23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti, góðir áheyrendur. Forsrh. hefur í stefnuræðu sinni gert grein fyrir því hver verða muni aðalstefnumið stjórnarinnar á næstunni. Eru þau þessi :

Að draga úr viðskiptahallanum.

Að hefta verðbólguhraðann.

Að tryggja fulla atvinnu.

Ég er þessu að sjálfsögðu sammála og tel ekki ástæðu til að endurtaka röksemdir fyrir þessari stefnumörkun né heldur að rekja tölur um efnahagsástandið, þær hafa verið birtar. Hér er ekki í sjálfu sér um neina nýja stefnu hjá stjórninni að ræða. Þetta eru stefnumið sem höfð voru í huga og fest voru á blað við myndun núv. stjórnar, en þá varð að snúast við vandamálum sem enga bið þoldu og þá fyrst og fremst við vanda útflutningsatvinnuveganna, en styrkt staða þeirra miðaði að því að tryggja atvinnuástandið. Má og segja að því marki hafi verið náð að tryggja fulla atvinnu þegar undan eru skilin staðbundin áhrif af völdum togaraverkfalls. Hins vegar hefur ekki tekist að ná því marki sem stefnt var að varðandi hemlun á verðbólgu og viðskiptajöfnuð við útlönd. Verðlagsþróunin hefur orðið önnur og óhagstæðari en búist var við, og viðskiptahallinn hefur orðið meiri en áætlað var.

Hin óhagstæða framvinda í þessum efnum á sér ýmsar orsakir og skýringar. Þar er að sumu leyti um óviðráðanlegar ástæður að ræða, svo sem versnandi viðskiptakjör, sem hafa orðið stórum óhagstæðari en reiknað var með. Verðlagsþróunin á einnig rætur að rekja til aðgerða sem óhjákvæmilegt þótti að gera til styrktar útflutningsatvinnuvegunum og þar með til að tryggja fulla atvinnu, og á ég þar fyrst og fremst við gengisfellingar. Þjónustufyrirtæki hafa fengið miklar hækkanir til þess að afstýra hallarekstri, greiða upp skuldahala og halda í horfi um framkvæmdir. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, hefur haldið uppi miklum framkvæmdum, að of miklu leyti fyrir lánsfé. Hefur það auðvitað stuðlað að atvinnuöryggi, en haft í för með sér versnandi stöðu út á við og ýtt undir þenslu fram yfir það sem heppilegt var. Síðast en ekki síst má svo nefna það, sem e. t. v. er mergurinn málsins, að við höfum eytt meiru en aflað var. Hér er um að ræða keðju og keðjuverkanir. Um það skal ég ekki orðlengja frekan. Það er kannske, úr því sem komið er, fyrst og fremst viðfangsefni fræðimanna.

Það stoðar oftast lítið að sakast um orðinn hlut. En auðvitað eiga menn að læra af reynslunni. Og það verður enginn minni maður af því að viðurkenna mistök. Ég viðurkenni hreinskilnislega að okkur hefur ekki tekist að ná þeim tökum á efnahagsmálum sem æskilegt hefði verið og að var stefnt. Ég hef enga löngun til að skjóta mér undan ábyrgð í því efni. En ætli það verði ekki æðimargir að játa á sig skilningsskort í þessum efnum. Það hefði margt getað farið betur ef menn hefðu viljað snúast við fyrirsjáanlegum vanda og afkomubreytingum í tæka tíð. Vandinn hefði verið minni nú ef menn vorið 1914 hefðu viljað fallast á að athuga þau úrræði, sem ég benti á og beitti mér fyrir, og látið þjóðarhagsmuni ráða í stað flokkadrátta. En sleppum því. Hér er hvorki tími né ástæða til að rifja upp þá sögu.

