22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er gagnlegt að ræða almennt um breytingar á lögum Lánasjóðs ísl. námsmanna, en þær umr. þjóna engum tilgangi til þess að leysa þann vanda sem nú blasir við. Það er eins og að hefja, þegar hús brennur, almennar umr. um skipulag brunavarna í stað þess að snúa sér strax að því að slökkva eldinn.

Ég vil í sjálfu sér taka undir þau jákvæðu ummæli sem komu fram hjá hv. 11. þm. Reykv. En það eru hæg heimatökin hjá honum og hv. 5. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, því að þeir eiga báðir sæti í þeirri n. sem hefur átt að endurskoða þessi lög, að hefjast nú handa og koma þeirri endurskoðun til ríkisstj. og hingað inn í þingið, og þá er sjálfsagt að hefja umr. um breytingar á lögunum.

Ég vil einnig lýsa yfir vonbrigðum mínum með svör hæstv. menntmrh. En ég er því miður ekki eins bjartsýnn og hv. 9. þm. Reykv., að þögn fjmrh. boði það að hann hafi ekki tekið endanlega ákvörðun. Ég held að þögn hans einfaldlega sýni að hann þori ekki að taka til máls um þetta atriði hér, að hann finni að framkomu ríkisvaldsins gagnvart námsmönnum er í raun og veru ekki hægt að verja. Þetta er gerræðisfull aðgerð stjórnvalda, sem þau knýja fram í krafti valdsins sjálfs, en geta ekki stutt neinum frambærilegum málefnalegum rökum, enda komu þau rök ekki fram hjá hæstv. menntmrh. Hann varði tíma sínum til þess að ræða vítt og breitt, eins og hv. 11. þm. Reykv., um Lánasjóðinn almennt og lagabreytingar um hann, en hann vék ekki einu orði að því, hvernig leysa ætti þann vanda sem að námsmönnum steðjar nú, og það sem meira er og var þó í sjálfu sér það jákvæða í ræðunni, að hann með þögninni viðurkenndi að þessi vandi væri fyrir hendi. Hann mótmælti ekki einu orði því sem ég og aðrir málshefjendur hér í þinginu í dag lýstu hvert væri eðli þessa vanda. Þess vegna vil ég ítreka við hæstv. menntmrh. spurningu sem nú brennur á vörum a. m. k. hundraða námsmanna íslenskra, sérstaklega þeirra sem eru erlendis: Hvað eigum við að gera? Hvaðan eigum við að fá fé til þess að geta framfleytt okkur fram yfir áramótin, hæstv. menntmrh.?

Ríkisstj. gekk í bankana og bankarnir fundu aðeins 27 millj., að ég held, þannig að það þýðir lítið fyrir þessa námsmenn að ganga á fund bankastjóra þessa lands og biðja um víxillán til þess að geta framfleytt sér. Námsmenn eiga kröfu á því að þessi ríkisstj., sem ómótmælanlega hefur gengið á bak orða sinna, hefur brotið gildandi lög og yfirlýsingar um þetta efni og sent hundruð námsmanna út í heim, — þeir eiga kröfu á að þessi ríkisstj. bendi á hvernig þeir eiga að leysa sinn fjárhagsvanda. Ef það er ekki gert á raunhæfan hátt, þá blasir það við að ríkisstj. Íslands segir við þessa námsmenn: Gerið þið svo vel og hættið námi, þið sem ekki eigið auðuga að og getið fengið lán hjá skyldmennum ykkar. Fátækari hluti íslenskra námsmanna, komið þið heim, gjörið svo vel. — Það er boðskapur ríkisstj. Íslands ef ekki annað kemur fram hér á þessum fundi.

Og svo er sagt að það sé ekki til fé. Auðvitað er til fé til að mæta þessari þörf ef viljinn er fyrir hendi.

Ég rakti það áðan, að það er almennt álit hagfræðinga um heim allan að menntun er arðbærasta fjárfestingin sem nokkur þjóð getur lagt i. Nú eru íslendingar að fjárfesta í brú yfir Borgarfjörð. Nú eru íslendingar að fjárfesta í járnblendiverksmiðju. Ég er alveg viss um það, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., að arðsemisútreikningar munu sýna að fyrirgreiðsla til námsmanna er mun arðbærari fjárfesting, ég tala nú ekki um heldur en brúin yfir Borgarfjörð, og mun arðbærari fjárfesting en járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði.

Þessir peningar eru til. Það er ekki það sem er að. Það, sem er að, er að ríkisstj. hefur valið frekar fjárfestingu í járnblendiverksmiðju og samvinnu við Union Carbide heldur en fjárfestingu í íslenskum námsmönnum. Það er valið. Og það hefur skýrt komið fram fyrir þennan fund og það hefur verið látið standa óbreytt á þessum fundi: Við viljum frekar eiga samstarf við erlend stórfyrirtæki, íslenskir námsmenn, heldur en samstarf við ykkur um það hvernig menntun ykkar getur þjónað íslenskum hagvexti í framtíðinni.

