23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ræða mín mun fjalla um þau tvö megin viðfangsefni sem eru öllum öðrum mikilvægari um þessar mundir, annars vegar landhelgismálið og hins vegar þann mikla efnahagsvanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir.

Miðvikudaginn 15. okt. s. l. gekk í gildi reglugerð um fiskveiðilandhelgi Íslands er kvað á um útfærslu hennar í 200 sjómílur. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá 28. ágúst 1974 að færa fiskveiðilandhelgi Íslands út í 200 sjómílur á árinu 1975.

Allt frá því að ríkisstjórnin var mynduð hefur ötullega verið unnið að undirbúningi útfærslunnar.

Rétt þótti að ákveða ekki útfærsludaginn fyrr en eftir fund Hafréttarráðstefnunnar sem haldinn var fyrr á þessu ári. Fljótlega að honum loknum var endanleg ákvörðun tekin og sjútvrh. undirritaði reglugerð um 200 mílna fiskveiðilandhelgi 15. júlí s. l., er taka skyldi gildi 15. október.

Reynslan hefur sýnt, að skynsamlegt var að fresta þessari ákvörðun fram yfir síðasta fund Hafréttarráðstefnunnar. Þar var lagt fram frumvarp að hafréttarsáttmála, samræmdur texti sem formenn undirnefnda ráðstefnunnar standa að. Það er styrkur að útfærsla okkar í 200 sjómílur, þótt einhliða sé, er í fullu samræmi við þetta frumvarp. Okkur skiptir nú mestu máli að vernda þau ákvæði frumvarpsins sem mæla fyrir um óskoruð yfirráð strandríkis yfir 200 mílunum, að strandríkið hafi einhliða rétt til að kveða á um hve mikið fiskmagn skuli þar taka upp úr sjó og hvort öðrum þjóðum skuli heimilaðar veiðar. Við verðum að standa vörð um þessi ákvæði frumvarpsins og leitast við að sjá um að þau breytist ekki í meðferð Hafréttarráðstefnunnar.

Samkvæmt heimildum alþjóðlegra aðila, sem hafa gert skrá yfir stærð ríkja eftir að þau öðlast 200 mílna efnahagslögsögu, yrði Ísland 25. víðáttumesta ríki heims.

Við útfærsluna stækkaði yfirráðasvæði Íslands um rúma 500 þús. km2 eða þrefaldaðist. Þessar tölur einar gefa til kynna hve gífurlegt verkefni það er að halda uppi lögsögu á íslensku yfirráðasvæði. Á hafinu mæðir auðvitað mest á landhelgisgæslunni og starfsmönnum hennar. Við aukin verkefni fylgja þeim allar góðar óskir, en jafnframt hljótum við að gera okkur grein fyrir að fjárþörf landhelgisgæslunnar er mikil, bæði vegna tækjakaupa og rekstrar. Mat á þeirri fjárþörf veltur m. a. á því, hvort ófriður verður um útfærsluna eða ekki.

Eins og jafnan áður, þegar við færum út fiskveiðilögsögu okkar, gerum við það einhliða og með vitneskju um að ákvörðun okkar veldur deilum við aðrar þjóðir. Um leið gerum við okkur ljóst að með ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum, ekki síst með tilvísun til stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, höfum við heitið því að leitast við að leysa deilur við aðrar þjóðir með friðsamlegum hætti og samningum.

Í þessu deilumáli höfum við bæði réttinn og rökin með okkur þegar við ræðum við aðrar þjóðir. Ef við viljum annaðhvort ekki eða treystum okkur ekki að halda fast fram málstað okkar í viðræðum og frjálsum samskiptum þjóða, erum við vart verðug þess að heita sjálfstæð þjóð.

Íslenska ríkisstj. hefur tekið þá sjálfsögðu afstöðu að ræða beri við aðrar þjóðir sem þess óska, á þeim grundvelli, að 200 mílurnar verði í heild friðaðar sem allra fyrst. Þær undanþágur, sem hugsanlega kynnu að verða veittar, eiga að byggjast á því, að stórfelldur samdráttur verði í afla erlendra skipa, erlendum fiskiskipum fækki verulega, veiðisvæðin færist sem lengst frá landi, og einkum verði lögð áhersla á að friða 50 mílurnar sem mest. Jafnframt verður ekki gengið til samninga nema til skamms tíma. Ég fjölyrði ekki frekar um það hvernig viðræðum verður háttað í einstökum atriðum, enda verða engir samningar gerðir án þess að þeir komi til umræðu og samþykktar Alþingis. Úrslitum ræður hvort við losnum frekar og fyrr við erlend fiskiskip af Íslandsmiðum með samkomulagi eða án þess.