Nú er aðalatriðið að menn horfist í augu við staðreyndir — að menn viðurkenni veruleikann. Staðreyndin er sú, að við getum ekki haldið áfram að lifa um efni fram, að við getum ekki keyrt áfram á sama hraða og að undanförnu. Við verðum að hægja á ferðinni og skipta í lægri gír. Án þess verður þeim markmiðum, sem sett eru um minni verðbólguhraða og bætta stöðu út á við, ekki náð. En í þeim efnum verður líka að fara með gát og forðast stökkbreytingar svo að atvinnuöryggi sé ekki stefnt í augljósa hættu. Hér verður áreiðanlega vandþrætt meðalhófið. Það verður að játa að það er ekki auðgert að stefna að og ná öllum þessum þrem markmiðum í senn. En hér er ekki lengur um neitt val að ræða því að óbreyttur verðbólguhraði og vaxandi viðskiptahalli mundu leiða til stöðvunar í atvinnurekstri og atvinnuleysis innan tíðar. Stefnumið nr. 3 næst því ekki nema lagfæringar fáist á verðbólguhraða og viðskiptahalla.

Það er því óhjákvæmilegt að beita aðhaldssamari stefnu í fjármálum og á efnahagssviðinu en að undanförnu. Það er ekkert fagnaðarerindi en það er betra að líta raunsætt á hlutina en að blekkja sjálfan sig. Og vissulega eru talsverðar aðhaldsaðgerðir þolandi takist jafnframt að tryggja atvinnuöryggi.

Þau meginverkefni, sem nefnd hafa verið, verða að ganga fyrir öllu öðru. Stefna stjórnarinnar og Alþingis á öðrum sviðum hlýtur að mótast af þeim. Það þarf mönnum að vera ljóst, því að menn verða að vera við því búnir að leggja sitt hvað í sölurnar í svipinn til þess að áðurnefndum markmiðum verði náð. En það er þess virði þegar horft er fram á veginn.

Það er mikilvægt að þessi stefna mæti skilningi þjóðarinnar og þá ekki hvað síst aðila vinnumarkaðarins og annarra þeirra aðila sem sérstaklega móta verðlagsþróun í landinu. Það ríður á miklu að þessi sjónarmið séu höfð í huga við gerð þeirra kjarasamninga sem yfir standa og fram undan eru. Þar er um viðkvæm mál að ræða, eins og á stendur, og verður þar til að koma gagnkvæmur skilningur og góður vilji. Það þarf að grandskoða tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu með opnum augum og af fullri sanngirni. Það þarf að líta á rauntekjur manna hvort sem þær liggja í augum uppi eða eru kannske í skugga.

Hið opinbera — í víðtækustu merkingu — verður líka að leggja sitt af mörkum. Það þarf að draga úr sínum kröfum, en þá verður einnig að stilla þeim kröfum í hóf sem til þess eru gerðar. Á hagsældartímum hafa menn e. t. v. stundum verið of rausnarlegir í útgjöldum og fjárveitingum — í eyðslu af almannafé. Það kann að mega finna einhverja pósta í fjárlögum sem draga má úr eða fella niður án þess að stór skaði hljótist af. Það verður hlutverk fjvn. að fara þar í rækilega eftirleit.

Ég held að við þurfum að hverfa frá því að reyna að leysa sívanda atvinnuveganna með því alltaf að skrúfa upp á við. Ég held að við ættum að reyna að athuga að vinda ofan af — að reyna að draga úr eða létta af ýmsum kostnaðarliðum atvinnuveganna. Þá vandförnu leið þurfa kunnáttumenn að þrautkanna á næstunni.

Kjaramálin eru í deiglunni. Við eigum öll mikið undir því að á þeim finnist farsæl og raunsæ lausn. Að því mun ríkisstj. vinna eftir því sem í hennar valdi stendur. En í þessu sambandi vil ég sterklega vara við því, að menn freistist til að gripa til ólögmætra aðgerða í sambandi við kjaramál eða verðákvarðanir. Slík vinnubrögð munu ekki vekja samúð og kunna aldrei góðri lukku að stýra.

Landhelgismálið verður áreiðanlega í brennidepli á næstunni. Um það efni get ég á þessu stigi að mestu vísað til greinargerðar forsrh.