Það er enn fremur dapurlegt að það skuli hafa skinið í gegnum ræðu hæstv. menntmrh. og þögn fjmrh. að ekki eru miklar vonir til þess, að þeirri upphæð, sem nú er í frv. til fjárl, verði breytt. M. ö. o., eins og hv. 9. þm. Reykv. rakti rækilega hér í upphafi síns máls, það er í vændum veruleg kjaraskerðing til viðbótar við þá kjaraskerðingu sem þegar hefur orðið á þessu hausti. Og ég vænti þess ekki að í fjárlagafrv. eða í öðrum aðgerðum ríkisstj. komi fram neinar ábendingar um að það verði dregið úr fjárfestingu í brú yfir Borgarfjörð eða hægt á framkvæmdum járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Það er valið, það er hið pólitíska val þessarar ríkisstj. sem er kveðja til íslenskra námsmanna. Þeir munu vissulega taka þá kveðju til íhugunar. Þeir munu vissulega sjá, að hún felur í sér ákveðinn pólitískan boðskap um það, hvers konar þjóðfélag þessi ríkisstj. vill beita sér fyrir á Íslandi, hver er sú stefna í sjálfstæðismálum íslendinga, sem þessi ríkisstj. vill aðhyllast, vegna þess að saga íslensku þjóðarinnar allt frá upphafi síðustu aldar og fram á þennan dag sýnir að það eru námsmenn þjóðarinnar fyrst og fremst sem hafa verið hennar besta sjálfstæðisfjárfesting, bæði stjórnarfarslega og í efnahagsmálum.

Ég vona að hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. láti ekki þessari umr. ljúka svo hér í dag að þeir hafi ekki uppi a. m. k. vilyrði um að breyta þessari ákvörðun, að þeir sýni þá lágmarkskurteisi gagnvart íslenskum námsmönnum að þeir segi þeim hvernig þeir eigi að leysa þennan vanda.

Hæstv. menntmrh. mun vera á leið austur á firði næstu daga og ég óska honum góðrar ferðar. En það væri vel þess virði, þegar hann keyrir á sinni glæsilegu bifreið, ef hann ætlar að hagnýta hana í þeirri ferð austur á land, og er búinn að dvelja þar þann tíma sem hann ætlar að vera og er lagður af stað til baka, þá fái hann allt í einu skeyti frá olíufélögunum í landinu um það: Þú færð bara bensín til að komast að Vík í Mýrdal og í janúar færðu það bensín sem á vantar. — Þetta er í hnotskurn afstaða ríkisstj. gagnvart íslenskum námsmönnum. Hún er svona í hnotskurn. Og ég vona að þegar hæstv. menntmrh. keyrir fram hjá Vík í Mýrdal, þá hugleiði hann hvernig hann hefði komist til Reykjavíkur ef hann hefði fengið þessa tilkynningu, því að það er þessi tilkynning sem hann hefur sent íslenskum námsmönnum. (Gripið fram í: Hann stoppar í Vík.) Ég hef því miður ekki sömu trú og hv. 2. þm. Austurl. á fórnfýsi þessarar ríkisstj., að hún muni fórna ráðherrabensíninu fyrir hagsmuni íslenskra námsmanna. En dæmið stendur hins vegar.

Ég vil svo ljúka þessu máli með því að ítreka það sem ég sagði í upphafi, að þær aðgerðir, sem hafðar hafa verið í frammi í dag fyrir utan Alþingishúsið, sá málflutningur, sem við höfum reynt að hefja hér á Alþ., er ekki einangruð aðgerð. Að baki kröfum námsmanna standa fjölmennustu launþegasamtök þessa lands, — launþegasamtök, sem ríkisstj. á eftir að sækja til samkomulag um lausn efnahagsvandans. Ef ríkisstj. vildi í raun og veru efla jákvætt samstarf við launþegasamtökin í landinu, þá sýndi hún í upphafi þeirra viðræðna að hún muni gera sitt til þess að börn láglaunafólksins í landinu geti haldið áfram að mennta sig, því að verkamennirnir, iðnaðarmennirnir, sjómennirnir, kennararnir og aðrir meta ekki bara það kaup sem þeir fá, þeir meta þá kjarastöðu sem fjölskyldur þeirra hafa í heild, hvort þeir verða að taka við börnum sínum á næstu vikum frá útlöndum.

Alþýðusamband Íslands hefur sent námsmönnum þessa stuðningsyfirlýsingu, og ég vil ljúka máli mínu með því að biðja hæstv. ríkisstj. að íhuga vel og í fullri alvöru þessa afstöðu Alþýðusambands Íslands sem er í senn samnefnari fyrir afstöðu annarra launþegasamtaka í landinu gagnvart námsmannahreyfingunni, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til viðurkenndrar launajöfnunarstefnu verkalýðssamtakanna er það einnig skoðun miðstjórnarinnar að fullnægjandi námslána- og styrkjakerfi eigi að vera liður í baráttu fyrir því langtímamarkmiði að draga mjög úr því stórfellda misræmi sem er við lýði milli stétta erfiðismanna og langskólamanna hvað launakjör snertir.“

Fram undan í þessu þjóðfélagi er greinilega mikil barátta um hvernig eigi að jafna þær byrðar, sem þjóðin þarf að bera vegna þessara efnahagserfiðleika. Ég vona að sú pólitíska kveðja, sem þessi ríkisstj. hefur sent íslenskum námsmönnum, sé ekki upphafið að sams konar kveðjum til annarra láglaunastétta í landinu, því að ef sú verður raunin, þá mun þessari ríkisstj. aldrei takast að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar, hún mun þvert á móti magna stéttaátökin í landinu.