Við skulum hafa það til hliðsjónar að erlend fiskiskip hafa á undanförnum 10 árum veitt frá 40% og allt að 54% af afla botnlægra fiska á Íslandsmiðum. Það er ekki í raun fyrr en á árinu 1974 að hlutdeild erlendra veiðiskipa minnkar nokkuð, eða niður í 38%, en árið 1974 er einmitt fyrsta heila árið sem bretar veiða hér við land samkvæmt nýju fiskveiðisamkomulagi og landhelgisgæslan hefur getað einbeitt sér að því að stugga þjóðverjum einum út fyrir 50 mílurnar.

Við höfum margvíslegra hagsmuna að gæta í viðræðum við aðra, auk þess meginmarkmiðs að friða allt 200 mílna svæðið fyrir erlendum fiskiskipum.

Við megum ekki spilla góðum málstað okkar á Hafréttarráðstefnunni og leggja vopn í hendur þeirra andstæðinga okkar, sem vilja fá það ákvæði inn í hafréttarsáttmálann, að gerðardómur kveði á um hvernig veiðum útlendinga skuli háttað innan fiskveiðilögsögu strandríkjanna ef samkomulag næst ekki.

Við verðum einnig að hafa hugfast, að við kunnum að hafa hag af því að stunda veiðar innan fyrirhugaðrar 200 mílna lögsögu annarra ríkja.

Þá verður að koma skýrt fram í viðræðum við aðra, að íslendingar geta ekki sætt sig við að erlend skip séu styrkt til veiða á Íslandsmið og aflinn síðan seldur undir kostnaðarverði í samkeppni við fiskafurðir íslendinga sjálfra. Engin þjóð getur sætt sig við slíka samkeppni og allra síst þegar um er að ræða allt að 80% af útflutningi hennar.

Loks megum við ekki missa sjónar af þeim viðskiptalegu hagsmunum, sem við höfum af því að fá samning okkar við Efnahagbandalag Evrópu að fullu í gildi, þótt við látum ekki undan efnahagsþvingunum.

Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á, að fiskveiðilaganefnd, er skipuð var að tilhlutan sjútvrh. til að fjalla um hagnýtingu íslensku fiskveiðilögsögunnar, skili áliti sem fyrst, Alþingi fjalli um málið og löggjöf verði samþykkt fyrir árslok. Við íslendingar eigum að sameinast um að móta skynsamlegar reglur um eigin nýtingu 200 mílna fiskveiðilögsögunnar, Við verðum að sýna, bæði sjálfra okkar vegna og til að styrkja stöðu okkar út á við, að útfærslan sé ekki unnin fyrir gýg og fiskstofnar eyðist ekki jafnt eftir að útlendingar eru horfnir af miðum okkar. Skýrslur um ástand fiskstofnanna á Íslandsmiðum sýna hve brýnt verkefnið er. Víst er að ágreiningur er mikill milli landshluta milli útgerðarmanna og sjómanna á mismunandi fiskiskipum um friðunarráðstafanir og eðlilega skiptingu veiða á miðunum við landið. Þennan ágreining verður að leysa, og við verðum að standa sameinaðir að hagnýtingu miðanna, þannig að við náum hámarksafrakstri af fiskstofnum á hverjum tíma. Án slíks heildarsamkomulags getum við með eigin aðgerðum eða aðgerðaleysi leitt bjargarskort yfir landsmenn í bráð og lengd.

Framvinda landhelgismálsins, bæði út á við og inn á við, ræður miklu um lífskjör þjóðarinnar. Verið getur að af landsmönnum verði krafist meiri kjaraskerðingar en jafnvel hinn mikli efnahagsvandi okkar hefur hingað til gefið tilefni til. Þá er að taka því. Lokatakmarkinu verður að ná, að íslendingar einir stjórni og hagnýti öll fiskimið innan 200 mílnanna. Í þeirri baráttu stöndum við því aðeins sterkt að vígi, að við kunnum að fara með stjórn eigin mála og treysta efnahag okkar, svo að við séum ekki öðrum háðir.

