19.12.1975
Efri deild: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þessar upplýsingar. En það er augljóst mál, að takist svo til að samkomulag náist í Svartsengisdeilunni og fullur kraftur verði settur á framkvæmdir við Hitaveitu Suðurnesja, þá mun það fjármagn, sem hæstv. forsrh. benti á, hvergi nærri til hrökkva, svo að það verður óhjákvæmilegt, hvort sem um er að ræða innlenda fjármögnun eða erlenda lántöku vegna Hitaveitu Suðurnesja, að tryggja það fjármagn.

Ef norðlendingar blessunarlega yrðu nú svo heppnir að fá viðbótarvatn á Laugalandi, þannig að þeir gætu hafist handa með vori að leggja hitaveitu til Akureyrar, þá vantar örugglega á annan milljarð í þá framkvæmd. Hitaveita Suðurnesja mun þurfa mörg hundruð millj. kr., ef ekki á annan milljarð. Ég vil aðeins vekja athygli á því, hvort sem um er að ræða erlenda lántöku eða innlenda fjármögnun, þá kann að vera að upphæðir um eða yfir 2 milljarða þurfi í þessar framkvæmdir. Hér er um afar mikilvægar og góðar framkvæmdir að ræða, og ég vil treysta því að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að stuðla að þeim eftir öllum hugsanlegum leiðum. Þessar framkvæmdir spara gífurlegan gjaldeyri, auk þess sem þær eru búbót fyrir hvern þann aðila er þeirra getur notið.