18.12.1975
Efri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í aths. með fjárlagafrv. fyrir árið 1976, á bls. 174, er rakið að hve miklu leyti lagaheimildir til ráðgerðrar lántöku skv. fjárlagafrv. eru fyrir hendi í sérstökum lögum og í frv. sjálfu, 6. gr., er leitað heimilda til lántöku innanlands. Því til viðbótar er í dag útbýtt á Alþ. lánsfjárskýrslu ríkisstj. þar sem gerð er grein fyrir lánsfjáráætlun á árinu 1976. Þar kemur fram að þörf er að afla heimildar til lántöku fyrir ríkissjóð að upphæð 6655 millj. kr. Í þessari lánsfjárskýrslu, sem grein verður gerð fyrir á morgun við 3. umr. fjárlaga, kemur fram með hvaða hætti hugsað er að nýta þau erlendu lán sem ætlað er að taka á árinu 1976. Sé ég því ekki ástæðu til að fara ítarlegar út í það hér.

Frv., eins og það var lagt fram, hefur verið breytt í hv. Nd. og er nú á þskj. 247 með þeim breytingum sem þar hafa orðið. Í 2. gr. er enn fremur leitað heimildar fyrir fjmrh. til að endurlána Framkvæmdasjóði allt að 2045 millj. kr. á árinu af lánsfé því sem um getur í 1. gr. frv.

Ég vísa til þeirrar skýrslu sem lögð hefur verið fram þar sem ítarleg grein er gerð fyrir þeirri lánsfjáráætlun sem hugsað er að gildi á árinn 1976 og eins og ég vék að áðan verður gerð grein fyrir við 3. umr. fjárl.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh,- og viðskn.