega heilsu og höfum allsæmileg laun, svo að ekki sé meira sagt, að greiða meira fyrir þau lyf sem við þurfum sem betur fer ekki á að halda nema einstaka sinnum. En það ætti að segja sig sjálft að eftir því sem aldur færist yfir, svo að ekki sé talað um þá sem ekki geta unnið vegna öryrkju, verður heilsufarið klénna og og meiri þörf fyrir læknishjálp og lyf. Á þetta fólk er ráðist fyrst og fremst með 1. gr. þessa frv., aldraða, öryrkja og sjúklinga með meira og minna skertar tekjur vegna veikinda sinna. Kannske gerir hæstv. ríkisstj. því skóna að þessi hópur sé einnig með skerta getu til andmæla og því sé allt í lagi að ráðast þannig á garðinn þar sem hann er lægstur. Og það er svo sem í þeim sama anda og aðrar ráðstafanir þessarar hæstv. ríkisstj. samfara makalausu fjárlagafrv., algert siðleysi.

Hefur hæstv. ríkisstj. og hv. þm. hennar gert sér grein fyrir því á hvaða sultarlaunum öryrkjar og ellilífeyrisþegar eiga að lifa? Vita þessir hv. þm. að tekjutrygging þessa fólks er ekki nema rúmlega 29 þús. kr. á mánuði, þ. e. a. s. minna en helmingur af meðaltaxta Dagsbrúnar fyrir 8 stunda vinnudag? Og þessi sultarlaun hafa ekki hækkað þrátt fyrir heimild frá 1. okt. og þótt þau eigi að hækka lögum samkv. innan 6 mánaða. Ef við tökum t. d. manneskju úti á landi með þessa upphæð í ellilífeyri og tekjutryggingu samanlagt, má reikna með að hún þurfi kannske að borga 12–14 þús. kr. bara í olíukostnað við upphitun íbúðar sinnar, og þegar við bætast, sem ekki er ólíklegt, lyf upp á 3–4 þús. eða meira, hver er þá afgangurinn? Það hlýtur hver maður að sjá að þetta er hungurtilvera. Hitt er svo annað mál, að í rauninni leiða þessar till. um auknar greiðslur sjúklinga fyrir lyfin ekki til sparnaðar, og virðist stjórnarliðið ekki hafa hugsað málið til enda í öllu því flaustri sem einkennt hefur undirbúning mála og málsmeðferð þeirra hér á Alþ. að undanförnu. Hver verður afleiðingin af þessu? Hún verður nefnilega ekki önnur en sú að þetta fólk, sem ekki gelur greitt svo stóran hlut lyfjakostnaðar síns, mun leita uppbóta á tekjutryggingu og fá hana, 4–5 þús. kr. á mánuði. Og hvað kostar það? — Það má líka skjóta því hér inn að þar með er þetta fólk komið með rétt til undanþágu frá útvarps- og sjónvarpsgjaldi, en eins og fram kom í umr. hér um daginn sjá forráðamenn Ríkisútvarpsins og ráðh. þess ekki svo litlum ofsjónum yfir slíku. Það má kannske segja að þarna sé þá eitthvað jákvætt við þetta frv.

Þessi svokallaða sparnaðarleið ríkisstj. er þannig í rauninni enginn sparnaður um 480 millj., eins og sagt er í frv., heldur ekkert annað en bókfærsla,tilfærsla á útgjaldaliðum og rétt einu sinni gerð tilraun til að velta útgjöldum ríkissjóðs yfir á sveitarfélögin sem kæmu til með að greiða uppbæturnar. Það verður sem sé fljótlegt að greiða aftur út þessar 480 millj., og eftir því verður áreiðanlega leitað af viðkomandi. Þar með er ekki sagt að ekki væri hægt að spara á annan hátt í sjúkratryggingum ef menn vildu og þyrðu að láta bitna á einhverjum öðrum en þeim sem lítt geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það mætti t. d. endurskoða greiðslur til lækna. Hefur ríkisstj. athugað hvað þeir fá í aðra hönd? Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson minntist hér á frægt dæmi um tannlækni. Það má segja fleiri sögur. Við skulum t. d. taka ferðir sérfræðinga út á land. Í því sambandi er mér kunnugt um og hef það frá starfsmönnum Tryggingastofnunarinnar, að stofnunin hefur mátt greiða reikninga upp á milljónir króna fyrir tveggja mánaða vinnu. Og það mætti svo sannarlega endurskoða ýmislegt annað í sjúkratryggingagreiðslum. En fyrst og fremst ætti að endurskoða þær efnislega, en ekki bara tölulega. Og skyldi þá ekki sitthvað fróðlegt koma í ljós?

