19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er hreinlega sú, að mér fannst varla hægt að ganga hér út úr þingsalnum að lokinni þessari umræðu án þess að ég gerði lítils háttar athugasemd við ræðu hv. 5. þm. Reykn., Ólafs G. Einarssonar, varðandi það sem hann sagði um fræðsluskrifstofurnar og landshlutasamtökin. Ég er ekki sammála honum um það, sem hann sagði þar, í þremur atriðum.

Í fyrsta lagi vil ég ekki fullyrða að það sé enginn áhugi innan þings um lögfestingu landshlutasamtakanna. Hér kom í ljós í fyrra að það var mikill ágreiningur, en þá fékkst enginn úrskurður um hver þingviljinn raunverulega var, en ég hygg að það hafi ekki verið mikið á munum hvorum megin meiri hlutinn lá.

Í öðru lagi vil ég andmæla því að landshlutasamtökin séu ekkert nema áhugamannasamtök. Ég vil ekki setja þau í flokk með venjulegum áhugamannasamtökum. Landshlutasamtökin urðu fyrst og fremst til vegna mjög brýnnar þarfar, og þau hafa tekið að sér margs konar þjónustuhlutverk fyrir þau sveitarfélög sem standa að hverjum samtökum um sig. Ég er sannfærður um að sveitarfélögin í hverjum landshluta fyrir sig mundu ekki vilja leggja þessi samtök niður í dag. Þar af leiðandi vil ég líka gera athugasemd við það, að sveitarstjórnarmennirnir sjálfir hafi snúist gegn þeim, því að ef þeir hefðu gert það yfirleitt, þá hefðu þeir lagt þau niður. Ég vil í þessu sambandi segja það, að ég held að hv. 5. þm. Reykn. megi ekki dæma út frá því sem gerst hefur í hans nágrannasveitarfélagi. (ÓE: Þetta er tómur misskilningur.) En hvað um það, við skulum ekki hafa um það fleiri orð, en mér fannst þetta a. m. k. koma fram í ræðu hans áðan og geta aðrir metið hvort það er rétt skilið eða ekki.

Þau mál, sem hér er um fjallað, eru ákaflega erfið mál og ákaflega viðkvæm. Verkskipting á milli ríkis og sveitarfélaga á Íslandi er langtum erfiðara mál og margslungnara en þessi mál eru í okkar nágranna:öndum. Þegar verið er að sækja fyrirmyndir til Norðurlandanna eða okkar nágrannalanda um hvernig skuli koma málum fyrir, þá verð ég að segja það, að í þessu tilfelli verðum við að byggja á okkar eigin mati, en ekki reynslu annarra. Þar er verkskiptingin mjög ólík. Þar er algengt að sveitarfélögin ein sér reki t. d. alla orkuframleiðslu, dreifi og selji og sé ekki ýkjamikið samband á milli sveitarfélaga. Ég hygg t. d., svo að maður fari til Danmerkur, að þar sé ekki mikið um að sveitarfélög þurfi að fást við hafnarmál. Það er ríkið í heild sem byggir þær hafnir sem á annað borð þarf að hyggja. Og skólamálin eru þar yfirleitt á skyldunámsstigi alfarið á vegum viðkomandi sveitarfélaga, bæði varðandi byggingu og rekstur skóla og viðhald. Þar er líka myndin af samsetningu sveitarfélaga og þjóðfélagsins allt önnur en hún er hér hjá okkur. Þar eru einingarnar það stórar að það er ekkert vandamál. Það, sem þar eru taldar litlar einingar og minnstu einingar, er stærra en stærstu einingarnar hjá okkur, ef höfuðborgin er undanskilin. Þess vegna hlýtur þetta samspil á milli sveitarfélaga og ríkis að vera miklu margslungnara hér en nokkurs staðar annars staðar þar sem við ætlum að leita að fyrirmynd.

Ég hef þess vegna á ýmsan hátt ekki verið neitt sérstaklega hvetjandi í því að hér séu gerðar einhverjar róttækar aðgerðir. Ég verð hins vegar að fallast á að hugmyndirnar um að æskilegt væri að það, sem kallað er frumkvæði og framkvæmd og fjármunaleg ábyrgð, væri á einni hendi ef það er mögulegt. En ég tel hins vegar, enda þótt þessu sé ekki að öllu leyti skipt, að fjármálaleg ábyrgð þess aðila, sem framkvæmir, geti verið virk þó að greiðsla komi ekki að öllu leyti frá þeim hinum sama aðila. Ég held að við þurfum að hafa þarna sem meginsjónarmið að hægt sé að framkvæma ýmsar félagslegar þarfir alls staðar um landið, ríkið komi þar inn á vissan hátt, en sveitarfélögin taki þá þætti, sem þau geta tekið í sínar hendur, og sjái um þá að öllu leyti.

Það er talað um að halda áfram að skoða þessa verkskiptingu, og ég er sammála um að það skuli gert. Ég er líka sammála um að þeir þættir, sem hér voru teknir til meðferðar, voru þeir þættir, sem líklegast var að taka til yfirfærslu, ef það var á annað borð gert. Ég held t. d. að það sé nokkurt atriði að ríkið sé hvetjandi til stofnunar dagvistunarheimila þar sem þau eru ekki komin. En ég sé ekkert sem mælir beinlínis með því, enda þótt það örvi það að dagvistunarheimili verði byggð og rekin, að ríkið þurfi þá endilega að sjá um reksturinn sjálfan.

Ég ætlaði raunar ekki núna, a. m. k. við 1. umr., að tala langt mál um þetta. Ég hafði heldur hugsað mér að gera grein fyrir því þegar búið væri að fjalla um málið í nefnd. Ég mun því ekki segja um þetta meira á þessu stigi. Ég vænti þess að við getum afgreitt málið úr nefnd sem fyrst eftir að þessari umr. lýkur.