19.12.1975
Neðri deild: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Gunnlaugur Finnsson) :

Herra forseti. N. tók þetta mál til meðferðar á fundi sínum í morgun og fékk sér til aðstoðar Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga. Eins og segir í áliti meiri hl. var n. ekki sammála um afgreiðslu þess. Við meðferð málsins hefur félmrh. lýst því yfir að einstökum sveitarfélögum, sem kynnu að bíða fjárhagslegt tjón af ákvæðum þessara lagabreytinga, verði veitt aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fengnum till. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, svo sem fram kom við nmr. í Ed. N. leggur áherslu á að reglur um úthlutun aukaframlagsins úr Jöfnunarsjóði verði endurskoðaðar á yfirstandandi þingi. Og meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt, með breytingu þó, þannig að við það bætist ein gr. um gildistöku laganna, svo hljóðandi: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1976:“

Ég hef ekki hugsað mér að taka þetta frv. til ítarlegrar umr., a. m. k. ekki eiga frumkvæði að því efnislega séð. Það er þó rétt aðeins að drepa á einstaka kafla frv., en frv. skiptist í 7 kafla og fjallar hver kafli um þau lög sem breyta þarf til samræmis.

Í l. kafla er rætt um heimilishjálp og þar er um að ræða tiltölulega litla upphæð, og sé ég ekki ástæðu til að gera sérstaka aths. við það.

II. kafli fjallar um vinnumiðlun. Ég tel rétt að vekja athygli á því, að lögin eru að stofni til frá 1956, en breytingar voru gerðar á þeim með l. nr. 71 frá 1969. Samfelld lög hafa ekki birst í Stjórnartíðindum, en samkv. uppsetningu í lagasafni mætti ætla að hér væri um aðrar greinar að ræða, vegna þess að töluröð greina breytist þar. En samkv. mati skrifstofnstjóra Alþ. og ráðuneytisstjórans í félmrn. ber að vitna í stofnlögin, og þau ákvæði, sem eru tekin inn í II. kafla, eru þess vegna í samræmi við það. Hins vegar er svo með þessi lög sem önnur, að ég tel rétt að þau verði felld í samfelld lög við endurskoðun laga.

Varðandi III. kafla, um orlof húsmæðra, þá var gerð breyting á þeim kafla í Ed., sbr. þskj. 238, þar sem lagfært er orðalag, þannig að gert er ráð fyrir að greiða 150 kr. fyrir hverja húsmóður í viðkomandi sveitarfélagi.

Varðandi IV. kafla er um að ræða einna mestu erfiðleikana varðandi verkefnaflutninginn. Svo sem fram kemur í nál. hefur því verið lýst yfir að þau sveitarfélög, sem fyrir mestum óvæntum áföllum verða, verði bætt það með aukaframlagi vegna yfirfærslunnar. Það mál þarf sérstaklega að skoða, einkum þar sem sveitarfélög hafa tekið á sig ákveðnar kvaðir og standa nú í dýrum framkvæmdum.

Stærsti liðurinn í þessari yfirfærslu snertir V. kafla frv., en það er um viðhald grunnskóla og viðhald innbús, kennslutækja og skólabókasafna. Hér virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að einstök sveitarfélög kunna að fara tiltölulega illa út úr þessari tilfærslu, en það er atriði sem verður að taka til gaumgæfilegrar athugunar þegar rætt verður um sérstaka fyrirgreiðslu til sveitarfélaganna sem verst verða úti.

Í VI. kafla frv. er fjallað um dagvistunarheimilin. Það er rétt að benda á prentvillu sem orðið hefur í textanum. Lögin voru samþ. 1373, en ekki 1963. og mun það hafa verið þegar lagfært í skjölum þingsins. Hér er, eins og hv. þm. vita, um að ræða tilfærslu á rekstri. ætlast til að sveitarfélögin standi að öllu leyti sjálf undir rekstri dagheimilanna, en f fjárlagafrv. er áfram gert ráð fyrir stofnkostnaði samkvæmt lögum frá 1973.

VII. kafli frv. fjallar um almenningsbókasöfnin. Þar er yfirfærslan ekki mjög mikil. Það liggur fyrir sú staðreynd að hluta ríkisins í rekstri og uppbyggingu bókasafna um landið hefur verið næsta lítill, og þar sem bókasöfn hafa verið rekin með eðlilegum hætti hafa sveitarfélögin lagt af mörkum fjármuni langt umfram það sem þau voru skyld til samkv. núgildandi bókasafnslögum. Yfirfærslan er þarna metin á 20 millj., og ég hygg að ég þurfi ekki fleiri orð um það að þessu sinni.

Ég vil þá að lokum aðeins minnast á og leggja áherslu á það, sem hefur verið nefnt áður, að þessi lög verði öll endurskoðuð með tilliti til þeirra breytinga, sem væntanlega munu verða á, og auk þess ein lög sem ekki eru nefnd í þessu frv., þ. e. a. s. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það hefur raunar komið fram að ýmsir þm. og m. a. einn nm., sem skrifar undir meirihlutaálitið, gera fyrirvara varðandi það hvernig reglur Jöfnunarsjóðs verða þegar endurskoðun þeirra laga verður lokið. Það er mjög mikilsvert atriði að þar verði slík umþóttun að Jöfnunarsjóðurinn hafi lagalega heimild til þess að taka tillit til þessara sjónarmiða.