18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

121. mál, almannatryggingar

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það segir talsvert um eðli þessa máls sem hér er til umr. að þegar ég leyfi mér að leggja nokkrar ákveðnar spurningar fyrir hæstv. ráðh., þá svarar hann mér með því að skýra mér frá því að hann hafi bara borðað einu sinni í dag. Önnur svör fékk ég ekki frá hæstv. ráðh. En af málflutningi hans áðan mátti a. m. k. marka það, að hafi hann ekki borðað nema einu sinni í dag, þá hefur honum varla orðið mjög gott af þeirri máltíð.

Ég er eins og bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Gils Guðmundsson vestfirðingur. Og það er eins og hv. þm. Gils Guðmundsson sagði áðan, að vestfirðingar tala tæpitungulaust. Þeir mundu geta sagt sitthvað um hvað sá maður hefði borðað sem hagaði sér eins og hæstv. ráðh. hagaði sér áðan. En þó að ég tali tæpitungulaust allajafna, þá ætla ég ekki héðan úr ræðustól í hv. deild að fara að hafa það eftir hvað þeir mundu hafa sagt að slíkur maður hefði borðað.

Ég vil einnig taka það sérstaklega fram að það virðist vera háttur hæstv. ráðh. ef einhver leyfir sér svo mikið sem ýrða á hann eða taka til máls hér í hv. deild um mál sem hann varðar, þá kemur hann jafnan í pontu á eftir til þess að gefa mönnum einkunnir: Þessi maður er slæmur, þessi maður er heldur skárri, en allt miðar hæstv. ráðh. auðvitað út frá sjálfum sér sem er þá væntanlega hámark þess sem hægt er að ná. Þegar ég leyfi mér að leggja fyrir hæstv. ráðh. ákveðnar spurningar, þá segir hann að það sé hrokagikksháttur af mér í fyrsta lagi að leyfa mér að taka til máls um mál sem hann varðar og í öðru lagi að leyfa mér að beina spurningum til hans. Og auðvitað svarar hæstv. ráðh. engum spurningum frá óbreyttum þm., enda gerði hann það ekki áðan.

Ég spurði hæstv. ráðh. m. a. hver ætti að greiða mismuninn á því, sem áætlað er að 1% útsvarsgjaldið gefi á árinu, og því, sem vitað er að það muni gefa. Þarna munar 250–300 millj. til tekjuöflunar fyrir það kerfi, sem hér er um að ræða, á næsta ári. Ég spurði hæstv. ráðh.: Hver á að greiða þennan mismun? Hæstv. ráðh. svaraði með því að telja það upp, hvað hann hafi borðað oft í dag, og telur að slíkt sé hrokagikksháttur að vera að spyrja um svona mál. Ég spurði hann einnig að því. hæstv. ráðh., hvernig ætti að jafna greiðslum þessarar innheimtu niður á sveitarfélögin, hvort ætti að jafna þeim niður á þau með mánaðarlega jafnhárri tölu eða hvort hann byggist við að helmingur upphæðarinnar kæmi ekki til skila fyrr en 3–4 síðustu mánuði ársins. Hæstv. ráðh. svaraði þessari spurningu ekki, en fimbulfambaði hins vegar um það sem gerðist hér í hv. þd. fyrir mörgum dögum, til þess gaf hann sér tíma.

Ég vil ekki fara mörgum orðum um þessi viðbrögð hæstv. ráðh. En ég vil aðeins segja honum það, að sé það hrokagikksháttur af okkur óbreyttum þm. að taka til máls um málefni sem undir hann heyra eða leyfa sér að beina til hans spurningum, þá má segja að framkoma hans, hæstv. ráðh., við okkur óbreytta þm. sé e. t. v. ekki hrokagikksháttur, en a. m. k. gikksháttur.