Ef betur er að gáð kemur reyndar fram önnur ástæða fyrir því að nú er lögð áhersla á að breyta lögum um lyfjagreiðslurnar. Hæstv. ráðh. kom inn á það áðan að þetta væri í fullu samræmi við lög frá 1974. En þá var föst greiðsla fyrir lyf lögleidd og leiddi þá þegar til lækkunar á lyfjum fyrir neytendur, enda miðað við lágar tölur í upphafi eða fyrstu 100 kr. samkv. lyfjaskrá I og fyrstu 150 kr. samkv. lyfjaskrá II. Það er tekið fram í lögum að ráðh. sé heimilt að breyta greiðslum samlagsmanna samkv. þessari gr. til samræmis við gjaldskrárbreytingar. En hvers vegna mátti þá ekki láta sér nægja að setja nýja reglugerð ef það var hægt? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það er þegar búið að fara út fyrir ramma laganna og hækka greiðslurnar, ekki bara til samræmis við gjaldskrárbreytingar, heldur upp fyrir þær.

Það er einnig fróðlegt að fá að vita í þessu sambandi, fyrst hæstv. trmrh. og hæstv. ríkisstj. telja það sæma að ráðast á þennan hátt að sjúkum, öryrkjum og öldruðum, hvort lyfjakostnaðurinn, sem þeim er gert að greiða, sé e. t. v. í samræmi við niðurstöður af þeirri könnun sem samþykkt var með lögum um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga, verðlagsmál o. fl. 15. maí s. l. að fara skyldi fram. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fyrir árslok 1975 skal heilbr.- og trmrh. láta fara fram könnun á framfærslukostnaði elli- og örorkulífeyrisþega og skal könnunin bæði ná til einstaklinga og hjóna er njóta elli- og örorkulífeyris. Hliðsjón af könnun þessari skal höfð við ákvörðun elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar hjóna og einstaklinga.“

Könnuninni átti að vera lokið fyrir árslok 1975. Kannske hefur hæstv. ráðh. þegar séð niðurstöður hennar þótt almenningi hafi ekki verið kynntar þær. Og eru þær þá þannig að í lagi sé að leggja auknar álögur á þessa aðila? Mér er spurn. Ekki svo að ég hafi neina trú á að þessari könnun sé lokið, ef hún hefur þá nokkurn tíma byrjað frekar en könnunin á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra sem ekki bara hæstv. heilbr.- og trmrh. átti líka að láta fara fram eftir sömu lögum og sama ákvæði til bráðabirgða, heldur og hæstv. fjmrh. samkv. ákvæði til bráðabirgða í lögum frá apríl s. l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara. Þar er að vísu aðeins talað um framfærslukostnað barna, en ekki sérstaklega barna einstæðra foreldra. En þau hljóta að teljast hluti barna almennt. Þessari könnun átti líka að vera lokið fyrir árslok 1975 og niðurstaðan lögð fyrir Alþ. Ekki hef ég séð hana enn þá. En þetta var nú kannske útúrdúr og rétt að líta nánar á aðrar gr. frv. þess sem hér liggur fyrir.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir að framlög sveitarfélaga til sjúkrasamlaga greiðist mánaðarlega miðað við fjárhagsáætlun. Um það væri svo sem ekkert nema gott að segja ef það væri mögulegt. En hætt er við að sú innheimta eigi á stundum eftir að verða erfið, þótt ekki sé nema vegna aukinnar skriffinnsku, en einnig vegna þess hve oft heimtast seint inn gjöld hjá sveitarfélögunum. Á það atriði benti framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús Guðjónsson, er hann mætti á sameiginlegum fundi heilbr.- og trn. Ed. og Nd., og þá einkum í sambandi við þá innheimtuþjónustu sem sveitarfélögunum er gert að inna fyrir ríkið samkv. 3. gr. frv. Hann sagði að um það bil 50% innheimtu sumra sveitarfélaganna kæmu á síðustu 2–3 mánuðum ársins og talsverður hluti ekki fyrr en á næsta ári.

Svo alvarleg aðferð sem 480 millj. kr. innheimtan er, er þó enn þá alvarlegri sú aðför að almenningi sem gert er ráð fyrir í 3. gr. frv. Upphaflega var boðaður í fjárlagafrv. 2000 millj. kr. niðurskurður á almannatryggingum, en frá því hefur nú verið fallið, sem ber að fagna út af fyrir sig. En í staðinn á að bæta stórfelldum álögum á almenning og er heildarupphæðin, sem ná á með þessu frv., 1667 millj. kr., hvorki meira né minna. Og það, sem ekki næst með auknum lyfjagreiðslum og tölulega ótilgreindri upphæð með auknu aðhaldi og eftirliti í Tryggingastofnun ríkisins og nýjum starfsháttum við ákvarðanir útgjalda sjúkrahúsa, — það á að láta sveitarfélögin innheimta með 1% aukaálagi á gjaldstofn útsvara. Upphæðin sem innheimta þarf er óviss, því að eins og áður er getið eru tekjur af eftirlíti og nýjum starfsháttum ótilgreindar, en látið í veðri vaka að þær verði um það bil 100 millj. án þess þó að neinn þori að bera ábyrgð á þeirri tölu. Hlýtur það að vera eindregin krafa að nánar sé gerð grein fyrir henni. En hvort sem sveitarfélögin eiga að innheimta 1187 millj. kr. eða 1087 millj. kr. er ljóst að þetta þýðir gífurlega auknar álögur á allan almenning, 10% útsvarshækkun sem leggst eingöngu á launafólk í landinu, meðan atvinnurekendur og stóreignagreifar sleppa, eins og áður hefur verið rakið hér í umr.

