19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki við þessa umræðu að ræða um efnisatriði þessa frv. Afstöðu okkar alþb.- manna til frv. hefur þegar verið lýst. Ég tel að frv. sé í meginatriðum verulega gallað og svo gallað að það eigi ekki að ná fram að ganga. En það var eitt atriði sem ég vildi fá upplýst við þessa umræðu, af því að ég efast um að tími gefist til að fá þær upplýsingar síðar, — atriði sem ég tel mjög mikilvægt að verði upplýst, en það varðar eitt af þeim skilyrðum sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga setti fram af sinni hálfu fyrir því að geta yfirleitt fallist á löggjöf sem færi í þessa átt. Það varðar ákvæði sem nú er í lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar sem ríkissjóður hefur rétt til þess að taka tekjur sveitarfélaganna, sem renna í gegnum Jöfnunarsjóð, upp í skuldir sem sveitarfélögin standa í við Ríkisábyrgðasjóð. Það kom fram sem skilyrði af hálfu sveitarstjórnarsambandsins að það yrði tryggilega frá því gengið að þessar auknu tekjur sveitarfélaganna, sem gert er ráð fyrir nú með aukinni hlutdeild í söluskatti og eiga að vera til þess að halda uppi tiltekinni þjónustu, mjög mikilvægri, það væri alveg tryggt að það væri ekki hægt að taka þær upp í vanskil, sem vissulega geta oft orðið og eru æðioft hjá sveitarfélögunum, með skuldajöfnuði í Jöfnunarsjóðnum. Nú vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort megi ekki treysta því að sú framkvæmd verði á um þessi mál að a. m. k. þær tekjur, sem sveitarfélögin eiga að fá með aukinni hlutdeild í söluskatti og eiga raunverulega samkv., öllum þessum málatilbúnaði að renna til ákveðinna atriða í rekstri sveitarfélaganna, þessar auknu tekjur verði ekki teknar af þeim með skuldaskiptum. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Og ég skil mætavel að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafi komið fram með þetta skilyrði. Stjórnin setti að vísu mörg önnur skilyrði og ég skal ekki fara að ræða þau, en ég tel að þetta sé svo mikilvægt að það væri mjög æskilegt að hæstv. ráðh. vildi gefa yfirlýsingu um væntanlega framkvæmd eins og hann hefur hugsað sér hana varðandi þetta atriði.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða frekar um málið þótt vissulega væri ástæða til þess. En það er orðið svo langt liðið á nóttu að ég sé ekki að það sé í rauninni fært að ræða málið í lengra máli nú við þessa umræðu.