23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Geir Gunnarsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Þrátt fyrir um það bil 15 þús. millj. kr. aukna skattheimtu ríkissjóðs á þessu ári, þ. e. um 75 þús. kr. meiri skattheimtu á hvert einasta mannsbarn í landinu en á árinu 1974, bendir allt til þess að halli verði á rekstri ríkissjóðs í ár. Afleiðingunum af því dæmalausa stjórnleysi í ríkisfjármálum, sem almenningur hefur hneykslast svo mjög á undanfarið, hefur verið mætt með síauknum yfirdrætti ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann. Þessi yfirdráttur hefur hækkað um nær 5 þús. millj. kr. frá því í lok ágúst í fyrra. Eingöngu nýprentaðir lánsseðlar hafa komið í veg fyrir fjárþrot ríkissjóðs þrátt fyrir hina gífurlega auknu skattheimtu. Á hliðstæðan hátt hefur svo stjórnlausri gjaldeyrisnotkun verið haldið uppi heildsölum til dýrðar með óhemjulegum erlendum lántökum, svo gegndarlausum, að hæstv. forsrh. var að enda við að tilkynna hér áðan að samkv. hans stefnumarki yrðu erlendar skuldir íslendinga komnar upp í 50% þjóðarframleiðslunnar innan 5 ára og greiðslubyrði vaxta og afborgana um 1/5 hluti árlegra gjaldeyristekna, enda hefur fjármálastjórnin verið slík að á þessu ári svara erlendar lántökur til nærri 40% af þeirri upphæð sem þjóðin fær fyrir allan útflutning sinn. Þessi stórfellda skuldasöfnun ríkisins og ríkisstofnana innanlands og utan veldur því að einungis vaxtakostnaður þessara aðila mun á næsta ári nema yfir 4000 millj. kr. og hækkar um 67% á einu ári. Þetta eru staðreyndirnar um úrræði hægri stjórnarinnar í efnahagsmálum sem rétt er að minnast þegar hugleitt er upphaf leiðara Morgunblaðsins 1. þm. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nægilega langt er nú liðið á þetta ár til þess að menn geta gert sér í hugarlund hvaða árangri núv. ríkisstj. hefur náð í viðureign sinni við efnahagsvandann“.

Það, sem ég rakti áðan í fáum orðum, er helsti árangur og afrek þeirra manna sem öll vandamál þóttust geta leyst fyrir síðustu kosningar, en afleiðingin er stórrýrður kaupmáttur launa og stóraukin verðbólga.

Allan fyrri hluta ársins 1974, þegar aðalholskeflur erlendra verðhækkana riðu yfir, var enginn þingmeirihl. fyrir hendi á Alþ. og þáv. stjórnarandstöðuflokkar neituðu að svo mikið sem ræða um úrræði í efnahagsmálum, þrátt fyrir að þá væri ríkisstj. án valds, án þingmeirihl., en s. l. 14 mánuði hafi farið með völd ríkisstj. sem styðst við meirihlutaafl 42 þm. af 60, hefur verðbólgan verið 1/4 meiri fyrsta ár hægri stjórnarinnar en á þeim tíma þegar enginn þingmeirihl. var fyrir hendi í landinu og þáv, ríkisstj. af þeim sökum vanmegnug að taka á málum.

Íslenskt launafólk hefur s. l. ár upplifað stórfelldasta verðbólguskeið sem þekkst hefur hér á landi, verðbólgu sem að hluta á rætur í hækkun verðlags erlendis, í þeim kreppuflogum sem almennt hrjá hinn kapítalíska heim, þar sem gróðakapphlaup auðhyggjunnar markar efnahagslífið og ógnar ætíð afkomu og atvinnuöryggi þeirra sem standa undir öllum gróðanum með vinnu sinni. Við þennan hluta verðbólgunnar bætast síðan áhrifin af efnahagsráðstöfunum hægri stjórnarinnar sem hafa verkað sem olía á eld, þ. e. a. s. áhrif tveggja gengislækkana, vaxtahækkana og stórhækkunar skatta á selda vöru og þjónustu. Afleiðingarnar eru þær að fólk með almennar launatekjur eyðir nú sívaxandi hluta og barnafólk langstærstum hluta launa sinna í matvörubúðunum. En samtímis á sér stað stórkostleg eignaröskun meðal þjóðarinnar, því að nú eru gósentímar fyrir þá sem eiga aðgang að lánafé og keppast við að fjárfesta í von og vissu um verðbólgugróða þegar lánin verða að engu, en byggingar og atvinnutæki margfaldast í verði. Og nú, þegar ráðstafanir hægri stjórnarinnar stórauka þann vanda sem við er að etja vegna versnandi viðskiptakjara og gjaldeyrisskorts af þeim sökum, koma ráðh. einn af öðrum og hefja áminningarnar um að hér búi ein þjóð og allir séu í sama báti, þess vegna verði launþegar umyrðalaust að sætta sig við síversnandi lífskjör,

