19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

128. mál, frestun á fundum Alþingis

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef ekki till. um það að gera að þessari þáltill. verði vísað til n., sé ekki ástæðu til þess, en hér er gert ráð fyrir að fresta fundum þingsins nokkuð langt fram eftir janúarmánuði. Nú er öllum það kunnugt að kaupgjaldssamningar eru lausir nú um áramót, bæði til sjós og lands, ef svo mætti segja, og getur því hæglega komið til þess að þurfi að grípa til ráðstafana á þessu tímabili. Vissulega hefur þá hæstv. ríkisstj. leyfi til að gefa út brbl. Ég tel að við þessar aðstæður sé eðlilegt að ef á slíkt reyndi, þá yrði annað tveggja Alþ. kallað saman til þess að fjalla um slík stórmál á þessu tímabili eða þá að hæstv. ríkisstj. hefði samráð eða samstarf við stjórnarandstöðuna um það, hvernig við skyldi bregðast ef mál, sem snerta kaupgjaldsmálin, koma upp á þessum tíma þannig að verði úr þeim að ráða á einn eða annan hátt með afskiptum löggjafans. Ég vil leggja áherslu á að þannig verði haldið á málum: annaðhvort verði Alþ. kallað saman eða a. m. k. haft samráð við stjórnarandstöðuna í sambandi við aðgerðir sem gripa verður til, komi mál upp á þennan hátt.