19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

1. mál, fjárlög 1976

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að mæla fyrir brtt., það er nóg af þeim komið nú þegar. Ég hygg að aðrir þm. mér reyndari í þingmennsku geri sér grein fyrir að allar þessar brtt. við 3. umr. fjárl. bera að jafnaði lítinn eða engan árangur. Að sjálfsögðu viðurkennum við þó, sem endanlega réttum upp höndina á móti þessum góðu brtt., að flestar þeirra og rannar allar fjalla um mikil og þörf nauðsynjamál sem okkur væri ekkert kærara en að geta stutt á þann hátt sem brtt. fela í sér. Okkur er það jafnljóst, hvort sem við erum í stjórnarandstöðu eða stjórnarliði, að ef svo færi að við létum tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur og samþykktum allt sem borið er fram af því tagi, þá yrði það að sjálfsögðu ekki til annars en sprengja fjárl. í loft upp og allt lenti í einni hringavitleysu sem engin ábyrg stjórn og þeir, sem henni fylgja, geta staðið að.

Ég stend hér upp aðallega til að gera nokkrar aths. við nál. á þskj. 248 um framlög til flóabáta og fólks- og vöruflutninga, en ég á sæti í þeirri n., samvn. samgm., og ég vil í upphafi máls míns taka mjög eindregið undir orð formanns hennar, hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar, að þessi blessaða n. er í rauninni ekki annað en nafnið og við, sem þar eigum sæti, eigum í rauninni bágt með að sætta okkur við þá ráðstöfun að taka frá henni öll þau mál, sem heyra undir hana. Ég nefni t. d. flugmálin sem eru mjög í brennipunkti nú og hafa orðið illa úti, eins og mörg önnur mál nú á hinum síðustu og verstu tímum. Það væri sannarlega ekki óeðlilegt að samgn. Alþ. hefðu eitthvað til málanna að leggja og jafnvel hafa þar einhver áhrif á, þannig að ég tek eindregið undir þau sjónarmið, að það væri til endurskoðunar að skila samgn. eitthvað af verkefnunum aftur sem búið er að taka frá þeim.

Þetta nál., sem ég vitnaði í, fjallar, eins og fram kemur í nál., um framlög til flóabáta og vetrarsamgangna í dreifbýlinu. Ég veit að allir þm. hafa nokkurn skilning á mikilvægi þessa máls, þó held ég ekki nærri allir fullan skilning á því hvað hér er um mikið stórmál og mikið nauðsynjamál og mikið byggðamál að ræða. Ég held að ég geti skýrt nokkuð rök okkar, sem að þessu nál. stóðum, með því að vitna í bréf frá öllum þm. Vestf. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Þetta bréf var sent viðkomandi ráðh., formönnum þingflokka, formanni fjvn. í von um að erindi þeirra væri veitt nokkur áheyrn. En í bréfinu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fjárlögum 1975 námu framlög ríkissjóðs til flóabáta og vetrarsamgangna í dreifbýli rúmlega 71 millj. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 hefur þessi upphæð lækkað í 67 millj. 536 þús. kr. Mun þar koma til hin almenna 5% lækkun á gjaldaliðum frv. til að draga úr útgjöldum ríkisins. Við núverandi efnahagsaðstæður er sú stefna eðlileg og nauðsynleg. Það er þó skoðun okkar að þessi liður fjárlaga hafi sérstöðu sem nauðsynlegt sé að taka sérstakt tillit til. Flest þeirra byggðarlaga víðs vegar um landið, sem þessa styrks njóta, eru þau sem landfræðilega eru hvað allra verst sett og eiga í vök að verjast frá byggðalegu sjónarmiði, bæði að því er snertir atvinnulega og félagslega aðstöðu. Þá ber ekki síður að leggja áherslu á að viðunandi öryggi í heilbrigðis- og læknisþjónustu byggist óhjákvæmilega fyrst og fremst á samgönguþættinum, ekki hvað síst nú er þau mál hafa þróast í þá átt að læknisþjónusta er í vaxandi mæli veitt af læknamiðstöðvum, en læknissetrum í héruðunum fækkar að sama skapi, svo að vegalengdir milli læknis og fólksins, sem hans á að njóta, eru orðnar miklu meiri en áður var. Hér er því annars vegar viðkvæmt og mikilvægt mál og hreint neyðarúrræði að þurfa að skerða verulega þá aðstoð sem stjórnvöld hafa veitt íbúum strjálbýlisins til að þreyja af einangrun og erfiðleika hins íslenska vetrar.“

