18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

89. mál, vörugjald

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum fór sá fundur, sem haldinn var hér í deildinni kl. 17.30, fram hjá mér. Ég var hér í húsinu og hafði ætlað mér að sitja þennan fund og ég er á því að einhvern veginn hafi bjallan hljómað mjög lágt. En svo mikið er víst, að ég vaknaði skyndilega upp við það að búið var að halda hér fund í d. og afgreiða eftir 1. umr. frv. til l. um sérstakt tímabundið vörugjald. Ef ég hefði setið þennan fund, þá hefði ég tekið til máls og skýrt afstöðu mína til málsins þannig að það hefði ekki þurft að koma til þess að ég væri að tala hér við 2. umr. En úr því að svona slysalega tókst til hjá mér, þá vænti ég þess að mér verði ekki fundið til foráttu þó að ég taki til máls nú.

Eins og frsm. nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. d. tók fram í ræðu sinni var þetta tímabundna vörugjald á sínum tíma fyrst og fremst sett á til þess að styrkja hag ríkissjóðs og reyna að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ég held að það dyljist engum hv. þm. að full nauðsyn hafi verið á ráðstöfunum sem gætu verulega gefið þann árangur að styrkja stöðu ríkissjóðs. Menn geta deilt um leiðir, en ég held að menn deili ekki um þessa staðreynd.

Ég vil lýsa fylgi mínu við þá stefnu sem felst í ákvæðum þessa frv. um sérstakt tímabundið vörugjald. En ég vildi einnig láta það koma fram að nokkrum áhyggjum valda mér þau ákvæði í frv. sem gera ráð fyrir því að lækka þetta tímabundna vörugjald verulega eftir hluta af árinu. Samkv. ákvæðum frv. er gert ráð fyrir að innheimta 10% vörugjald á tímabilinu frá 1. jan. 1976 til 31. ágúst og aðeins 6% á tímabilinu 1. sept. til 31. des. 1976.

Það er skoðun mín að ákvæði sem þetta í opinberri skattheimtu geti orðið, að ég segi ekki til verulegs tjóns, en a. m. k. til verulegs óhagræðis fyrir alla þá sem við þetta ákvæði eiga að búa og eftir þeim eiga að fara, og mér er til efs að árangur náist af þeim ákvæðum, sem þetta frv. hefur inni að halda, með þessari tilhögun.

Eins og oft hefur komið fram og tekið hefur verið fram hér í umr. var ráð fyrir því gert þegar brbl. voru sett um sérstakt tímabundið vörugjald að þau lög skyldu falla úr gildi nú um áramót. Þessi ákvæði hafa, eftir því sem mér er kunnugt, valdið því, að það hefur verið mun meiri seinagangur á afgreiðslu tollskjala og skjala í sambandi við innflutning á vörum til landsins seinustu vikur og jafnvel mánuði. Menn hafa miðað við það og gert ráðstafanir með tilliti til þess að þetta gjald ætti að falla niður. Er þá ekki miklu meiri ástæða til þess að ætla að með því að hafa framhald á eins og ákveðið er í þessu frv., að festa ekki gjaldið nú a. m. k. allt árið, láta það halda sér, en skipta því, hafa það mishátt mismunandi tíma á árinu, — er þá ekki meiri ástæða til þess að ætla að einmitt þessi ákvæði verði til þess að torvelda að sá árangur náist af þessum lögum sem þeim er ætlað að ná, en það er að auka svo mikið tekjur ríkissjóðs að honum verði gert fært að standa undir þeim skuldbindingum sem við erum nú að samþykkja að leggja á?

Ég er í hópi þeirra þm. sem hafa vissar áhyggjur af því að við séum á fremstu nöf þrátt fyrir þær ráðstafanir sem þegar hafa verið gerðar, — séum á fremstu nöf með að við náum þeim árangri og lítið megi út af bera til þess að jöfnuður náist í greiðslustöðu ríkissjóðs. En ég held að engum ábyrgum aðila blandist hugur um að það er algjör forsenda fyrir því að okkur takist að koma lagi á efnahagsmál þjóðarinnar að við fyrst og fremst getum komið ríkissjóði á réttan kjöl.

Það er áreiðanlega kominn tími til að stöðva þá óskaplegu ofrausn, ef svo mætti að orði komast, sem ráðið hefur stefnunni undanfarin ár í sífelldum og síauknum kröfum um að ríkið skuli greiða þetta og ríkið skuli greiða hitt. Hvað erum við eiginlega sem þjóðfélagsborgarar annað en lítil eining í hinum sameiginlega sjóði þjóðarinnar? Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að benda á og vekja athygli þeirra aðila á því, sem telja sig fyrst og fremst vera málsvara hinna veikburða og hinna fátæku og hinna efnaminni í þjóðfélaginu: Hvernig fer um hag þess fólks ef hrunið heldur áfram og sú óheillaganga heldur áfram eins og gengin hefur verið í opinberum fjármálum á undanförnum árum og þetta fjármagnsútflæði — ef mætti nota það orð, það var einhver að tala um það í dag sem nýyrði — verður ekki með einhverju móti stöðvað? En hvernig á að stöðva þessa óhappaþróun ef sífellt er hægt að gera meiri og meiri kröfur án þess að eitthvað komi á móti. Ég held að það sé enginn sérstaklega glaður eða ánægður yfir því að standa að frv. sem leggur gjöld á þegnana. En ég verð að segja fyrir mitt leyti að af mörgum tegundum gjalda, sem lögð eru á þjóðina, finnst mér þó gjald eins og ráð er gert fyrir í þessu frv. eiga að mörgu leyti meiri rétt á sér en mörg önnur. Þar hefur þó hinn gætni, hinn sparsami og sá, sem vill haga lífi sínu af einhverri ráðdeild og festu, nokkurt vald á því að vega og meta hvernig fer um hans fjármuni, því að áreiðanlega eru margir — og það líkast til í meirihluta — vöruflokkarnir, sem þarna er verið að leggja sérstakt gjald á, sem telja má að vissu leyti að megi spara sér algjörlega að meinalausu.

Herra forseti. Ég gerði lítillega grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum í hv. fjh.- og viðskn. þegar fjallað var um málið. Sú hugmynd mín fékk ekki hljómgrunn að láta gjaldið haldast óbreytt 10% til ársloka, skipta ekki gjaldatímabilinu eins og gert er í þessu frv. Þar sem ég er eindreginn stuðningsmaður núv. ríkisstj. vildi ég ekki láta bresta á því og gerðist því samþykkur áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. og mun því greiða frv. atkv., en aðeins taka fram þá galla sem ég tel vera á því.