Flestum fannst efnahagsmyndin, sem var forsenda ráðstafana í ágúst og september í fyrra, dregin dökkum litum. Fáa uggði að efnahagurinn yrði í raun enn erfiðari og afkoma útflutningsveganna reyndist stórum lakari en áætlanir sýndu þá. Þá var við því búist, að viðskiptakjörin á árinu 1975 yrðu varla meira en 5–6% lakari en árið 1974. Þróun síðustu mánaða fyrra árs breytti þessari skoðun í grundvallaratriðum. Útflutningsverðlag hafði haldið áfram að slakna, jafnframt því sem innflutningsverðlag hækkaði meira en búist hafði verið við. Um áramót var ljóst að rýrnun viðskiptakjara hlyti að verða 13–15% á þessu ári, og hefur þetta enn snúist til verri vegar, eftir því sem á árið hefur liðið, þannig að nú virðast viðskiptakjör 1975 verða um 16–17% verri en á síðasta ári.

Samtímis því sem skiptahlutfallið á erlendum markaði hefur snúist okkur æ meira í óhag hefur gætt sölutregðu á helstu útflutningsafurðum okkar. Viðskiptastaða okkar er veikari nú en vera þyrfti fyrir þá sök, að við mætum vaxandi markaðstruflunum á sviði sjávarvöruútflutnings. Þannig hafa sum samkeppnislönd okkar tekið upp styrki til sjávarútvegs í vaxandi mæli. Mikilvæg markaðslönd hafa hækkað tolla og tekið upp innborgunarskyldu við fiskinnflutning. Auk þess njótum við ekki þeirra hagkvæmu tollfríðinda sem samningur okkar við Efnahagsbandalagið gerir ráð fyrir, þrátt fyrir tollalækkanir hér á landi. Í þeim löndum, sem gengið hafa úr EFTA og í Efnahagsbandalagið, mætum við nú einnig hækkandi tollum á viðkvæmum sjávarvörum sem eru undirstaða framleiðslu og atvinnu í heilum byggðarlögum.

Það er torvelt að meta þessar truflanir í útflutningsversíuninni til peninga í einni tölu, en þegar greiðslustaðan út á við og rekstrarstaða sjávarútvegs er jafn tæp og raun ber vitni í dag, virðist óhjákvæmilegt að taka tillit til þessara atriða í skiptum okkar við þær þjóðir, sem hér eiga hlut að máli.

Þrátt fyrir minnkun magns þjóðarútgjalda um 10% frá fyrra ári og minnkun innflutningsmagns um 17% veldur andstreymi í útflutningi því, að viðskiptahallinn við útlönd á árinu gæti orðið um 10% af þjóðarframleiðslunni, sem er lakari niðurstaða en að var stefnt og við var búist fyrr á árinu. Það verður þó að teljast mikilsverður árangur að þrátt fyrir þessa miklu minnkun þjóðarútgjalda hefur ekki komið til atvinnuleysis.

Enginn vafi er á því, að auk aðgerða stjórnvalda eigum við í þessu efni mikið að þakka því hve hófsamlega og hyggilega var staðið að launasamningum á þessu ári. Og þótt útlit sé fyrir að okkur miði hægar í jafnvægisátt en að var stefnt, eiga versnandi ytri aðstæður þar drýgstan hlut að máli. Það er ekki við því að búast að jafn afdrifarík umskipti í efnahagsmálum og orðið hafa hér á landi á árunum 1974 og 1975 verði með öllu sársaukalaus. Það er vert að hafa í huga að minnkun þjóðartekna á mann er áætluð 9% milli áranna 1974 og 1975, en á árinu 1974 stóðu þjóðartekjur í stað. Milli ára hefur aldrei fyrr orðið slíkur samdráttur í þjóðartekjum, síðan íslendingar tóku að fullu við stjórn eigin mála. Það er í ljósi þessarar staðreyndar, sem skoða verður árangurinn í stjórn efnahagsmálanna.

