18.12.1975
Neðri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

105. mál, söluskattur

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Það voru aðeins örfá orð sem ég vildi segja í tilefni af þessum brtt. hæstv. ráðh. Samkv. þessum till. er gert ráð fyrir að sveitarfélögin í landinu eigi að fá nokkru meiri hlutdeild í söluskatti en verið hefur eða úr 18% söluskatti í staðinn fyrir 13 áður. En þá standa mál þannig að enn stendur eitt söluskattstig sem sveitarfélögin eiga ekki að fá hlutdeild í. Mér þykir þetta í meira lagi andkannalegt, fyrst var verið að gera hér á breytingu, að ganga þá ekki alla leið í þessum efnum og láta sveitarfélögin fá 8% af söluskattinum öllum sem innheimtur er til ríkisins. Það hefði að vísu þýtt það að tekjur sveitarfélaganna hefðu orðið aðeins meiri en gert er ráð fyrir með þessum brtt., en ég held að það hefði verið full þörf á því að þarna hefði komið örlítið hærri upphæð. Það er ekki um neitt stórt að ræða. En mér þykir þetta svo andkannalegt fyrirkomulag að ég er alveg hissa á því að þetta eigi að hafa á þennan hátt.

En í rauninni er eðlilegt að ræða um meginefni þessa frv., úr því sem komið er, í sambandi við annað frv. sem hér kemur á dagskrá síðar og varðar verkefnaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég skal því ekki ræða þetta frekar, en vil aðeins lýsa því yfir að ég hefði talið að eðlilegra hefði verið að hlutdeild sveitarfélagánna hefði verið í öllum söluskattinum fyrst er verið að gera þessa breytingu, en ekki að skilja á þennan hátt eftir eitt stig. Mér finnst það í rauninni alveg furðuleg ráðstöfun. En áður hef ég gert grein fyrir því, að við alþb.menn erum á móti þessu frv. vegna þess að það stefnir að nýrri skattlagningu fyrir ríkissjóð. Við teljum að það hefði átt að nota tækifærið og lækka söluskattsinnheimtuna nú um þau 2 prósentustig sem ekki virðist vera lengur þörf fyrir að innheimta fyrir Viðlagasjóð. Afstaða okkar er því óbreytt til málsins, að við erum á móti því. En ég bendi aðeins á þetta, að eðlilegra hefði verið að hlutdeild sveitarfélaganna hefði náð til söluskattsins alls, en ekki á þennan hátt, að skilja eftir eitt söluskattsstig.