19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

105. mál, söluskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans, þó að það valdi mér og eflaust mörgum öðrum sveitarstjórnarmönnum miklum vonbrigðum. Sveitarfélög — og vil ég helst halda mig að Reykjavíkurborg — hafa þegar lagt út kostnað vegna ársins 1975 gegn endurgreiðslu á árinu 1976 af tekjum sem ríkissjóður hefur þegar haft 1975. Hér er ríkissjóður að velta yfir á sveitarfélögin lögbundnum greiðslum, — að skilningi þeirra sem að þessum málum starfa á vegum Reykjavíkurborgar, og ég reikna með að það sé þá almennt skilningur sveitarstjórnarmanna — sem honum ber annars að greiða. Fyrir Reykjavíkurborg þýðir þetta að á árinu 1976 hafa aukin verkefni, sem nú færast yfir á Reykjavíkurborg, kostnaðarauka í för með sér sem svarar til 209 millj. kr., en tekjuaukningin er 178 millj. rúmar. Við þetta bætist svo kostnaður árið 1975 sem nemur 133 millj. kr. rúmum, þannig að mismunurinn fyrir árið 1976 fyrir Reykjavíkurborg eina er þarna um 160 millj. kr. Ég harma að svona kostnaðarliðum skuli lætt yfir á sveitarfélögin.