Þjóðin hefur lifað um efni fram, um 12% í fyrra og 10% í ár, sagði Ólafur Jóhannesson í ræðu 1. okt. s. l. Og það fer ekki milli mála hverjir það eru, sem formaður Framsfl. telur að hafi lifað um efni fram og beri sökina á því að þjóðin eyðir meiri gjaldeyri en hún aflar því að í sömu ræðu hans kom fram að til að draga úr gjaldeyriseyðslunni hefðu lífskjör launþega verið rýrð verulega. Hins vegar gat formaður Framsfl. þess einnig í sömu ræðu að hagur venslunarinnar hefði batnað á þessu ári.

Það liggur þannig ljóst fyrir, að ráðh. Sjálfstfl. og Framsfl. telja að launafólk hafi lifað um efni fram, en kaupmenn verið vanhaldnir, og úr hvoru tveggja er ríkisstj. að bæta á markvissan og árangursríkan hátt.

Nei, það býr ekki ein þjóð í þessu landi, og það hefur blasað skýrt við almenningi að reyni þeir, sem afla verðmætanna í þjóðarbúið, að komast hjá tekjuskerðingu, þá leggur slík hægri stjórn sem nú situr áhyggjur af gjaldeyrisvandræðum til hliðar til að geta komið kjaraskerðingunni fram og tryggt að það séu launastéttirnar sem greiði reikninginn fyrir óðaverðbólguna og óstjórnina í efnahagsmálum. Í tvo og hálfan mánuð voru stóru skuttogararnir, afkastamestu framleiðslutæki þjóðarinnar, bundnir við bryggju í von um að sjómenn gæfust upp.

Of lengi hefur íslenskt alþýðufólk umborið þá þjóðfélagsskipan að nokkur útvalina hluti þeirrar þjóðar, sem sagt er að, sé í einum báti, eigi meginhluta atvinnutækjanna sem hafa orðið til fyrir vinnu launafólks. Þessi hópur fjármálavaldsins„ sem lánveitingar úr opinberum sjóðum og bönkum hafa gert að stóreignamönnum, eykur sífellt eignir sínar og þá hvað mest þegar harðast er kreppt að lífskjörum almennings, og þeir lifa gósentíma núna. Eignatilfærsla til þessara brjóstmylkinga lánakerfisins er örust einmitt þegar talsmenn þeirra setja sig í hvað hátíðlegastar stellingar á Alþ. og áminna það fólk, sem fær 300 kr. í tímakaup, að við séum ein þjóð og öll í sama báti. Nú verði hógværðin, að ríkja hjá því fólki sem notar mestan hluta launa sinna í matvörubúðunum. Nú verði almenningur að skilja að með því að fallast á að dregið sé úr kaupmætti launa hans, þá sólundi hann þeim mun minni gjaldeyri. Gjaldeyririnn verður nefnilega að vera til handa þeim sem eiga peninga og hafa aðgang að bönkum og sparisjóðum til fjárfestingar, og það er að dómi íhalds og Framsóknar óþolandi að setja nokkrar hömlur á hvernig þeir nota hann, t. d. til að byggja jafn bráðnauðsynlega byggingu og hið nýja skrauthýsi ESSO við Suðurlandsbraut. Það er því ekki að undra að t. d. ýmsir framsóknarmenn í Hafnarfirði spyrja jafnvel í dag: Hvers vegna finnst framsóknarforustunni meiri þörf á að skerða lífskjör almennings til að draga úr gjaldeyrisnotkun en að stjórna notkuninni þegar harðnar á dalnum, t. d. með því að fresta því að byggja eitt bankastórhýsið enn í Hafnarfirði, nú yfir Samvinnubankann?

Það mun reynast erfitt að telja launafólki, þjóðinni í bátnum, trú um að það sé nokkuð á sig leggjandi til að viðhalda og tryggja þá stefnu íhalds og Framsóknar um notkun gjaldeyris þjóðarinnar að þar skuli einungis ráða frumstæðustu gróðaspekúlasjónir innflytjenda, einberir hagsmunir gróðaspekúlanta sem í ofanálag búa við svo hagkvæma skattalöggjöf að sjálfur gróðinn, eignamyndunin, er rök fyrir því að þeir skuli vera skattfrjálsir. Og nú er svo komið að sjómenn um allt land hafa fengið nóg af því að afla gjaldeyris í þessa vitleysishít við sírýrnandi lífskjör. Þeir hafa siglt fiskiskipunum til hafnar, eins og þeir hafa áður þurft að gera í stjórnartíð hægri ríkisstj. þegar kjör þeirra, sem afla gjaldeyrisins, eru einskis metin, en hinum hampað, sem gína yfir gjaldeyrinum í gróðaskyni.

