22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

9. mál, skylduskil til safna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til l. um skylduskil til safna. Um það efni gilda nú lög nr. 11 frá 8. mars 1949. Ástæða þykir til að endurskoða ákvæði þeirra laga.: M. a. er hér freistað að skilgreina hver sé raunverulegur tilgangur slíkra laga og er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Einnig er hér rakið hvaða aðilar hafa knúið á um endurskoðun þessara laga, og segir svo í greinargerð: „Þeir aðilar, sem skilaskyldir hafa verið samkv. lögum um afhending skyldueintaka til bókasafna, samþ. á Alþ. 24. febr. 1949, hafa oft knúið á um það undanfarin ár að lögin yrðu endurskoðuð og þá ekki síst að því er varðaði tilgang þeirra og þar af leiðandi fjölda skyldueintaka.“ Þetta er nú allt saman gott og blessað. En það er rétt að gera sér ögn nánari grein fyrir því, hvað liggur hér að baki og hvaða ákvæðum þetta frv., ef að lögum verður, breytir í framkvæmd. Þá verður að athuga þetta frv. með hliðsjón af öðru frv. sem hér hefur verið lagt fram, frv. til l. um almenningsbókasöfn, sem mun nú þegar hafa verið rætt og vísað til menntmn.

Það virðist vera megintilgangur þessa frv. til l. um skylduskil til safna að fækka skilaskyldum eintökum bóka og annarrar útgáfustarfsemi í stórum dráttum úr 12 eintökum í 4, og er það að sjálfsögðu allmikil fækkun. En á hvaða aðilum bitnar svo þessi fækkun skyldueintakanna? Þá þurfum við aðeins að líta í gildandi lög um almenningsbókasöfn og frv. það sem ég minntist á um það efni. Segir svo í lögum um almenningsbókasöfn, nr. 22 frá 1963, í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði skulu skyld að varðveita eitt eintak af hverju íslensku riti sem prentað er. Skulu söfnin njóta sakir þessarar skyldu árlegs aukastyrks úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun í fjárlögum.“ Þau 4 eintök, sem gert er ráð fyrir að skylt verði að skila samkv. því frv. sem nú hefur verið lagt fram, eiga að fara til Landsbókasafnsins tvö eintök, Háskólabókasafnsins eitt og Akureyrarbókasafns eitt eintak.“ M. ö. o.: það á að svipta bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði og Seyðisfirði skilaskyldunni, þ. e. a. s. hætta að láta eitt eintak af bókum og öðru meiri háttar prentmáli ganga til þessara safna. Þetta þýðir að sjálfsögðu að grundvöllur þessara bókasafna, þessara gamalgrónu bókasafna, raskast mjög mikið. Í þeirri grein, sem ég vitnaði í áðan, segir að söfnin eigi að njóta sakir þessarar skyldu árlegs aukastyrks úr ríkissjóði.

Ég hef ekki orðið var við að það safn, sem ég hef aðallega í huga, Amtsbókasafnið í Stykkishólmi, hafi notið mikils aukastyrks úr ríkissjóði til starfsemi sinnar. En á hitt ber að líta, að sýslusjóður, sveitarsjóðir og aðilar heima í héraði hafa lagt stórfé, stór framlög til þessara mála, með því að byggja yfir Amtsbókasafnið stórt og veglegt bókasafnshús, bókhlöðu á besta stað í bænum, án teljandi styrks frá hinu opinbera, vegna þess að styrkur til bókhlöðubygginga, eins og hann er ákveðinn í lögum nr. 22 frá 1963, er svo við nögl skorinn að hann hefur nánast ekki skipt máli í sambandi við uppbyggingu þessara safna að þessu leyti.

Ég sé mig alveg sérstaklega knúinn til að vekja hér athygli á þessu máli og jafnframt fara þess alveg sérstaklega á leit við hv. menntmn., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún skoði þetta atriði gaumgæfilega, því að þarna er, eins og ég sagði áðan, verulega raskað rekstrargrundvelli þessara safna sem hafa byggt starfsemi sína m. a. á skilaskyldunni.

Ég er ekki nákunnugur á Ísafirði og Seyðisfirði og þekki ekki hvernig að þessum málum er staðið þar eða hvort þau söfn eru varðveitt í góðum byggingum og varðveitt með sóma eins og vera ber. En ég fullyrði að vel er búið að Amtsbókasafninu í Stykkishólmi, vel að því hlúð og hefur verið lagt stórfé af mörkum frá heimamönnum í því efni.

Þess vegna verð ég að segja það, að ég tel ákvæði þessara frv. sumpart aftur á bak að því er landsbyggðina snertir og þessi þrjú söfn og þurfi því að athuga nánar. Það má vel vera að ástæða sé til að fækka þessum skyldueintökum, og það getur verið álitamál hvað eigi að fækka þeim mikið. Það eru ýmis sjónarmið sem koma þar til greina. En þetta þarf að athuga vandlega.

Að því er varðar frv. til l. um almenningsbókasöfn, þá er ekki ástæða til að ræða það hér þar sem málinu hefur nú verið vísað til nefndar. En það hefur oft verið vakin athygli á því á undanförnum árum að þau lög eru orðin stórlega á eftir tímanum, sérstaklega að því er fjárframlög varðar, þó að með því frv., sem nú er fjallað um, sé að vísu gerð bragarbót, sem þó er ekki ætlað að koma til framkvæmda, að mér skilst, fyrr en á næstu þrem árum eða svo.

Ég held þess vegna, eins og ég hef áður tekið fram, að við þurfum að athuga þetta nánar, og kemur þar ýmislegt til greina. Við verðum að sjá svo um að grundvelli þessara bókasafna, sem þau hafa staðið á hingað til, sé ekki raskað um of. Við verðum að gera þau fær um að gegna hlutverki sínu áfram. Ég tel að prentskilaaðferðin sé jafnvel einfaldari leið og kostnaðarminni til þess að styrkja þessi bókasöfn heldur en sú leið að auka fjárframlög til þeirra, sem að sjálfsögðu gæti þó komið til athugunar. Það má líka minna á, að geymsluskyldan og dreifing bóka um landið er öðrum þræði gerð í öryggisskyni og til þess að tryggja að bækur glatist ekki alveg þótt t. d. náttúruhamfarir, styrjaldir eða aðrar ófarir gangi yfir og tortími ef til vill bókum á einum stað. Það er að vísu ekki rétt að gera ráð fyrir slíku, en þó er sjálfsagt að viðurkenna að hlutir, sem eru geymdir og dreifðir um landið, eru á fleiri en einum stað, eru þó yfirleitt betur varðveittir en ef þeir eru aðeins á einum að tveimur stöðum. Ég held því — og skal ljúka máli mínu — að það þurfi að athuga þetta vel áður en prentskilin eru afnumin að því er tekur til þessara þriggja bókasafna.