Sú staðreynd, að þróun þjóðartekna og viðskiptakjara hefur orðið mun óhagstæðari á árinu 1975 en búist var við í upphafi ársins, veldur því, þrátt fyrir mikla aukningu erlendra lána, að nú er búist við að nettógjaldeyrisstaðan muni versna um 2 500 millj. kr. á árinu og gjaldeyrisforðinn verði því aðeins lánsfé í árslok. Staða sjávarútvegsins er tæp. Þrátt fyrir verulegar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði til frystihúsanna blasir við þeim taprekstur við ríkjandi skilyrði og frystideild Verðjöfnunarsjóðs er tæmd. Ef ytri skilyrði, svo sem útflutningsverð, batna ekki er hér a. m. k. um 2000 millj. kr. vanda að ræða á ársgrundvelli.

Flestar greinar fiskveiða eiga við mikla rekstrarerfiðleika að etja, ekki síst vegna endurtekinnar olíuverðshækkunar.

Herra forseti. Handriti af ræðu minni er skilað í hendur þingmanna fyrir síðustu helgi. Síðan hefur það gerst að fiskiskipum er stefnt í höfn ef fiskverð er ekki hækkað enn um a. m. k. milljarð á ársgrundvelli og sjóðakerfi sjávarútvegsendurskoðað.

Sú endurskoðun er í gangi og á að ljúka fyrir 1. des. n.k. Brýna nauðsyn ber til að gera róttækan uppskurð á sjóðakerfinu, en að svo miklu leyti sem breytingar, er í kjölfar fara, leysa ekki tekjuskiptingarvandamál sjávarútvegsins verða menn að viðurkenna þá staðreynd, að aðrir fjármunir eru ekki til en þeir sem útflutningsverð segir til um á hverjum tíma. Kröfur bæði innan og utan sjávarútvegs verða við það að miðast.

Á þessum vettvangi er ekki kostur að fjalla ítarlega um þann mikla vanda, sem sjávarútvegurinn á nú við að stríða, en ríkisstjórnin telur það grundvallarskilyrði að leysa þennan vanda.

Ekki virðast horfur á því að viðskiptakjör muni fara batnandi á næstunni. Þótt vonir standi til þess að verðlag afurða þeirra útflutningsgreina, sem tæpast standa um þessar mundir, fari hækkandi og rétti hag þeirra á næstu missirum, er jafnframt við því að búast að innflutningsverð hækki svo að þessi vinningur eyðist frá sjónarmiði þjóðarbúsins í heild.

Efnahagsástandið í heiminum vekur ekki bjartsýni. Margvíslegir erfiðleikar hafa tafið endurbata. Íslendingar geta því ekki búist við búhnykk á næsta ári vegna bættra ytri skilyrða.

Þegar vandi næsta árs er metinn virðist í besta falli hægt að búast við óbreyttum þjóðartekjum á mann. Í þeirri þröngu stöðu, sem þjóðarbúið er í um þessar mundir, hljótum við að taka mið af þessum horfum í öllum okkar ákvörðunum. Ef treysta á stöðuna út á við verður það að gerast með því að draga úr þjóðarútgjöldunum.

Helstu markmið ríkisstj. í efnahagsmálum á næstu missirum eru:

Að draga verulega úr viðskiptahallanum strax á næsta ári.

Að hægja mikið á verðbólguhraðanum frá því sem verið hefur á þessu ári.

Að tryggja fulla atvinnu í landinu.

Hinn mikli halli þjóðarbúsins út á við hefur ekki aðeins stóraukið greiðslubyrði þess og dregið úr efnahagslegu öryggi, heldur líður brátt að því að frekari greiðsluhalli verði ekki fjármagnaður með skynsamlegum kjörum.

Stefna verður að því marki að viðskiptahallanum verði eytt á næstu 3–4 árum. Að öðrum kosti verður hvorki unnt að halda áfram eðlilegri fjármögnun né standa við greiðsluskuldbindingar út á við. Jafnvel þótt þessu marki verði náð, yrðu erlendar skuldir íslendinga engu að síður komnar upp í 60% þjóðarframleiðslunnar í lok áratugsins og greiðslubyrðin yrði þá um 20% af heildargjaldeyristekjum.

