18.12.1975
Neðri deild: 36. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. þessarar hv. deildar hefur athugað þetta frv. sem er um að framlengja verðjöfnunargjald raforku í eitt ár. Í rauninni var nefndin sammála um frv., að samþykkja það, en hv. 3. þm. Reykv. skilar samt sem áður séráliti. Má vera að það hafi verið til þess að koma því að, að vinstri stjórnin hæstv., fyrrv., hafi gert nokkuð til þess að verðjafna raforkuverð í landinu.

Hv. 3. þm. Reykv. segir í nál., með leyfi hæstv. forseta :

„Forsenda fyrir varanlegri verðjöfnun á raforku er hins vegar sú, að hrundið verði í framkvæmd fyrirhugaðri samtengingu raforkukerfanna, svo sem drög voru lögð að í tíð vinstri stjórnarinnar.“

Það er ákaflega fróðlegt fyrir hv. alþm. að fá að vita eitthvað um þessi drög sem voru lögð að verðjöfnun raforku í tíð fyrrv. hæstv. vinstri stjórnar. Hv. 3. þm. Reykv. mun greina frá því hér þegar hann talar fyrir þessu nál. sem klykkir út með því að eins og komið sé muni hann eigi að síður mæla með samþykkt þessa frv. Ég minnist þess að í tíð fyrrv. ríkisstj. var lögð lína milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, lína á milli tveggja raforkustöðva sem ekki höfðu rafmagn til þess að miðla frá sér. Sú lína hefur ekki enn leitt til verðjöfnunar. En það er langt síðan byrjað var að vinna að því að tengja saman raforkustöðvar víðs vegar um landið. Og það er langt síðan talað var um að verðjafna raforkuverð í landinu. Þetta hefur ekki enn tekist nema að nokkru leyti. En að þessu ber að stefna í ríkara mæli en orðið er, og það er gott til þess að vita að allir hv. þm., sem sæti eiga í iðnn. Nd., eru sammála um þessa stefnu. Og það er líklegt að allir hv. þm. þessarar deildar og e. t. v. alls Alþ. tileinki sér þessa stefnu. Það má því ætla að niðurstaðan verði jákvæð áður en langt um líður.