18.12.1975
Efri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

89. mál, vörugjald

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég mátti ekki varast það að dagskrá var snúið við, þó að 50% líkur væru á því þar sem tvö mál voru á dagskrá og kom því aðeins of seint til að flytja hér mál mitt varðandi nál. fyrir frv. og hlýt að eyða allnokkrum tíma í þetta mál, þar sem hér er stórmál á ferðinni.

Á sínum tíma, þegar tímabundið vörugjald var sett á, var því hátíðlega lofað að það stæði ekki nema takmarkaðan tíma og skyldi falla úr gildi við áramót 1975–1976. Þegar þetta gjald birtist töldu forsvarsmenn launþegasamtakanna í landinu sig vera svikna og loforð hæstv. ríkisstj. um kjarabætur rokin út í veður og vind. Ekki er séð fyrir endann á því hvaða áhrif þetta hefur, þar sem nú er komið á daginn að ríkisstj. ætlar sér ekki að afnema gjaldið þó að hún leiti hér eftir staðfestingu á brbl. Þrátt fyrir þetta hefur verkalýðsforustan nú tekið þá stefnu, sem óvenjuleg er, að fara mjög hægt í sínum kröfum og raunverulega rétta út hönd til að takast á við verðbólguvandann og lægja þær öldur sem hafa orsakað svo hátt ris á vísitölunni. En þeir, sem höndin er rétt til, virðast ekki átta sig á því að hér er eitt atriði sem hindrar hina útréttu hönd launþegasamtakanna í að ráðast til atlögu við verðbólgudrauginn og kveða hann niður. Það er þetta atriði að fella niður þetta tímabilsbundna vörugjald og lækka þar með verðlag í landinu. Ríkisstj. hafði þó sem afsökun, þegar hún setti þetta gjald á, að það væri á ýmsum miður nauðsynlegum vörum og taldi því réttlætanlegt að hafa það um skamma stund til að bæta þröngan efnahag ríkissjóðs og bæta nokkuð úr fjárskorti. En útstreymi úr Seðlabankanum í þágu ríkissjóðs hafði verið geigvænlegt, og mér sýnist að eftir síðustu tölum skuldi ríkissjóður á 9. milljarð, svo að það er von að þeir vilji halda möguleika til tekjuöflunar áfram.

Ef að líkum lætur, miðað við efndir fyrri loforða, kann svo að fara þegar líður á næsta ár, að gefin verði út að nýju brbl. sem staðfesta það, að góð áform rjúki út í veður og vind, þegar fer að hausta, og fölni og felli eins og laufblöð af trjánum. Þetta er mjög slæmt og þetta vekur ókyrrð í þjóðfélaginu ef ekki má treysta neinu því sem kemur frá ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma.

Einmitt ein af meginorsökum þess, að efnahagslíf okkar gengur svo í bylgjum sem raun ber vitni, er vantrú almennings í landinu á fasta og skipulega stjórn efnahagsmála. Það fer ekkert á milli mála að þrátt fyrir góðar yfirlýsingar og þrátt fyrir góð áform hefur sú stjórn ekki verið fyrir hendi um langt bil og vantar mikið á. Það kemur einnig í ljós í sambandi við tillögur um lánsfjáröflun, sem lagðar voru nýlega á borð okkar, að fyrirheit, sem gefin voru í fyrstu stefnuræðu hæstv. forsrh., eru nú ekki sett fram ákveðið, um ákveðna prósentutölu í verðbólguhömlun, en þó skal stefnt í þá átt að draga eins mikið úr verðbólgunni og aðstæður reynast til, segir þar nokkurn veginn orðrétt.

