19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

1. mál, fjárlög 1976

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna brtt. sem ég stend að ásamt allmörgum öðrum hv. þm. og er á þskj. 245. Þessi brtt. varðar heiðurslaun listamanna, ekki varðandi hækkun á liðnum, því að lagt er til að sama upphæð, þ. e. 4.2 millj. kr., verði veitt í þessu skyni og er á fjárl. yfirstandandi árs. Þannig háttar hins vegar til núna, að tveir listamenn, sem nutu þessa heiðurs á yfirstandandi ári, hafa látist á árinu, þ. e. a. s. Brynjólfur Jóhannesson leikari og Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Af þessum sökum eru skörð þessara heiðursmanna opin í hópi þeirra sem njóta heiðurslauna listamanna samkv. ákvörðun Alþingis.

Það hlutverk hefur verið falið menntmn. beggja hv. þd. að gera till. um menn í þennan heiðursflokk. Menntmn. beggja d. hafa haldið fund í þessu skyni. Á þeim fundi var einn nm., Jón Árm. Héðinsson, fjarverandi. Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að ræða sérstaklega hvernig sá fundur fór fram, að öðru leyti en því, að að lokinni skoðanakönnun, er þar fór fram, er það till. þeirra 13 nm., sem á fundinum voru, þ. e. a. s. auk mín Ingvars Gíslasonar, Ragnars Arnalds, Magnúsar T. Ólafssonar, Sigurlaugar Bjarnadóttur, Eyjólfs K. Jónssonar, Gunnlaugs Finnssonar, Inga Tryggvasonar, Steinþórs Gestssonar, Steingríms Hermannssonar, Ellerts B. Schram, Þorvalds Garðars Kristjánssonar og Svövu Jakobsdóttur, að þeir Snorri Hjartarson rithöfundur og Valur Gíslason leikari bætist í hóp þeirra sem heiðurslauna njóta frá hv. Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, herra forseti, og legg þessa till. hér fram og vænti þess að hún hljóti stuðning þm.