Í bréfinu er áfram haldið og talað um Djúpbátinn hf. Fagranes sérstaklega: „Rekstur bátsins undanfarin ár hefur gengið erfiðlega, fyrst og fremst vegna geipilegrar hækkunar á olíuverði, en sú hækkun nemur 84% á árinu 1975. Koma þar að sjálfsögðu engar niðurgreiðslur til. Launaliðurinn vegur einnig þungt á metunum, og gamlar skuldir, sem þurft hefur að taka fé út úr rekstrinum til að standa straum af, gera erfitt fyrir.“

Ég fer ekki út í að rekja tölurnar hér, það hefur verið gert áður af formanni og frsm. n. En við höldum áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu ári hefur hvað eftir annað legið við stöðvun bátsins. Lán úr Byggðasjóði að upphæð 2.5 millj. kr. að viðbættu láni úr Landsbankanum á Ísafirði að upphæð 2 millj. björguðu þó málinu á síðustu stundu. Landsbankalánið þarf að greiðast að fullu í mars 1976 að viðbættum vöxtum og afborgunum af láninu úr Byggðasjóði og eldri skuldum sem nema rúmlega 5.5 millj. kr.“

Það vita allir, sem til þekkja, að byggðin við innanvert Ísafjarðardjúp getur ekki án þjónustu Djúpbátsins verið. Allt tal um að Djúpvegurinn, sem lokið var við í sumar, geti leyst hann af hólmi er á fullkomnum misskilningi byggt. Sá vegur er á stórum köflum lokaður 6 mánuði ársins og þann tíma er báturinn hið eina tæki þessa byggðarlags til að flytja afurðir bænda á markað til Ísafjarðar og annarra þéttbýlisstaða við utanvert Djúpið, til flutninga á skólabörnum til og frá skóla í Reykjanesi og til að flytja heim til Djúpbænda allar aðkeyptar lífsnauðsynjar. Þennan sama tíma flytur báturinn mjólk og aðrar vörur vestur til Dýrafjarðar og Önundarfjarðar á meðan erfiður og snjóþungur fjallvegur yfir Breiðadalsheiði er lokaður. Þess má geta, að snjómokstur á eins km vegarkafla á þeirri heiði, er hún er opnuð á vorin, kostar allt að því 1/2 millj., en Djúpvegurinn er tæpir 250 km. Þetta þýðir ekki, þótt ég hafi bent hér á erfiðleika í rekstri Djúpbátsins og hið bráðnauðsynlega hlutverk sem hann gegnir, að ég muni greiða atkv. þeirri brtt. sem hér liggur fyrir frá nokkrum Vestfjarðaþm. um að framlag hans verði hækkað frá því sem gert er ráð fyrir í nál. okkar og brtt., að framlag hans hækki úr 13 millj. í 17 millj., að viðbættu fyrirheiti um ríkisábyrgð á 15 millj. kr. láni til þeirra flóabáta sem verst eru settir, Breiðafjarðarbátsins Baldurs og Djúpbátsins. Ég hygg að hag þessara báta beggja sé betur borgið á þennan hátt heldur en herja út núna ákveðna fjárveitingu, 2–3 millj. kr. hærri, en afsala sér e. t. v. á móti ríkisábyrgðinni á láninu. Eins og fram kom hjá frsm. nál. er vitað og sýnt mál að málefni þessara báta þarf að taka fastari tökum í framtíðinni. Ég hygg að þessi ríkisábyrgð á 15 millj. kr. láni sé upphafið að frekari aðgerðum til að tryggja áframhaldandi rekstur bátanna.

Það kann að vera að þær raddir heyrist, að þetta sé óhæfilega mikið í lagt af ríkinu, að viðhalda rekstri þessara flóabáta, og hið sama kann að heyrast um fyrirgreiðslu á landsamgöngunum sem þetta nál. tekur einnig til. En eins og ég benti á og fram kom í bréfi okkar Vestfjarðaþm. er hér greinilega um harðbýlustu útkjálkahéruðin að ræða, og spurningin er hvort við ætlum yfirleitt að viðhalda byggð í þessum byggðarlögum eða ekki.