Fiskveiðilandhelgin hefur verið færð út í 200 sjómílur. Sú ákvörðun var að okkar mati tekin af óhjákvæmilegri nauðsyn. En þessi útfærsla hefur ekki verið viðurkennd af öðrum þjóðum. Í lengstu lög verður að vona að langflest ríki viðurkenni hana í verki og að innan skamms feti ýmsar aðrar þjóðir í fótspor okkar verði dráttur á því að samkomulag náist á Hafréttarráðstefnunni um alþjóðalög á þessu sviði. En eins og er ríkir óvissa um viðbrögð nokkurra þjóða gagnvart 54 mílunum þegar bráðabirgðasamkomulag um þær fellur úr gildi. Um þessi málefni hefur ríkisstj. talið sjálfsagt að eiga viðræður við aðrar þjóðir sem eftir hafa óskað. Það hefði naumast verið stætt á því fyrir Ísland að neita því að ræða þessi mál við aðrar þjóðir. Hitt er annað mál og óséð nú hvort slíkar viðræður leiða til nokkurs samkomulags. Vanhugsaðar yfirlýsingar breskra stjórnmálamanna eru ólíklegar til að greiða fyrir því. En ég fyrir mitt leyti tel rétt að sjá hvað fram kemur í þessum viðræðum.

Ég dreg ekki í efa að í raun og veru vilja allir íslendingar hið sama í þessu máli, þ. e. að fiskimið á landgrunni Íslands lúti óskoruðum yfirráðum íslendinga. Ég held að við ættum að spara allar getsakir í garð hver annars um þetta, auk þess sem slíkt getur gefið viðmælendum okkar villandi hugmyndir um viðhorf manna. Hitt er annað mál, að menn geta haft mismunandi trú á því hvaða aðferð sé vænlegust til að ná settu marki. Ég tel að nokkuð sé gefandi fyrir friðsamlega og vinsamlega lausn þessarar deilu. Ég álít það farsælla fyrir þjóðina heldur en að búa við fjandskap grannríkja sem við höfum öldum saman átt samskipti við. Það er mikils virði fyrir Ísland að eiga sem víðast vinum að mæta. Þess vegna er ég samþykkur þeim sjónarmiðum sem sett eru fram af forsrh. Hitt er ljóst, að eins og ástandið er, sbr. skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, höfum við lítið að láta af hendi. Og samkomulag er útilokað nema litið sé með fyllstu sanngirni á okkar aðstæður. Ógnanir erlendra orðháka hagga þar engu um. Ég hef verið þeirrar skoðunar að hér ættum við að flýta okkur hægt og gefa okkur nægan tíma til að skoða málið vandlega.

Ég tek undir þau orð forsrh. að í viðræðum við aðrar þjóðir höfum við réttinn og rökin okkar megin. Ég undirstrika sérstaklega þau orð hans að í hugsanlegu bráðabirgðasamkomulagi verði einkum lögð áhersla á að friða 50 mílurnar sem mest fyrir veiðum útlendinga og auðvitað helst algerlega. En það er ekki alltaf nóg að hafa réttinn sín megin þegar um samskipti á milli þjóða er að ræða. Réttur og vald eiga þar ekki alltaf samleið. Valdið þjónar ekki alltaf réttinum, og stundum verður rétturinn að víkja fyrir valdinu.

Það er ljóst að ef ekkert samkomulag tekst verður stirð sambúð við tilteknar þjóðir og verðum við þá að taka því með þeim afleiðingum sem þar af kunna að fljóta.

Hins vegar vil ég ekki á þessu stigi þrátt fyrir hótanir gera því skóna sem sjálfsögðum hlut að við verðum beittir ofbeldi þó að samkomulag takist ekki. Það á eftir að skýrast ef til kemur. En ef svo fer að til átaka komi, þá verða það ekki yfirlýsingar okkar og svardagar nú sem úrslitum ráða, heldur þrautseigja, sterkar taugar og vaskleiki okkar landvarnarmanna og öll þeirra aðstaða. Hverju sem fram vindur skulum við því kappkosta að búa þá sem best í stakk og við skulum ekki tala af léttúð um þær hættur sem þeirra gætu beðið.

Þó að málefni þau, sem ég hef hér drepið á, verði efst á blaði á næstunni, verður auðvitað jafnframt unnið að margháttaðri lagasetningu og endurbótum á löggjöf og þá auðvitað helst þeim sem ekki hafa aukin útgjöld í för með sér. Má þar t. d. nefna löggjöf um hagnýtingu fiskimiðanna sem er mjög aðkallandi eins og á stendur og við megum með engu móti heykjast á að setja. Skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar er okkur alvarleg áminning. Þá áminningu megum við ekki láta sem vind um eyru þjóta. Rányrkja á miðunum má ekki eiga sér stað. Hún er ekki lengur afsakanleg, því að nú eigum við kunnáttumenn til að leiðbeina okkur í þessu efni. Hagnýtingu þessara náttúruauðlinda okkar, fiskimiðanna, þarf að byggja á þekkingu. Við þurfum líka alvarlega að fara að hugsa um fiskrækt. Með aukinni þekkingu og tækni kunna að opnast þær leiðir sem menn hingað til hafa aðeins séð í draumi.