En ef ekki er hlustað á óskir launþegasamtakanna, sem eru mjög hógværar ? dag, í því efni að reyna að ráða bót á verðbólgunni, þá hafa þau ekki nema eitt og gamalt ráð. Það er að tilkynna með ákveðnum fyrirvara að þau setji fram þessar kröfur og sé þeim ekki sinnt, þá kemur að verkfalli og verðbólguhjólið heldur áfram með fullum þrótti. Og þá þarf að halda öllum sköttum sem fundnir hafa verið upp, reynslan sýnir það, og engum aðila tekst að höggva þá niður og fella burt. Þetta vildi ég undirstrika sérstaklega að er mjög alvarlegt mál.

Forsendan fyrir þörf þessa skatts gat verið fyrir hendi þegar hann var settur. Það gat vel verið. En engu að síður hefði mátt gera ýmsar fleiri ráðstafanir til þess að hamla á móti útgjaldaþenslu ríkissjóðs með brbl. og aðgerðum til verðhjöðnunar, alveg eins og að auka þetta álag. Þetta kemur niður á stórum, mikilvægum vöruflokkum í neyslu almennings, öllu efni til byggingariðnaðar t. d., og þykir þó mönnum nóg um hvað byggingarkostnaður á Íslandi er orðinn mikill. Það er því dapurlegt að horfa upp á það að nú á ekki að standa við gefin fyrirheit í þessu efni. Það er komin viðbót er sýnir okkur að það á að halda þessu tímabundna vörugjaldi út næsta ár, og er áætlað að það gefi ríkissjóði um 2200 millj. kr. Ég hef þó ekki fengið staðfest að söluskattur sé innifalinn í þessari tölu og hefði viljað fá á hreint hvort þetta er heildartekjujöfnun út af þessu gjaldi eða söluskattur á þessa tölu komi í viðbót. Þá fer nú lumman að bólgna út og nálgast 3 milljarða sem þetta gjald gefur ríkissjóði.

Það er talað um að taka þetta í áföngum, en ekki einu stökki. Einu sinni þótti það nú skynsamlegt að reyna að stökkva yfir erfiðleika í einu stökki, og sagt var hér af efnahagsráðgjafa þáv. ríkisstj.: „Ekki er hægt að stökkva yfir gjána nema í einu stökki.“ En nú skal reynt að stikla lækinn og komast þannig yfir. Það kann að hafa ýmiss konar aukaverkanir og víxláhrif þegar almenningur og menn, sem standa í innflutningi, sjá að hverju stefnir. Geta ákvæðin því verið mjög neikvæð fyrir ríkissjóð og jafnvel fyrir almenning í landinu. Menn munu þá fresta að leysa út lífsnauðsynlegar vörur eingöngu til þess að forðast að lenda í hærra hlutfalli í sambandi við þetta tímabundna vörugjald. Kann það að leiða af sér beinan vöruskort og hefur jafnvel bryddað á því nú í þessum mánuði, vegna þess að menn reiknuðu með að gjaldið mundi falla niður við áramót eins og ráð var fyrir gert. En þegar kom að lokaafgreiðslu og lokaátökum við að koma saman fjárlögum, þá kom í ljós að staða ríkissjóðs var svo bág að ekki hefur hæstv. ríkisstj. treyst sér til þess að standa við gefin fyrirheit og því er hér líklega um nauðvörn að ræða að framlengja gjaldið, jafnframt því sem Alþ. er beðið um að staðfesta brbl. sem gefin voru út í sumar. Sem sagt rökin fyrir áframhaldandi vörugjaldi eru nauðvöru og mjög þröngur hagur ríkissjóðs.

Það hefði verið hægt að sætta sig við hluta áfram ef hann hefði runnið óskertur í niðurgreiðslur og ákveðna þætti sem hefðu runnið beint til kjarabóta almenningi til handa og þannig stuðla að jafnvægi í verðlaginu. En það er nú öðru nær. Þótt niðurgreiðslur séu auknar um 700 millj. kr. er það aðeins tæpur þriðjungur af þeirri tölu sem þetta gjald gefur af sér á næsta ári, svo að ríkissjóður hefur miklar tekjur umfram fyrri ráðstöfun sem hækkar þá vöruverð á lífsnauðsynjum til almennings.

