19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

128. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum að efni þessarar till. til þál. er heimild og það er þá á valdi ríkisstj , ef hún telur nauðsynlegt, að kveðja Alþ. saman fyrr en rætt er um, enda er sagt að Alþ. verði kvatt saman á ný eigi síðar en 26. jan. 1976, ekkert bannar að kveðja það saman fyrr. En að gefnu tilefni hv. þm. vil ég láta það koma fram, sem ég hygg að þeir muni ekki telja óeðlilegt, að engin ríkisstj. getur afsalað sér rétti til útgáfu brbl. þegar svo stendur á sem þarna getur verið um að ræða, að Alþ. sitji ekki að störfum.

Ég mun auðvitað og ríkisstj. í heild taka til athugunar þau ummæli, sem hv. þm. hafa látið koma hér fram, og við munum taka tillit til þeirra eins og aðstæður eru til hverju sinni og meta þau eftir þeim. Hins vegar vil ég að það sé alveg skýrt, að í þessari yfirlýsingu minni felst ekki nein takmörkun á stjórnskipulegum rétti ríkisstj. á hverjum tíma.