22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

9. mál, skylduskil til safna

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Svo sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh., hefur þetta frv. verið lagt fram á þingi áður. Menntmn. Nd. fékk það til meðferðar á síðasta þingi, en það varð ekki útrætt.

Það eru nýmæli í þessu frv. til l. um skylduskil til safna að tekinn er fram í lögum tilgangur með skylduskilum. Það er í sjálfu sér nauðsynlegt, einmitt til þess að nm. geti tekið afstöðu til þeirrar gagnrýni sem borist hefur og heyrst hefur frá þeim bókasöfnum sem hingað til hafa fengið skilaskylt efni. Ég er fyllilega sammála hæstv. menntmrh. um að nauðsyn sé að afgreiða frv. um almenningsbókasöfnin um leið og þetta; og lýsi ég því yfir að ekki muni standa á liðsinni mínu í þeim efnum.

Mig langar við þessa 1. umr. að gera að umtalsefni atríði sem felst í 11. kafla frv. sem ber fyrirsögnina „Skilaskylt efni“.

Í núgildandi lögum um skylduskil til safna, lögum frá 1949, stendur að öllum prentsmiðjum og öllum fyrirtækjum, sem margfalda prentað eða ritað mál, sé skylt að afhenda Landsbókasafni efni sem þeir framleiða. Aðrir aðilar, svo sem stofnanir, félög eða einstaklingar, eru ekki skilaskyldir nema þeir njóti styrks af almannafé til útgáfunnar. Í því sambandi er í núgildandi lögum skýrt talað um útgáfu. Í frv., sem hér liggur fyrir, er skilgreining á fjölföldunaraðilum hins vegar ekki jafnskýr, þar sem samkv. 2. gr. frv. eru skilaskyldir aðilar þessir: „prentsmiðjur, fjölritunarstofur og aðrir aðilar sem fjölfalda texta eða myndaefni.“ Þetta verður ekki skilið, held ég, á annan veg en þann, að allir, sem einhver afnot þurfa að hafa af fjölritara t. d., séu skilaskyldir. En nú eru fjölritarar til ákaflega víða. Þeir eru til í opinberum stofnunum, skólum, hér á Alþ. t. d. Félagasamtök og einstaklingar eiga og nota fjölritara. Efni, sem slíkir aðilar fjölrita, getur verið af ýmsu tagi án þess að það flokkist undir útgáfu. Því er að vísu oft ætlað til dreifingar, en mjög oft ekki nema til innanhússnota. Hér virðist mér þörf nánari skýringar. Ef ætlunin er að allir aðilar séu skyldir til að skila efni af hvaða tagi sem hugsast getur, þá á ég erfitt með að sjá hvernig Landsbókasafnið getur haft eftirlit með því að skyldu um skil sé framfylgt.

Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. ráðh. að hann geri strax við 1. umr. grein fyrir því hvaða skilning á að leggja í „skilaskylt efni“. Það mundi auðvelda störf nefndarinnar, a. m. k. mundi það auðvelda mér skilning á því hvað þarna er átt við, því að mér virðist að undir þetta ákvæði heyri eitt blað, kannske með einföldu fundarboði frá félagssamtökum, og allt upp í stærstu útgáfur. Ef það er réttur skilningur hjá mér að átt sé við hvern einasta snepil sem hvaða aðili sem er fjölritar eða fjölfaldar, þá hygg ég að þurfi að athuga vel 5. gr., þar sem talað er um hvernig með skuli fara plögg sem merkt eru trúnaðarmál. Þá hygg ég að kæmi til greina að strangari reglur yrðu settar um það, hvers konar trúnaðarmáli yrði að skila, og hugsanlega einnig að þeir aðilar sem skiluðu slíku efni, fengju öruggari tryggingu fyrir því að þetta yrði innsiglað og geymt. Ég er ekki viss um að skrifleg yfirlýsing frá safni sé nægileg.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, herra forseti, en vænti þess að hæstv. menntmrh. geti upplýst mig betur um þetta atriði.