Á næsta ári virðist í samræmi við þetta varla unnt að stefna lægra en svo að viðskiptahallinn fari niður í 6% af þjóðarframleiðslu, en það er um 6 000–7 000 millj. kr. lægri halli en horfur eru á taldar á þessu ári.

Traust greiðslustaða landsins er forsenda fjárhagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar og valfrelsis í utanríkisviðskiptum, auk þess sem hún er undirstaða þess að okkur takist að afla lánsfjár til framfara í framtíðinni.

Hin mikla verðbólguþróun undanfarinna ára hefur ruglað skynsamlegt arðsemismat og hvers konar áætlanagerð fram í tímann. Hún hefur skapað mikið misræmi á lánamarkaði og valdið stórfelldri tilfærslu eigna milli þeirra, sem skulda, og hinna, sem spara.

Verðbólgan hvetur til óyfirvegaðrar eyðslu og hún veldur endurteknum rekstrarerfiðleikum útflutningsatvinnuveganna. Áhætta og óvissa um atvinnu og hagi fólks og fyrirtækja eykst þegar verðbólga færist í aukana. Öldur spákaupmennsku hafa gengið yfir þjóðarbúið vegna verðbólguþróunar síðustu ára.

Við verðum að gera okkur ljóst að eins og nú er háttað getum við með skynsamlegum ákvörðunum í launa- og verðlagsmálum ráðið því að miklu leyti hver verðþróun næsta árs verður hér á landi. Þessar ákvarðanir hafa afdrifaríkar afleiðingar að því leyti sem ör verðbólga innanlands eykur á efnahagsvandann sem ærinn er fyrir og gerir farsæla aðlögun að breyttum skilyrðum erfiðari en vera þyrfti, ekki síst fyrir ýmsa þjóðfélagshópa, sem höllum fæti standa.

Síðustu tvo ársfjórðungana hafa verðhækkanir verið 6–7% á ársfjórðungi eða minni en nokkru sinni á tveim undanförnum árum. Nú er því brýnna en nokkru sinni að nota það hlé, sem orðið hefur á verðhækkunum — en horfur eru á að það hlé vari, sé rétt á málum haldið — til þess að ná viðtækri samstöðu um sameiginlegt viðnám gegn verðbólgunni.

Fram til þessa höfum við búið við fulla atvinnu þrátt fyrir alvarlegt atvinnuleysi í flestum öðrum ríkjum heims. Að nokkru leyti stafar þetta af því, að brugðist hefur verið við versnandi viðskiptakjörum með því að ganga á gjaldeyrisforðann og með skuldasöfnun erlendis sem haldið hefur uppi innlendri eftirspurn þrátt fyrir minnkandi tekjur. Svigrúmið til þess að halda slíkri stefnu áfram er hins vegar á þrotum.

Samdráttur innlendrar neyslu og fjárfestingar í því skyni að leiðrétta viðskiptahallann við útlönd getur hér á landi eins og annars staðar haft í för með sér minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli. Afleiðingarnar fyrir atvinnustigið í landinu ráðast hins vegar fyrst og fremst af stefnunni í launamálum og viðleitninni til þess að varðveita samkeppnishæfni atvinnuveganna. Gagnkvæmur skilningur í þessum efnum milli ríkisvalds, launþegasamtaka og vinnuveitenda getur ráðið úrslitum um það, hvort hægt verði að draga verulega úr greiðsluhallanum út á við án þess að stofna atvinnuöryggi í hættu. Við verðum að finna þá leið sem í senn tryggir fulla atvinnu og óumflýjanlega aðlögun að gjörbreyttri efnahagsstöðu.

Kjarasamningarnir, sem tókust hinn 13. júní s. l., báru því vitni að verkalýðshreyfingin skilur nauðsyn þess að draga samtímis úr þjóðarútgjöldunum og hraða verðbólgunnar.

Þjóðin öll stendur nú andspænis því vandasama verkefni að ráða kjaramálum sínum fyrir næsta ár farsællega til lykta. Nú ríður á að tapa því ekki sem áunnist hefur. En vissulega eru aðstæður erfiðar.

Líkur benda til, að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækki í ár um 16–17% frá fyrra ári. Fyrir þessari lækkun eru tvær meginástæður. Annars vegar munu þjóðartekjur lækka í ár um 8–9%. Hins vegar jókst kaup máttur tekna og útgjöld heimilanna um 9% á árinn 1974 þótt þjóðartekjur stæðu í stað. Í ár hafa því metin jafnast.