Það hafa verið gefin út loforð af hendi hæstv. ríkisstj. á undanförnum mánuðum sem nálgast það að skrifað sé upp á óútfyllta víxla. Í því sambandi má nefna ýmsar ábyrgðir, eins og við

Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í sambandi við vandamál togaraflotans og þar fram eftir götunum. Ef standa á við gefin fyrirheit í því efni kann ríkissjóð að vanta á annan milljarð kr., hvorki meira né minna. Og af því að þetta er víxill sem enginn veit hvað hár verður á falldegi, þá er gripið til þessa ráðs að framlengja gjaldið og treysta á að það gefi ríkissjóði hátt í 3 milljarða. Ég geng þá út frá því, þegar ég nefni svo háa tölu, að söluskatturinn komi ofan á 2.2 milljarða kr. Við vitum það, sem höfum verið í fjvn., að vandalaust er að ráðstafa þessari tölu og þótt meira hefði verið til í ríkissjóði. En það segir ekki það, að ekki hefði mátt breyta skattalögunum og um leið að taka víðar til fanga en bara af almenningi til þess að jafna metin fyrir ríkissjóð. Það hefur ekki fengist fram, eins og skýrt hefur komið í ljós í sambandi við almannatryggingalögin, þegar fært þótti að lækka heildarniðurstöðu fjárlaga um 1.7 milljarð nokkurn veginn til þess að sýna að fjárl. hækkuðu aðeins um ákveðna prósentutölu sem var svo eftirsóknarverð að nauðsynlegt var að taka stórar fjárfúlgur út úr fjárlögum sem þar hafa verið mörg undanfarin ár, aðeins til að geta sagt og hælt sér af því að fjárlög hækkuðu um sáralítið eða sem minnst á milli ára. Það er markmið sem um er talandi og eitthvað er hægt að leggja á sig fyrir að ná. Hitt er minna markmið, að standa við gefin fyrirheit. En það má hæstv. ríkisstj. vita, að launþegasamtökin eru ekki svo illa sett að þau muni ekki eftir þeim loforðum sem þau hafa fengið, enda ekki svo langt um liðið að þau séu fyrnd.

Ég vara við svona vinnubrögðum. Alþ. og ríkisstj. hver sem hún er, eiga að hafa meiri festu í yfirlýsingum sínum og gjörðum. Þá næst meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum og meira tillit verður tekið til ráðh., hverjir svo sem þeir eru og hvaða flakkar svo sem standa á bak við þá — og ekki mun af veita. Almenningur vill sjá trausta og örugga forsjá héðan úr þingsölunum, því að það er gamalt máltæki að eftir höfðinu dansa limirnir og sé ekki um góða viðleitni að ræða á efstu stöðum, þá er ekki að vænta þess að hinn óbreytti þegn hagi sér alltaf á besta veg þegar um eyðslusemi eða ráðdeildarsemi er að ræða. Menn líta þá oft ekki með nægilegri athugun á hvernig ráðstöfun fjármagns er best og æskilegust hverju sinni og engan veginn þegar ríkjandi er alvarlegt ástand í verðbólguþjóðfélagi eins og við höfum búið við undanfarinn langan tíma.

Við í Alþfl. lítum þetta illu auga og við hvetjum til þess að það sé ekki haldið áfram á þessari braut, það sé leitað annarra úrræða í þessu efni og það sé tekið eftir því að verkalýðshreyfingin hefur nú sett fram alveg nýtt viðhorf til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálum okkar. Það er nauðsynlegt að taka eftir því og haga sér skv. því. Annars er ekki neitt annað fram undan en sú gamla, leiðinlega barátta að setja fram kröfur er nema tugum prósenta og þeim verði fylgt eftir með þeirri baráttuaðferð sem launþegasamtökin hafa, að sitja við sinn keip og ef ekki er undan látið þá að beita verkfallsvopninu. Ég tel að nóg sé af slíku komið og við ættum að reyna nýjar leiðir. Og það er ósk mín til hæstv. ríkisstj. að hún stuðli að því af fremsta megni að slíkt takist nú og meira jafnvægi verði komið á en verið hefur.

