19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og ég tók fram við 1. umr. í nótt, þá væri í sambandi við lánsfjárútvegun eðlilegt að fara í alllöngu máli um efnahagsstefnu viðkomandi ríkisstj. hverju sinni, svo mjög sem öll lántaka og ráðstöfun á þeim lánum hlýtur að móta efnahagsstefnuna og efnahagslífið í landinu hverju sinni. Einnig er það eðlileg krafa og réttmæt, eins og síðasti ræðumaður drap á, að þegar um svona stórar tölur er að ræða sem beðið er um að veitt sé heimild til að taka í lánsformi, þá fylgi allgreinagóður listi um sundurliðun á þessu fjármagni. Ég óskaði eftir að það kæmi fram á nefndarfundinum, en ekki hefði tekist að fá neinar upplýsingar sem skiptu máli, ef svo vel hefði ekki borið við að í pússi sínu hafði síðasti ræðumaður allgott yfirlit yfir þarfir lánasjóðanna og hugmyndir um útlán, þótt í mjög stórum dráttum væri. Er það hið eina sem fram hefur komið í þessum umr. og það frá stjórnarandstæðingi, svo að óskir okkar eru ekki hátt skrifaðar í þessu efni hjá hæstv. ríkisstj.

Ég hefði talið eðlileg vinnubrögð a. m. k. í framsögu hjá meiri hl. að drepa nokkuð á þessa þætti og gera nána grein fyrir því, þótt í stórum dráttum væri, hvernig væri hugsað að ráðstafa þessum 14 milljörðum kr. á næsta ári. Við vitum að eitt ákveðið fyrirtæki tekur bróðurpartinn af þessu, en það er einnig vitað, að aðrir stofnlánasjóðir eru í mikilli þörf, eins og hér hefur verið rætt. Þarf ég ekki að endurtaka það, það kom svo greinilega fram í ræðu síðasta ræðumanns að ég get sleppt því.

Á þröngum lánamarkaði eru auðvitað átök um hvernig á að ráðstafa fénu. Þau átök eiga að fara fram opinberlega, en ekki vera pólitísk hrossakaup. Þess vegna geri ég kröfu um að nokkuð sæmilega liggi fyrir hvernig ráðstafa á þessu fjármagni. Ég geng auðvitað út frá því, að þegar ein ríkisstj, vill taka erlent lán, þá sé peningunum ráóstafað á heilbrigðan hátt til atvinnulífsins. Orðin „á heilbrigðan hátt“ geta verið teygjanleg, og það getur verið undirorpið pólitísku mati hvert féð lendir. Við höfum orðið varir við það, að senda hefur orðið á vissa staði stórar fjárfúlgur í gegnum lánasjóði, síðan hefur komið fram að það hefur ekki hrokkið til að veita lán, heldur hefur einnig orðið af hendi viðkomandi sjóða að veita eftirgjafir af lánum eða afborgunum lána og það strikað út. Alþ. er yfirleitt ekki sýndur sá sómi að gerð sé grein fyrir slíku. Það er talið of viðkvæmt mál hvernig með er farið. En ég held að eitt af því, sem nauðsynlegt er að komi fram á Íslandi, sé miklu betri ráðstöfun á fjármagni en hefur verið, því að þótt við viljum allir styðja góð fyrirtæki og nauðsynleg fyrirtæki atvinnulega séð, þá getur verið nauðsynlegt að skipta um forsvarsmenn fyrirtækjanna ef illa hefur tekist til ár eftir ár undir þeirra stjórn. Það er allt annað atriði heldur en ætlast til þess að ákveðin fyrirtæki séu gerð upp.

Það er því stórmál hvernig erlendu lánsfé er ráðstafað á Íslandi og í hvaða þætti það fer. Þegar það liggur fyrir að lánshæfar umsóknir hjá stofnlánasjóðum eru verulega hærri, sem nemur jafnvel milljörðum kr., en hægt er að sinna og fært þykir að taka erlend lán til að mæta eðlilegri eftirspurn, þá er hér um mjög viðkvæmt og þýðingarmikið mál að ræða, hvernig til tekst. Úthlutun þessara lána hefur sterk pólitísk áhrif og sterk áhrif í efnahagslífinu, og það skiptir miklu máli að fyrir henni sé gerð opinber grein. Jafnvel þó að allir stjórnmálaflokkar eigi sinn fulltrúa kannske í bankaráði eða stjórn ákveðinnar stofnunar og þar fram eftir götunum, þá er það ekki nægjanlegt að mínu mati. Það á að birta þetta með vissu millíbili, alla ráðstöfun. Í því hefur Framkvæmdastofnun ríkisins sýnt mikinn sóma, að hún birtir skýrslu yfir öll sín lán, þó að nokkuð sé um liðið frá því að þau voru veitt, en það er það mjög til fyrirmyndar að birta um þau nákvæma lista. A. m. k. er þessi listi sendur alþm. og það er þakkarvert og lofsvert frumkvæði sem sú stofnun hefur sýnt í því efni.