Til að beina frá ríkisstj. þeirri athygli og óvinsældum sem þessar gífurlega auknu álögur munu auðvitað kalla fram er með þessu lagafrv. verið að gera sveitarfélögin að innheimtustofnun fyrir ríkissjóð. Þau skulu bæta prósentinu á sinn gjaldstofn og skila síðan ríkinu. Það var ekki að furða þótt framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga lýsti þessu athæfi sem kaldri gusu framan í sveitarfélögin og teldi þessar tillögur ganga þvert á skoðanir stjórnar sambandsins, enda kom fram að aldrei hafði verið haft neitt samráð við stjórn sambandsins. Og ég hygg að það eigi eftir að koma í ljós að sveitarfélögin muni, ef þau verða neydd til þessarar skattheimtu fyrir ríkið, setja álagið fram sem sérstakan lið með tilheyrandi skýringum. Þeim gengur víst nógu illa að færa rök fyrir eigin álögum þótt þau taki ekki þetta á sína könnu líka.

Framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga benti einnig á að það væru ekki nærri því öll sveitarfélög, sem ættu aðild að sjúkrahúsrekstri, og einnig að það væru ekki sveitarfélögin sjálf sem hefðu þennan rekstrarkostnað fyrir sjúkrahúsin í hendi sér. Það er Alþ. sem setur lög um lágmarkskröfur varðandi aðstöðu. Og það eru ekki sveitarfélögin sem semja um kaup og kjör á þessum vinnustöðum.

Þá er þess getið sérstaklega í grg. þessa frv. að það eigi að fara fram mikil og merkileg endurskoðun á almannatryggingum á næsta ári og að hún hafi staðið yfir á þessu ári. Þess er getið að það hafi verið skipuð ný endurskoðunarnefnd þegar í október undir forustu formanns Tryggingaráðs. Það vill svo til að ég á sæti í þessari endurskoðunarnefnd og ég get upplýst það að hún hefur verið kölluð saman einu sinni og það var s. l. föstudag. Og það er svo langt frá því að hún hafi fengið nokkurt efni til athugunar. Það má vel vera að Guðjón Hansen tryggingafræðingur hafi hafið verkið, og ég efast reyndar ekki um það, en við nm. höfum a. m. k. ekki séð neitt enn þá. Hér er einnig sagt að gert sé ráð fyrir að n. skili heildarniðurstöðum sínum áður en þing kemur saman haustið 1976, væntanlega þá til þess að hægt sé að breyta lögunum enn og þá kannske losna við þá innheimtu sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En þetta er fjarri öllu lagi, enda kom það fram þegar á fyrsta fundi n. að það væri í fyrsta lagi kannske um næstu áramót sem hún gæti skilað af sér, en stefnt að því að hún skilaði þessu áður en þingi lyki vorið 1977, þannig að það gæti kannske afgreitt eitthvað af þessu sem lög. Það segir sig þá sjálft að þau lög koma náttúrlega aldrei til framkvæmda fyrr en — ja, hvað, 1978. Enda er það svo, þó að hér sé sagt að þessar álögur séu til eins árs, þá er náttúrlega reynslan sú að álögurnar eru sjaldan teknar burt ef þær eru einu sinni komnar á, og ég hygg að við höfum séð gleggst dæmi þess núna undanfarna daga þegar hver lögin um slíkt eftir önnur hafa verið framlengd sem aðeins áttu að gilda í eitt ár.

Hæstv. ríkisstj. segist sjálf hafa gert gaumgæfilega athugun á hvernig lækka mætti sjúkratryggingagreiðslurnar, og það er talað um af hennar hálfu að. fundnir hafi verið ýmsir valkostir, en þeir verði ekki raktir í grg., heldur eingöngu rætt um þær leiðir sem valdar voru. En ég segi bara það, að ég harma að þessir valkostir skuli ekki vera ræddir. Það væri afar fróðlegt að kynnast þeim, fyrst þeir kostir, sem hér liggja fyrir og hafa verið valdir, eru þeir skástu. Hvernig í ósköpunum voru þá hinir?

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði fellt, og ég veit að Alþb. mun greiða atkv. gegn þessu frv. og leggja til að aðrar leiðir til sparnaðar í sjúkratryggingum verði kannaðar til hlítar.