Nei, það býr ekki ein þjóð í þess landi. Og þessa dagana verður ýmsum námsmönnum það ljósara en áður, þegar ríkisstj, er nú með stórminnkun raungildis framlags til lánasjóðs þeirra að gera tilraun til að stíga til baka þau skref sem áður hafa verið stigin fram á við í þá átt að tryggja að fjárhagur nemenda ráði ekki úrslitum um tækifæri þeirra til framhaldsnáms.

Nei, það býr ekki ein þjóð í þessu landi, þar sem nokkrir útvaldir eiga ekki aðeins meginhluta atvinnutækjanna, heldur sjálf náttúruöflin og geta selt samborgurum sínum í heilum byggðarlögum afnot af varma í iðrum jarðar eftir að honum hefur verið náð upp á yfirborðið eingöngu fyrir opinber framlög. Og væri það ekki fyrir skort á tæknibúnaði, þá seldu þessir einkagróðadýrkendur og náttúruauðlindaeigendur almenningi andrúmsloftið, almenningi andrúmsloftið. Þjóðfélagsskipunin með forréttindi einkagróðans fram yfir hagsmuni almennings býður a. m. k. upp á það. Valdi náttúruöflin hins vegar eignaskaða, þá er skaðinn þjóðarinnar allrar eins og vera ber. Það er einkenni þeirrar þjóðfélagsskipunar, sem alþýða landsins hefur of lengi umborið, að áföllin eru almennings, en arðurinn er útvalinna.

Samskipti hægri ríkisstj. við verkalýðssamtökin hafa verið slík, að jafnvel þegar svo er látið líta út að verið sé að semja um hagsbætur verða þær í framkvæmd ríkisstj. ein kjaraskerðingin til viðbótar. Samið var um 2000 millj. kr. lækkun beinna skatta. Þessa samninga sveik ríkisstj. með nýju 12% vörugjaldi, en því var harðneitað að um endurheimt skattalækkunarinnar væri að ræða þar sem þessi skattheimta stæði aðeins til n. k. áramóta og þess getið í leiðinni að brýnustu nauðsynjavöru væri hlíft.

Þau svik og prettir, sem Alþýðusamband Íslands var beitt með nýrri skattheimtu í kjölfar samninga um lækkun beinna skatta, eru nú staðfest með fjárlagafrv., þar sem gert er ráð fyrir að launþegar verði nú að kaupa sig undan vörugjaldinu á næsta ári með því að Viðlagasjóðsgjald, tvö söluskattsstig falli í ríkissjóð og niðurgreiðslur á verði brýnustu lífsnauðsynja lækki um 1/4. Viðlagasjóðsgjald, sem átti að falla niður eftir áramót samkv. lögum og notað var til að greiða skakkaföll af náttúruhamförum, heimtar ríkisstj. nú til að greiða skakkaföllin af óstjórninni í ríkisfjármálum. Fjáröfluninni með vörugjaldinu, sem átti aðeins að mæta halla á ríkissjóði í ár, var þó á þann veg háttað að sneitt var hjá brýnustu neysluvörum almennings. Nú eru hins vegar valdar sérstaklega þær vörur sem hvað mestu skipta í heimilisrekstrinum. Þessi lækkun niðurgreiðslna þýðir að í einu stökki mun mjólk hækka um 10 kr. hver lítri, dilkakjöt hækka um 50–60 kr. kg og smjör mun hækka um 120 kr. kg. Á máli forsrh. hér áðan heitir þetta betri samsvörun milli vöruverðs og kostnaðar:

Barnafjölskyldur og lífeyrisþegar munu betur en allir aðrir skilja, hvað þessar aðgerðir ríkisstj. íhalds og Framsóknar þýða í raun, í daglegri baráttu fyrir því að láta endana ná saman í heimilisrekstrinum. Orðalag hæstv. forsrh. sýnir að þjóðin eina og óskipta talar ekki einu sinni sama tungumál.

Ríkisstj., sem þannig stendur að efndum á samningum við verkalýðshreyfinguna um kjarabætur og snýst í sérstaká árás á kjör barnafjölskyldna og lífeyrisþega, mun vissulega ekki geta vænst þess að samtök launafólks semji sérstaklega við hana um viðvarandi kjaraskerðingu og jafnframt áframhaldandi stjórnleysi í innflutningi og gjaldeyrismálum í þágu braskaranna eins og nú er farið fram á. — Góða nótt.