Ég geng út frá því að lánsheimildir í frv. séu nauðsynlegar fyrir efnahagslíf landsmanna, og það gerum við í Alþfl. Við munum því láta kyrrt liggja að veita þessar heimildir. Það er ákvörðun ríkisstj. og mat hennar hve hátt þar þurfi að fara. Frá því fyrst var talað um stórar erlendar lántökur hafa þessar tölur hækkað. Þó var sagt fyrir fáum vikum að við værum komnir að toppi í því efni, en þessi toppur hefur nú nokkuð lyfst upp og gæti haldið áfram að lyftast upp eftir framvindu efnahagslífsins hér á landi.

Gamalt atriði, sem hefur orðið tilefni til átaka hér eftir því hvernig menn stóðu gagnvart viðkomandi ríkisstj., með eða móti, hefur ekki komið nægilega fram í dagsljósið, en ég innti eftir því, og þar á ég við svonefnda greiðslubyrði af erlendum skuldum. Fjárlög verða nú liðlega 64 milljarðar kr., en skuld okkar við útlönd, íslenska þjóðarbúsins, verður um 65 milljarða í lok næsta árs. Er þetta um of eða ekki? Sumir mundu segja að þetta kynni að vera allt eðlilegt ef við ráðstöfum þessu fjármagni í þá þætti er draga úr eftirspurn eftir gjaldeyri annars vegar og hins vegar skapa gjaldeyri. Þá kann þessi byrði, sem fer að nálgast það að fimmta hver króna fer í vexti og afborganir af þessum lánum, að vera réttmæt. Sé hins vegar um ráðstöfun að ræða í aðra þætti, sem auka á eyðslu, en gefa lítið af sér í fjármunamyndun í erlendum gjaldeyri talið, þá er málið alvarlegra. Um þetta hafa stjórnarsinnar fá orð. En þegar sundurliðun er ekki fyrir hendi og hún ekki látin í té nema að takmörkuðu leyti, þá er hér erfitt um að segja.

Mig langar til að forvitnast um það, — ég verð að biðja hæstv. forsrh. að svara því, ef hann kann á því skil, af því að hann er staddur hér í d. nú, en hæstv. fjmrh. hefur líklega ekki vegna anna getað sinnt því að hlusta á umr. í þessu efni, — en beiðni mín er sú að vita hvernig er staða með fjármögnun Hitaveitu Suðurnesja? Það kemur fram í þeim gögnum, sem ég hef séð, að enn liggur ekki fyrir í sambandi við þessa lántöku nein fjáröflun til Hitaveitu Suðurnesja. Það getur vel verið að eigi að koma með sérstök lög þegar liggur nánar fyrir hvernig fjármagna á það fyrirtæki, en mér leikur engu að síður forvitni á að vita, hvað hugsað er í þessu efni. Ég spurði um þessi mál í vor, og þá var sagt að bráður bugur yrði undinn að því að fjármagna þetta fyrirtæki, bæði innanlands og að því er mér skildist erlendis. En í yfirliti, sem fram hefur komið frá Framkvæmdastofnun Íslands eða Framkvæmdasjóði íslands, er tekið fram orðrétt: „Tekið skal fram, að framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja eru ekki teknar með í áætlunum þessum.“ Hér er um verulega stórar upphæðir að ræða, — upphæðir sem eru gjaldeyrisskapandi, framkvæmd í þessu efni skiptir miklu máli fyrir 6–7 þús. manna byggð, og ég vil gjarnan fá að vita hvernig þetta mál stendur. Það getur vel verið að það sé létt verk að fá fjármagn til hitaveituframkvæmda og þurfi ekki að innifela í þessum heimildum heimild til að tryggja þetta lán handa þessu sérstaka fyrirtæki. En það kann einnig að vera, að það sé innifalið í einhverjum liðum, sem ekki eru sundurliðaðir, af því að sundurliðunin er af svo skornum skammti og við verðum aðeins að giska á það.

Afstaða okkar í Alþfl. verður því sú gagnvart þessu frv. og þessum heimildum, að við munum ekki standa í vegi fyrir þeim sem slíkum, en við getum ekki heldur veitt því farboða, því að hér er um stefnumörkun hæstv. ríkisstj. að ræða í efnahagsmálum og atvinnumálum og verður hún ein að bera ábyrgð á slíku, eins og til hefur tekist undanfarna mánuði og fram hefur komið í frv.-flutningi síðustu daga hér á hv. Alþingi.