19.12.1975
Efri deild: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

130. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með frv. þessu er leitað eftir heimild Alþ. til að framlengja frest samkv. 16. gr. l. nr. 46/1973 um einn mánuð til þess að betri tími gefist til þess að ná samkomulagi í yfirstandandi deilumálum milli fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Jafnframt verði ríkissáttasemjara veitt heimild til að leita sátta milli aðila til 25. jan. 1976 ef annar hvor aðill óskar þess.

Ástæðan fyrir frestunarbeiðni þessari er sú, að aðilar, þ. e. a. s. fjmrn. og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, eru sammála um að reyna til þrautar að ná samkomulagi, en sá tími, sem nú er eftir til ráðstöfunar af gildandi fresti, er fyrirsjáanlega of skammur, en Kjaradómur skal kveða upp úrskurð sinn fyrir 31. des. n. k.

Frv. þetta er flutt með samkomulagi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og gjarnan, þegar svo háttar, hefur ekki verið talin ástæða til þess að vísa slíku frv. til nefndar.

Ég hef haft samráð við formenn allra þingflokka og eru þeir sammála um þá venju sem um slíkan frv.-flutning hefur ríkt — að ekki sé ástæða til að vísa máli til nefndar — og legg því til að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. án þess að það gangi til nefndar.