19.12.1975
Efri deild: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

105. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Á þskj. 257 er frv. til breyt. á l. um söluskatt. Gjöld á söluskattsstofn eru nú samtals 20%, þar af er sjálfur söluskatturinn 13%, söluskattsauki 4%, viðlagagjald á söluskattsstofu 2% og gjald á söluskattsstofn til að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu 1%.

Samkv. 5. gr. l. nr. 5 28. febr. 1975 fellur viðlagagjald á söluskattsstofni niður 31. des. n. k. Er ætlað að núgildandi tekjustofnar Viðlagasjóðs dugi til þess að ljúka verkefnum hans í Vestmannaeyjum og á Norðfirði, en Viðlagatrygging Íslands tekur síðan við verkefnum, eins og kunnugt er, á næsta ári. Er með frv. þessu lagt til að 2% gjald á söluskattsstofn, sem runnið hefur í Viðlagasjóð, verði sameinað söluskattinum og renni framvegis í ríkissjóð. Þá er lagt til að 3 stig af söluskattsaukanum verði felld niður, en söluskattur hækkaður að sama skapi, sbr. brtt. á þskj. 199. Með þessu hækkar söluskatturinn um 5 prósentustig enda þótt heildargjöld þau, sem eru lögð á söluskattsstofn, verði óbreytt, þ. e. a. s. 20%.

Þessi breyting hefur í för með sér að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga stóraukast. Samkv. núgildandi lögum nýtur sjóðurinn 8% af þeim tekjum sem sjálfur söluskatturinn, þ. e. a. s. 13 prósentustig, gefa af sér.

Eftir breytinguna nýtur sjóðurinn hins vegar 8% tekna af 18 söluskattsstigum. Er áætlað að tekjuaukning sveitarfélaganna af þessari breytingu verði um það bil 450–460 millj. kr. á árinu 1976, en gert er ráð fyrir að þau verkefni, sem sveitarfélögin yfirtaka, séu samkv. tölum fjárlagafrv. 392 millj.

Þessi breyting er liður í að lögfesta þá stefnumörkun ríkisstj. sem gerð er grein fyrir í aths. við fjárlagafrv. ársins 1976 og nú er komin til afgreiðslu til 3. umr., um tilflutning á verkefnum og tekjum sveitarfélaga, en samhliða frv. þessu var flutt frv. sem felur í sér flutning verkefna til sveitarfélaga.

Auk þessa er gerð tillaga um breytingu á frv. sem þegar hefur verið lagt fyrir Alþ., og lýtur sú tillaga að því sama og felst í ofangreindu frv.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til frekari skýringa á þessu frv. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.