18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Jón Helgason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umr., hefur það verið eitt helsta áhugamál Sambands ísl. sveitarfélaga í mörg ár að gerð yrði breyting á þeim lögum og reglum sem gilt hafa um verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, þannig að sveitarfélögin fengju tekjustofna til að standa að fullu undir kostnaði við sum þeirra verkefna, sem ríkissjóður greiðir nú hluta af. Á móts við þetta sjónarmið hefur verið gengið með því frv. sem hér er til umr., og því var lýst yfir af framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga á fundi félmn. í morgun að þessi verkefni, sem þarna yrðu tekin fyrir, væru þau sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga teldi tvímælalaust æskilegast að taka.

Ég verð að viðurkenna það, að ég hef dregið mjög í efa að rétt væri að ganga nema mjög skammt í þá átt sem samþykktir stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga hafa beinst. Ég hef nefnilega óttast að það kæmi í ljós þegar ætti að fara að framkvæma þetta, eins og nú hefur sýnt sig, að það er dálítið erfitt að velja verkefnin þegar á herðir. En nú hefur félmrh. lýst yfir að ef einhver sveitarfélög fara illa út úr þessari breytingu, þá verði þessum sveitarfélögum bættur sá halli. Jafnframt hefur verið lýst yfir að skipuð verði samstarfsnefnd til þess að vinna að endurskoðun þessara mála nánar. Mér finnst æskilegt að þá sé búið að reyna eitthvað í þessa átt, og munu flestir sammála um að styttra skref hafi ekki verið hægt að stíga í einu úr því að farið var út í þetta á annað borð. Það væri þá komin aðeins reynsla á það og menn stæðu frammi fyrir því hvaða vandamál þarna væri um að ræða þegar þessi mikla endurskoðun færi fram. Þess vegna, eftir að ég tel að sé fengin sú trygging, sem nauðsynleg var, fyrir því að sum sveitarfélög færu ekki óeðlilega illa út úr þessari breytingu, hef ég skrifað undir nál. og mælt með því að frv. verði samþykkt.