Mjög margar greinar atvinnulífsins eiga við þröng kjör að búa nú og segjast ekki þola stórkostlegar kauphækkanir, og kann vel að vera að rétt sé frá skýrt. Ef kauphækkanir, sem nema tveggja stafa tölu í prósentum, verða knúnar fram, orsakar það enn skriðu í verðbólguátt og kannske endar það með gengisfellingu er líður á sumarið, eins og oft hefur skeð hér á Íslandi. En þá er það vegna þess að hæstv, ríkisstj. hefur ekki hlustað á þær kröfur og þær hugmyndir og þær tillögur, sem launþegasamtökin hafa sett fram, og hefur ekki viljað með nokkrum hætti stuðla að því jafnvægi í ríkisbúskapnum sem hún segist hafa áhuga á. Ef halda á fast við að þessi prósentutala ríki út næsta ár, þá stuðlar hún óhjákvæmilega að því að illa takist til í þessum efnum og verðbólgan haldi um of áfram í tveggja tuga eða þriggja tuga stærð. Sem sagt, hin ágætu fyrirheit rjúka út í veður og vind hjá hæstv. ríkisstj.

Ég vil undirstrika það, að hæstv. fjmrh. endurskoði afstöðu sína til þessa gjalds, að hann treysti sér til þess að lækka það og ráðstafa fjármagninu sem mest í lækkun á öðrum lífsnauðsynjum, af því að þetta gjald er á mjög mörgum tollflokkum er snerta almenning í landinu. Einkanlega er það á tollflokkum tilfinnanlega varðandi húsnæðismálin sem eru þó orðin þegar mjög mikið vandamál vegna fjármögnunar á öðru sviði.

Ég óska eindregið eftir því, að það verði athugað gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að gera hér nokkra breytingu á. Ef tímaskorti verður um kennt, þá er það haldlítil ástæða vegna þess að ég er viss um það að hv. alþm. mundu afgreiða lægri prósentutölu umsvifalaust og án málalenginga. Það mundu allir fagna því ef slíkt yrði gert, og ekki síður mundi verslunarstéttin fagna slíku, að sjá að búa mætti við eitthvað fast út næsta ár á því sviði. Gæti þá farið saman áhugi á að vinna vel að innkaupum og einnig að jafnvægi takist á milli eyðslu og tekjuöflunar hjá ríkissjóði.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri, herra forseti. Ég reiknaði ekki með því að breyting yrði gerð svo skyndilega á dagskránni. Við í fjvn. höfum verið að mestu leyti innilokaðir í dag við að ganga frá síðustu tölum fjárlaga og ekki getað tekið hér þátt í umr. En ég taldi að við 3. umr. hefði ég eðlilegan rétt til að skýra sjónarmið mín þar sem ég gat ekki stutt frv. eins og það lá fyrir og vildi helst að hæstv. ríkisstj. og fjmrh. gæfu sér örlítinn tíma til að hugleiða málið. Svo langt er nú gengið í þeim efnum að hraða málum hér fram að einn af oddvitum stjórnarliðsins sér sig knúinn til að ávita ríkisstj. í þeim efnum og undirstrika hve þingmál koma lítt undirbúin inn í þingsalina. Á sama hátt erum við knúnir til að afgreiða þingmálin sem koma svo litt undirbúin, með að mestu leyti sýndarnefndarfundum. Ég segi að mestu leyti, því að við erum kallaðir hér á nefndarfundi í hliðarsali og nánast engar skýringar látnar í té. Oft hefur verið deilt á Alþ. fyrir léleg störf, og oft hefur verið sagt að þetta hafi aldrei verið svona áður. Ég skal ekki leggja nokkurn dóm á það en lítt er til eftirbreytni að haga sér með þessum hætti og er mál að linni.