Horfur um hag þjóðarbúskaparins eru nú þannig, að kjaraákvarðanir fyrir næsta ár geta aðeins miðast við það að tryggja núverandi rauntekjur heimilanna og fulla atvinnu. Þetta verður best gert með því að ákveða nú hóflegar kjarabreytingar, sem virða þau takmörk, sem þjóðarbúinu eru sett, og miða að því að draga úr verðbólgunni.

Vitað er að enn eru ekki komnar fram verðhækkanir af eldra innlendu tilefni og erlendar verðbreytingar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á verðlagið hér á landi á næstu mánuðum. Það er skoðun ríkisstj. að kaupbreytingar á næstu missirum megi alls ekki fara fram úr þessum fyrirsjáanlegu verðbreytingum. Launabreytingum verður að stilla svo í hóf að við komum verðbreytingum hér á landi frá upphafi til loka næsta árs niður í það bil sem hér hefur verið að jafnaði síðustu áratugi, 10–15%. Siðar hljótum við að stefna að því að draga enn meira úr verðbólgunni.

Þetta tekst ekki nema með liðsinni aðila vinnumarkaðarins. Þessa liðsinnis er nú leitað. Það er allra hagur, ekki síst launþega og fjölskyldna þeirra, að verðbólgan verði hamin og úr henni dregið til mikilla muna. Til þess að þetta markmið náist telur ríkisstj. ekki ráðlegt að vísitölubinding launa verði upp tekin að nýju með sínu eldra lagi, heldur verði farnar aðrar leiðir til þess að tryggja kaupmátt launa. Vegna þeirrar miklu óvissu, sem ríkir um framvindu efnahagsmála í heiminum á næstunni, er án efa byggilegast að setja kaupmáttarmarkið fremur lægra en hærra í upphafi hins nýja samningatímabils, sérstaklega ef ráðast á til alvarlegrar atlögu við verðbólguna, sem við verðum að gera.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir viðræðum allra aðila um samræmda launastefnu og leiðir til að komast fyrir rætur verðbólgunnar. Jafnframt þarf að vinna að því að móta nýjar reglur um meðferð vinnudeilna og lausn kjaramála í ljósi reynslu undanfarinna ára.

Takist ekki samkomulag um hóflega hækkun launa á næsta ári er atvinnulífinu og efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar beinlínis stefnt í voða. Nýtt launakapphlaup við ríkjandi aðstæður yrði einungis geigvænleg barátta um tekjuskiptinguna. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt okkur að áhrif þessa kapphlaups á kjör hinna tekjulægstu eru oft allt önnur en að er stefnt í orði kveðnu. Hinir tekjulægstu troðast ávallt undir í slíku kaupgjaldskapphlaupi.

Ríkisstj. er reiðubúin til að láta fara fram athugun á tekjuskiptingunni í samræmi við aðila vinnumarkaðarins. Leita verður nýrra leiða til að breyta tekjuskiptingunni í réttlætisátt. Hér koma til greina breytingar á sviði lífeyristrygginga og lífeyrissjóða, skattamála og húsnæðismála. Jafnhliða yrði stefnan í verðlagsmálum tekin til endurskoðunar. Ríkisstj. hefur m.a. í þessu skyni tekið til endurskoðunar ýmis ákvæði skattalaga, svo sem ákvæði um afskriftarreglur, skattlagningu tekna einstaklinga vegna rekstrar einkafyrirtækja og skattlagningu söluhagnaðar.

Öll þjóðfélagsöfl, innan Alþingis og utan, verða að leggjast á eitt til að finna sanngjarna lausn kjaramála í þeirri vandasömu aðstöðu sem við okkur blasir.