Það er oft talað um að það sé léleg hagfræði í því að viðhalda fáum sálum í dreifðri byggð sem til þarf að kosta milljónum árlega af almannafé til þess að halda við. En ég vil minna á í því sambandi og þá hvað vegina snertir að þessar vetrarsamgöngur eru svo erfiðar sem raun ber vitni vegna þess að vegakerfi þessara byggðarlaga er ákaflega lélegt, gamalt, úr sér gengið, vegirnir teppast strax við skóvarpsþykkan snjó sem fellur. Vegirnir eru ekki uppbyggðir. Sveitir og einstök byggðarlög einangrast. Því er það, að ég tek með fyrirvara þeirri pólitík í vegamálum okkar að leggja allan þunga á að fullgera góðan hringveg í kringum landið, þar sem við getum komist leiðar okkar til og frá Reykjavík og þéttbýlisstöðunum um landið, en láta sitja á hakanum vegakerfið sem tryggir samband milli einstakra sveita og byggðarlaga fólksins sem verður að sækja þjónustu til næsta þéttbýliskjarna, læknisþjónustu og yfirleitt alla þjónustu. Ég er ekki á móti góðum hringvegi, ég veit að það er stórt mál og mikil hagkvæmni í því fólgin að vegirnir, þar sem mest umferðin fer um, séu varanlega byggðir. En spurningin er, hvort það er ekki of seint að snúa sér að þessum útkjálkahéruðum þegar búið er að veita það fé í stóru hringvegaráformin sem til þarf. Það er þess vegna sem ég held að það sé ákaflega óraunsætt og óréttmætt að horfa í allverulegan stuðning til þess að fólk í hinum strjálbýlustu og erfiðustu byggðarlögum geti yfir vetrarmánuðina með skaplegu móti komist leiðar sinnar, aflað sér lífsnauðsynja, komið frá sér sínum afurðum.

Ég veit ekki hvað mörgum hv. þm. af okkar 60 manna hópi, er kunnugt um aðstæðurnar eins og þær í raun og veru eru viða úti í þessum dreifðu byggðum, hvort þeir geta sett sig í spor bóndans sem þarf að eyða allt að því heilum degi í að koma frá sér mjólkinni sinni á markað innan úr dal og fram á ferjubryggjuna, þar sem flóabáturinn, hvort sem það er Drangur, Djúpbáturinn eða Baldur sem í hlut á, tekur við henni. Það fer raunar stundum svo að hann kemst alls ekki, og þá er ekki um annað að ræða í versta tilfelli heldur en að hella niður mjólkinni. Ég veit ekki heldur hvort foreldrar hér í þéttbýlinu gera sér grein fyrir því, að enn eru til börn á Íslandi sem þurfa margoft yfir veturinn, í hvaða veðri sem er, að leggja á sig allt upp í 8 tíma sjóferðalag í misjöfnum veðrum til þess að komast til og frá heimili til skóla. Það getur raunar dregist meira og orðið lengra en 8 tímar. Það getur orðið allt upp undir það vika að þau komist frá heimili sínu og í skólann aftur. Ég tel enga sanngirni að ætlast til þess að þeir þm., sem aldrei hafa verið búsettir úti í dreifbýli og þekkja þetta ekki, geri sér fyllilega grein fyrir þessu. En það, sem við dreifbýlisþm. vonumst til og gerum kröfu til, er að það sé hlustað á okkur þegar við skýrum frá þessu og við séum ekki eilíflega ásökuð um hreppapólitík og útkjálkabarlóm þegar við erum að skýra frá aðstæðunum eins og þær eru. Og þótt ég viti að ég eigi með þessum orðum enga von í að fá fram hækkað framlag til þessa máls núna, þá vil ég vænta þess að þeir þm., sem heyra mál mitt og eiga væntanlega næsta ár að afgreiða fjárlög, hafi eitthvað af þessu í huga og af því sem við dreifbýlisþm. höfum fram að færa yfirleitt til rökstuðnings okkar máli.

Það hefur orðið svo mikil tilfærsla í byggð landsins að meira en helmingur þjóðarinnar er orðið þéttbýlisfólk miðað við dreifbýlustu byggðarlögin. Og við, sem tölum um byggðastefnu sem stjórnarstefnu, hvaða stjórn sem situr við völd, hljótum að reyna að rækja þá stefnu og framkvæma hana eftir bestu getu, fremur en að láta sitja við falleg orð og skeleggar ræður um þessi mál.

