18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

89. mál, vörugjald

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Eins og var tekið fram áðan var það í samkomulagi milli verkalýðsfélaganna og ríkisstj. s. l. vor að skattar skyldu lækkaðir um 2000 millj. kr. En Adam var ekki lengi í Paradís því að skömmu eftir að samningar voru gerðir við verkalýðsfélögin voru gefin út brbl. um 12% vörugjald og reiknað hefur verið út að þær álögur, sem í því gjaldi fólust, voru nokkurn veginn þær sömu og hin lækkaða skattaálagning var. Ég held að það fari ekki milli mála, hvernig sem við lítum á þessi mál, að hér var um hrein svik að ræða á því sem hafði verið lofað, miðað við það sem síðar var framkvæmt, hrein svik.

En það má segja að það hafi verið lögð sú líkn með þraut að vörugjald þetta lagðist kannske meira á vörur sem menn gátu sneitt hjá að kaupa ef þeir svo vildu. En við þetta er fleira að athuga en mér virðist hér hafa komið fram því að þegar búið er að leggja vörugjaldið á vöruna, þá kemur fyrst á það álagning og síðan söluskattur, þannig að álögin á kaupandann eða neytandann eru meiri en í fljótu bragði virtist.

Einn þm. sagði hér um daginn réttilega að þm. hefðu oftast um það að velja hvort þeir vildu meiri álögur og þá meiri framkvæmdir og meiri þjónustu eða minni álögur og minni framkvæmdir og minni þjónustu. Þetta er rétt það sem það nær. En við getum bætt þriðja atriðinu við. Það er stundum um það að velja hvort ekki megi lækka álögur og eyða minna í óþarfa, og það er þar sem mér finnst núv. ríkisstj. hafa syndgað langmest. Hún hefur verið svo eyðslusöm að engu tali tekur. Þess vegna er hún með ýmiss konar álögur núna síðustu dagana, eins og hér hefur verið margrakið, og þetta er einn liðurinn af því. Ríkisstj. hefur gleymt að reyna að spara. Hún hefur verið svo óspilunarsöm að fróðir menn telja að verulegur hluti af þeirri verðbólgu, sem hefur þjáð þjóðina á þessu ári sé einmitt ríkisstj. að kenna.

Hv. þm. Jón G. Sólnes ræddi áðan um að við þyrftum að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Það er alveg rétt. Það er mikill háski þegar ríkissjóður er rekinn með slíkum halla sem nú er gert. En ég er talsmaður þess að það sé fyrst og fremst lagfært með auknum sparnaði í eyðslu ríkisins. Segja má að verja eigi þessu vörugjaldi þannig vel að lækka ýmsar neysluvörur í landinu. En þá rekum við okkur á þann vanda að niðurgreiðslurnar eru eitt af því sem hefur ákaflega truflandi áhrif á framleiðslu hér á landi. Ég held að bændastéttin t. d. sé farin mjög að hugsa um það hvort niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur séu ekki farnar að hafa óheppileg áhrif á framleiðslu landbúnaðarins. Af þeim sökum fyrst og fremst, að hér er um aukin álög á þjóðina að ræða til þess að geta eytt meiru, er ég á móti þessu frv. sem hér er flutt og í öðru lagi vegna þess að þessi brbl., þó að nokkuð hafi verið við þau prjónað, eru fyrst og fremst hrein svik, eins og ég sagði áðan, við verkalýðsstéttina. Þess vegna finnst mér þinginu vanvirða að því að samþykkja þessi lög og ég ætla ekki að taka þátt í því a. m. k. En út frá því, sem ég sagði áðan, að menn virtust ekki hafa gert sér ljóst að það er meira, en vörugjaldið sem leggst á vöruna — það kemur á þetta heildsöluálagning, smásöluálagning, söluskattur — þá ætlum við hér tveir að freista þess að endurtaka brtt. sem var flutt í Nd. og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Aftan við 1. málsgr. 4. gr. komi ný málsgr. er hljóði svo:

Einnig er óheimilt að leggja heildsölu- og smásöluálagningu á hið sérstaka vörugjald.“ Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja þessa till. fram.