Skynsamlegir samningar í launamálum munu þó ekki ná tilgangi sínum nema stefnan í fjármálum opinberra aðila og peninga- og lánamálum stefni að sama marki og virði sömu takmörk. Sú lækkun þjóðarútgjalda, sem nauðsynleg er á næsta ári til þess að draga úr viðskiptahalla, hlýtur að byggjast á því að dregið verði úr fjárfestingu og opinberum útgjöldum sem stuðla ekki að aukinni framleiðslu.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1976 sýnir þennan ásetning ríkisstj. Við gerð frv. hefur verið að því keppt að sporna við útþenslu ríkisútgjalda miðað við önnur svið efnahagsstarfseminnar í landinu, og eins því, að frumvarpið feli ekki í sér ráðstafanir sem valda verðhækkunum, fremur hið gagnstæða. Þetta hefur tekist, en auðvitað ekki sársaukalaust fremur en á öðrum sviðum þjóðlífsins þegar kreppir að. Á miklu veltur að það takist að afgreiða og framkvæma þetta fjárlagafrv. án útgjaldaauka, þótt auðvitað megi deila um leiðir til þess að draga úr útgjöldum. Þjóðin lítur til Alþingis um fordæmi fyrir útgjaldaáform sin á næsta ári. Þetta fordæmi verður að vera eftirbreytnisvert. Ríkisstj. veit að í þessu efni getur hún treyst á stuðning Alþingis.

Fjmrh. mun gera nánari grein fyrir fjárlagafrv. Hér skal því aðeins drepið á fjögur atriði:

1) Ríkisstj. telur að endurskoða verði ýmsa þætti þeirrar löggjafar, sem bindur ríkissjóði útgjöld, ef árangur á að nást í ríkisfjármálum. Enginn vafi er á að ná má jafngóðum eða jafnvel betri árangri, t. d. á vissum sviðum almannatrygginga og menntamála, með lægri fjárhæðum en núgildandi lög og reglur mæla fyrir, ef rétt er á haldið og tillit tekið til mismunandi aðstæðna þegnanna.

2) Ríkisstj. hyggst breyta niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum til landbúnaðarins á þann veg að betri samsvörun verði milli söluverðs og kostnaðar og tilhögun útflutningsbóta verði jafnan þannig að útflytjendur hafi ætíð hag af því að ná sem hæstu verði.

3) Ríkisstj. kunngerir það áform sitt að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga og auka jafnframt hlutdeild sveitarfélaga í tekjum af söluskatti.

4) Ríkisstj. leggur á það áherslu að ríkisútgjöldum á hverjum tíma sé hagað með fyllsta tilliti til þjóðarhags og þau ráðist ekki af sjálfvirkum lagaákvæðum.

Verulegt aðhald hefur náðst í peningamálum á árinu 1975, og er mikilvægt að staðfesta þann árangur. Nýtt samkomulag hefur verið gert milli viðskiptabankanna og Seðlabankans um það að stöðvun útlánaaukningar verði fram haldið til næstu áramóta. Hins vegar hefur ekki tekist að framkvæma það aðhald í útlánum fjárfestingarlánasjóða sem að var stefnt enda þótt útlánakjör þeirra hafi verið þyngd. Ýmsir lánþegar sjóðanna hafa andmælt hinum nýju kjörum. Þessi andmæli eru þó marklítil á meðan þeim er haldið fram án rökstuðnings um skynsamlega fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða.

Á næstunni verður lögð megináhersla á að ná betri tökum á áætlanagerð um útlán fjárfestingarlánasjóðanna, svo að þau verði innan þeirra marka sem ráðstöfunarfé þjóðarbúsins leyfir. Draga þarf verulega úr erlendum lántökum til sjóðanna, en gefa þeim þess í stað meiri aðgang að innlendu fjármagni, fyrst og fremst með því að tryggja frekari þátttöku lífeyrissjóðakerfisins í fjármögnun þeirra.

Félagar í lífeyrissjóðunum geta tryggt atvinnuöryggi sitt með því að beina fjármagni sjóðanna til uppbyggingar atvinnuveganna. Í þessu efni mun ríkisstj. leitast við að tryggja sem besta ávöxtun fjármagns lífeyrissjóðanna svo að þeir geti, þegar fram líða stundir, verðtryggt lífeyrisgreiðslur.

Til þess að skipulegt yfirlit fáist yfir alla lánastarfsemina í landinu og lántökur erlendis til hvers konar framkvæmda á sama tíma og fjárlagaákvarðanir eru teknar, er nú unnið að heildaráætlun um lánsfjármarkaðinn á næsta ári þar sem starfsemi allra lánastofnana verður samræmd innbyrðis og jafnframt öðrum þáttum þjóðarbúskaparins.