Það er sem sagt sitthvað í þessu frv. eins og alltaf sem mann tekur sárt að geta ekki stutt betur. En eins og okkar efnahagsaðstæðum er komið nú, þá hljótum við að sýna ábyrgð og festu í því að hvika ekki frá því frv. sem hér liggur fyrir og er að mínu mati spennt til hins ítrasta miðað við fjármálagetu íslenska ríkisins í dag. Og ég hlýt að viðurkenna að mér ógnar sú staðreynd að við erum enn að bæta við tæpum 7 milljörðum í erlendum lántökum til að standa undir framkvæmdum okkar.

Mér þykir hvað verst að ég get ekki né aðrir þm. í stjórnarliði veitt lið máli Menntaskólans á Ísafirði sem er í húsnæðishraki. Staðreyndin er sú, að Menntaskólinn á Ísafirði hefur ekkert kennsluhúsnæði, alls ekkert, og hann er að þrengja til mikils óhagræðis að hinum skólunum sem eru yfirfullir og bíða mikinn baga við það að menntaskólinn tekur upp húsnæðið. Ég hlýt að harma það, að ekki skyldi vera hægt að veita þessa 20 millj. kr. fyrirgreiðslu sem farið var fram á sem lágmark, og ég vænti þess, að Menntaskólinn á Ísafirði megi á næstu fjárlögum eiga von á ríflegri fjárveitingu sem bæti upp það mikla tjón sem hann verður fyrir þarna í starfsemi sinni.

Mér er einnig mjög sárt um sjúkraflugið, sem að vísu fékkst þó hækkað um 1 millj., og ég er ánægð með að það fékkst þó 1 til viðbótar við 2.5 millj. Hér tel ég mjög stórt mál á ferðinni, sjúkraflugið. Það var vitnað hér í 42. gr. heilbrigðislaganna sem er, að ég hygg, ein allra besta lagagrein sem er í gildi hér á landinu í dag, því að hún er svo raunhæf og skynsamleg og gengur í þá átt að haft sé af heilbrigðisyfirvalda hálfu samráð við samgrn., dómsmrn. og Póst og síma til þess að tengja saman þjónustu þessara rn. almennt við heilbrigðisþjónustuna. Ég hygg að þarna sé bent á margfalt hagkvæmari leið og eðlilegri heldur en að heilbrigðisyfirvöld ein sér gerðu ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til að tryggja skaplega læknisþjónustu í dreifbýlinu. Það hafa hvað eftir annað komið fram hér á Alþ. þáltill. um kaup á þyrlum sem staðsettar skyldu vera á Vestfjörðum og Austfjörðum og vera til aðstoðar við læknisþjónustu þessara byggðarlaga. Það hefur aldrei verið horfið að þessu ráðið, að ég hygg vegna þess fyrst og fremst að það yrði óhæfilega dýrt í framkvæmd og stýrt og erfitt í vöfum. Hins vegar að styrkja einkaaðila, sem vilja halda uppi þessari þjónustu, öryggis- og neyðarþjónustu, að viðbættri almennri farþegaflutningsþjónustu, sem sagt að styrkja þessa aðila dálítið ríflegar, segjum með 5–10 millj. kr. framlagi árlega, það er dropi í hafið hjá því sem hinar ráðstafanirnar, sem ég minntist á, mundu kosta íslenska ríkið. Því finnst mér að þennan lið beri að skoða alveg sérstaklega með tilliti til aðstæðnanna og með tilliti til hagkvæmninnar, hvar hún mundi reynast mest.

Ég skal ekki lengja mál mitt meir, en ég vil vona að enn sem fyrr verði lítið á mál dreifbýlisins í þessu tilliti, að því er varðar samgöngurnar sem eru eitt meginmál þess, að byggðir hinna strjálbýli útkjálka fái yfirleitt þrifist og viðhaldist í framtíðinni, þá verði þessi mál tekin til raunsærrar og sanngjarnrar skoðunar hér eftir. Ég hlýt að þakka samnm. mínum í samvn. Það voru raunar flestir menn sem þekkja þessi vandamál og sýndu fullan skilning og sanngirni hver í annars garð.

Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum með því að vitna í Sigurð heitinn Nordal sem sagði, einhvern tíma, ég man ekki hvar, þegar talað var um byggð á landinu, en honum fórust orð á þá leið, að til væru mörg og sterk rök sem mæltu með því að allt landið væri byggt, — rök sem ekki kæmu neinni hagfræði við.