Af væntanlegum lagafrv., er fjalla um málefni sem eru í mínum verkahring, skal ég aðeins nefna þessi:

Frv. til l. um breyt. á umferðarlögum. Fjallar það fyrst og fremst um skráningu ökutækja og eiga hinar nýju reglur að gera hana einfaldari í framkvæmd og þar með ódýrari.

Frv. um breyt. á hegningarlögum, sérstaklega um reynslulausn fanga, og eru reglur um það efni nokkuð rýmkaðar.

Frv. um breyt. á réttarfarslögum og dómstólakerfi. Eru þau frv. samin af n. sem skipuð var 6. okt. 1972 til að endurskoða dómstólakerfi landsins á héraðsdómsstiginu og gera till. um hvernig breyta megi reglum um málsmeðferð í héraði til að afgreiðsla yrði hraðari. Í frv. þessum verður um að ræða allumfangsmiklar breytingar. Geri ég ráð fyrir að Alþ. vilji gefa sér góðan tíma til að athuga þær, enda kunna sumar þeirra að hafa nokkurn kostnaðarauka í för með sér.

Frv. til l. um skotvopn og skotfæri. Nýjar og fyllri reglur um það efni eru nauðsynlegar. Það er orðið óeðlilega mikið af skotvopnum í umferð. Getur stafað hætta og umgengnisspjöll af óvarlegri meðferð þeirra. Þar um þarf því að setja strangari reglur.

Af frv., er lúta að viðskiptamálefnum, vil ég sérstaklega nefna hlutafélagalög, sparisjóðalög, verðgæslulög og lög um afborgunarkaup.

Venju samkvæmt munu störf Alþ. á næstunni og allt fram til jóla snúast að miklu leyti um fjárlagasetningu. Þar sem sérstakar fjárlagaumr. fara fram innan skamms skal ég ekki ræða það efni hér, vil aðeins segja að fjármál ríkisins eru nú að mínum dómi eitt veigamesta vandamálið. Verður því að þessu sinni að vanda vel til fjárlagagerðar. Þar þarf að sýna mikla gætni og aðhald. Það er nauðsynlegt að halda þannig á málum að staða ríkissjóðs sé styrk. Það er í raun og veru fjórða ófrávíkjanlega stefnumiðið. Fjölyrði ég annars eigi frekar um það nú.

Þó að nauðsynlegt sé að fylgja aðhaldssamri stefnu á næstunni og þó að við sé að etja erfiðleika á vissum sviðum efnahagslífsins er engin vá fyrir dyrum. Þessi orð eru sögð í trausti þess að stöðvun fiskiskipaflotans verði aðeins stundarfyrirbæri. Íslendingar hafa í rauninni sjaldan eða aldrei verið færari um það að mæta nokkrum mótbyr en einmitt nú. Á undanförnum árum hafa orðið hér stórstígari framfarir en áður eru dæmi til. Þá stórfelldu atvinnuuppbyggingu, sem átt hefur sér stað víðs vegar um landið, má nánast kalla atvinnubyltingu. Þeirri uppbyggingu er áfram haldið. Þá vorum við og svo gæfusamir að færa fiskveiðilandhelgina út í 50 mílur á réttum tíma. Sjálfsagt má segja, að við höfum farið fullhratt á sumum sviðum. Þess vegna hafa farið um okkur nokkrir vaxtarverkir. En án framvindu og framfara undangenginna ára hefði ástand allt verið hér erfiðara. Vegna þess, hversu við erum í stakk búnir, er engin þörf að kvarta þó að við siglum í svolitlu mannrauna íshrafli um skeið. Og þess vegna er engin ástæða til að mögla þó að við verðum um sinn að draga úr ökuhraðanum og örlítil töf verði á framsóknarleið okkar. — Ég þakka þeim er hlýddu og býð góða nótt.