En vandinn er ekki aðeins sá að halda útgjöldum þjóðarinnar innan þeirra marka sem tekjurnar setja. Við núverandi aðstæður ríður á að nýta sem best þann öfluga tækjakost sem þjóðin hefur eignast á undanförnum árum. Ástand fiskstofna við landið, stærð fiskiskipastóls og árangur sóknar er nú þannig að vafasamt virðist að stuðla eigi t. d. að innflutningi fiskiskipa um sinn.

Ákvarðanir um stórframkvæmdir eða fjárfestingu verða að sjálfsögðu jafnan að vera vel undirbúnar, en hafi fyrr verið þörf er nú nauðsyn. Forgangsröð framkvæmda verður að ráðast af hagkvæmnisjónarmiðum fyrir þjóðarheildina. Á sviði vegaframkvæmda og brúargerðar hefur á síðustu árum verið skilað stórum áföngum og því getum við sætt okkur við að hægja á þessum framkvæmdum. Orkuframkvæmdir hafa forgang samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstj., en verða einnig að skoðast í því ljósi að arðsemi þeirra standi fyllilega undir afborgunum og vöxtum lána. Ríkisstj. mun beita sér fyrir því að orkuframkvæmdum verði hagað þannig á næsta ári að þær skili sem bestum heildarárangri og ekki sé ráðist í of margt í senn.

Herra forseti. Niðurstaðan af vandlegri skoðun á efnahagsmálunum, eins og þau horfa nú við þjóðinni, verður sú að stefna verði að lækkun þjóðarútgjalda á árinu 1976 til þess að treysta stöðuna út á við og draga úr verðbólgu. Til þess þarf samstillt átak á sviði launa- og verðlagsmála, fjármála og lánamála. Í þeirri stefnu, sem hér hefur verið lýst, felst að útgjöld heimilanna héldust sem næst óbreytt og einnig samneysluútgjöld hins opinbera. Sú lækkun þjóðarútgjalda, sem nauðsynleg er, hlýtur því að verða á sviði fjárfestingar. Í þessu skyni þarf að halda aftur af framkvæmdum og útlánum af opinberri hálfu, þó jafnan með vakandi auga á atvinnuástandi í landinu. Ríkisstj. mun leggja á það áherslu að þær framkvæmdir sitji fyrir sem stuðla með skjótum og öruggum hætti að aukinni framleiðslu og útflutningi eða innflutningssparnaði, en aðrar víki.

Við íslendingar eigum þess ekki kost öllu lengur að þola verðbólguvöxt og viðskiptahalla til þess að tryggja fulla atvinnu.

Við hvorki megum né getum treyst á erlendar lántökur til að jafna svo mikinn viðskiptahalla sem undanfarin tvö ár. Úr því sem komið er leiðir áframhaldandi verðbólga til stöðvunar atvinnufyrirtækja og atvinnuleysis.

Við eigum því ekki annars úrkostar en að ráðast að rótum verðbólgunnar, draga úr þjóðarútgjöldum og stefna að því á næstu 3–4 árum að eyða ekki meira en við öflum.

Þótt verðbólgan víðast hvar annars staðar hafi verið mun minni en á Íslandi er baráttan gegn verðbólgu engu síður nú hvarvetna með öðrum þjóðum eitt meginmarkmið í stjórn efnahagsmála.

Eftir miklar sviptingar í ytri skilyrðum þjóðarbúsins undanfarin ár og hærri verðbólguöldur en dæmi eru um fyrr er nú kyrrara fram undan hér á landi ef við sjálf gefum ekki tilefni til annars. Ástæða er til þess að ætla að verðlagsþróunin á næstunni sé fyrst og fremst á okkar eigin valdi. Þetta tækifæri verðum við að nota til að leggja traustan grunn að sókn til nýrra framfara.

Íslendingar, við eigum nú tækifæri til að kunna fótum okkar forráð í þessum efnum. Því tækifæri megum við ekki glata, því að efnahagslegt sjálfstæði okkar, bæði sem einstaklingar og þjóðarheildar, er í veði. — Góðir áheyrendur. Ég þakka þeim sem hlýddu.