18.12.1975
Neðri deild: 36. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Frsm. minni hl. (Vilborg Harðardóttir):

Virðulegi forseti. Eins og margoft hefur komið fram gefst hér litill tími til undirbúnings mála. Þess vegna ætla ég ekki að fylgja þessu nál. úr hlaði með neinni mikilli útskýringu. Það verður væntanlega tækifæri til þess síðar, næst þegar málið verður rætt, en eins og fram kemur í nál. er Alþb. fylgjandi því að raforka verði seld á sama verði um land allt og telur það vera réttlætismál. Þess vegna mæli ég með samþykkt frv. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp nál.:

„Alþb. er fylgjandi því að raforka verði seld á sama verði um land allt og telur slíkt vera réttlætismál. Forsenda fyrir varanlegri verðjöfnun á raforku er hins vegar sú að hrundið verði í framkvæmd fyrirhugaðri samtengingu raforkukerfanna, svo sem drög voru lögð að í tíð vinstri stjórnarinnar.

Þm. Alþb. greiddu atkv. með verðjöfnunargjaldi því, sem hér um ræðir, í fyrra, en á þeirri forsendu að hér væri um bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Af hálfu Alþb. kemur ekki til greina að ætla ákveðna hlutfallstölu til frambúðar í þessu skyni. Vítavert er að árið, sem nú er að líða, skuli ekki hafa verið notað til að leita annarra úrræða til að styrkja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins né heldur að gerð hafi verið athugun á rekstri stofnunarinnar, en ýmislegt bendir til að rekstrarkostnaður hennar sé óhæfilega hár.

Eins og komið er mun ég eigi að síður mæla með samþykkt frv.“