19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

1. mál, fjárlög 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi þær umr., sem hér hafa farið fram nú við 3. umr. fjárl., vil ég gjarnan vegna orða hv. 11. landsk. þm. varðandi vinnubrögð í fjvn. og við fjárlagagerðina og þeirra orða, sem hann hafði eftir mér, segja að þar var ekki rétt eftir haft það sem ég sagði við 2. umr. fjárl. Að öðru leyti skal ég ekki eyða tíma hv. þm. nú í að gera vinnubrögð við fjárlagagerð að umræðuefni né heldur samanburð. Þar væri hægt að finna fjöldamörg dæmi frá fyrri tíð, í þann tíð sem hv. 11. landsk. þm. gegndi formennsku í fjvn. Þau dæmi stæðust nú ekki gagnrýni ef þau væru skoðuð, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í slíkar umr. hér.

Hv. 5. landsk. þm. vék að mér fsp. varðandi lántökuheimild til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vil út af því segja þetta: Það er ekki ljóst í dag hvar Lánasjóðnum verður útvegað fjármagn, en ríkisstj. mun að sjálfsögðu standa við þá yfirlýsingu sem hún gaf fyrr á þessu hausti varðandi lánamál námsmanna.

Upphafleg tekjuáætlun fjárlagafrv. var í aðalatriðum miðuð við kaup og verðlag eins og það var í okt. s. l., til samræmis við áætlunargrundvöll gjaldahliðar frv. Meginforsenda um magnbreytingar veltustærða á árinu 1976 var sú, að almenn þjóðarútgjöld yrðu sem næst óbreytt að magni frá því sem spáð var fyrir árið í ár. Tekjuáætlun frv. hefur nú verið endurskoðuð með tilliti til betri vitneskju um líðandi ár, auk þess sem nú er miðað við verðlag og kauplag í des. Forsendur um magnbreytingar veltustærða eru nánast óbreyttar frá frv., enda eru þær í aðalatriðum svipaðar og niðurstaða síðustu þjóðhagsspár fyrir næsta ár sem þm. hafa haft tækifæri til að kynna sér.

Af helstu niðurstöðum þjóðhagsspárinnar má nefna:

Að vænta megi 1/2–1% aukningar þjóðarframleiðslu á næsta ári og viðskiptakjör gætu batnað lítils háttar, þannig að þjóðartekjur ykjust um nálægt 1%. Þessi framleiðsluaukning er minni en nemur náttúrlegri fjölgun fólks á vinnumarkaði og því getur dregið úr eftirspurn eftir vinnuafli, þó ekki svo að til atvinnuleysis ætti að koma.

Að þjóðarútgjöld dragist saman um 3–4% á næsta ári, en 1–2% sé sérstakri fjármunamyndun og birgðabreytingum sleppt. Einkaneysla og samneysla haldist óbreytt, m. a. með tillíti til útgjalda fjárlagafrv., en fjármunamyndun minnki um 9–10%.

Að viðskiptajöfnuður við útiönd verði mun minni en í ár, bæði í beinum tölum og í hlutfalli við þjóðarframleiðslu.

Að dregið geti verulega úr verðhækkunum innanlands á árinu, en meginforsenda þess eru hófsamir kjarasamningar.

Gangi þessar spár eftir má telja það viðunandi árangur í þeirri viðleitni að minnka verulega viðskiptahallann við útlönd, draga úr verðbólgu, en tryggja jafnframt fulla atvinnu.

Við gerð tekjuáætlunar fjárlagafrv. var í aðalatriðum stuðst við innheimtureynslu fyrstu 8 mánuði ársins 1975, og voru tekjur ríkissjóðs í ár þá áætlaðar 49 milljarðar 721 millj. kr. Þar af voru markaðar tekjur 6 milljarðar 544 millj. kr. og almennar tekjur 43 milljarðar 176 millj. kr. Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð með tilliti til innheimtureynslu til októberloka og vísbendinga um innheimtar tekjur í nóv., og er heildarniðurstaðan nær hin sama og áður eða 49 milljarðar 821 millj. kr. Markaðar tekjur eru þó áætlaðar heldur minni nú en áður eða 6 milljarðar 283 millj. kr. Endurskoðun tekjuáætlunar frv. er reist á þessari nýju áætlun fyrir árið í ár, auk þess sem miðað er við verðlag og kauplag í des.

Niðurstaða endurskoðunar tekjuhliðar frv. fyrir 1976 að mati Þjóðhagsstofnunar felur í sér nær 1500 millj. kr. hækkun almennra tekna frá upphaflegu frv. Frá þessu þarf að draga 520 millj. kr. vegna aukinnar hlutdeildar sveitarfélaga í söluskatti, en til viðbótar koma 2 milljarðar og 200 millj. kr. vegna allra áhrifa framlengingar hins sérstaka tímabundna vörugjalds. Samtals hækka þannig almennar tekjur ríkissjóðs um 3 milljarða 150 millj. kr. frá upphaflegri tekjuáætlun frv., en markaðar tekjur lækka um 220 millj. kr., fyrst og fremst vegna minni tekna Vegagerðarinnar. Samkv. þessum áætlunum verða heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1976 um 60 milljarða 300 millj. kr., sem er um 27% hækkun frá fjárl. 1975, en um 21% hækkun frá áætlaðri útkomu ársins í ár.

Forsendur um tekjuskatt einstaklinga eru hinar sömu og voru í upphaflegri áætlun frv., enda er tekjubreyting milli áranna 1974 og 1975 nú áætluð nær hin sama og búist var við í sumar og ákvæði um skattvísitölu eru óbreytt, þ. e. a. s. að hún hækki um 25% eða til jafns við tekjur. Áætlun um eignarskatt er einnig óbreytt frá frv., þar sem reiknað er með að hækkun fasteignamats til eignarskatts ásamt þeim breytingum, sem gerðar verði á skattstiga, gefi sömu útkomu og miðað var við í upphaflegri áætlun.

Bein skattbyrði einstaklinga er í ár áætluð 15.3% af tekjum ársins 1974, en yrði á næsta ári samkv. framansögðu tæp 16% af tekjum ársins 1975, eftir því hvernig álagningu útsvars verður háttað á næsta ári, en þá er búið að reikna með áhrifum sérstakrar útsvarsálagningar vegna sjúkratrygginga.

Aðrar breytingar á tekjuáætlun frá upphaflegu frv. en þær, sem hér hafa sérstaklega verið nefndar, eru eingöngu vegna breyttra forsendna um innheimtu í ár frá því, sem áður var, og vegna breyttra verðlags- og launaforsendna, eins og áður sagði. Þannig er t. d. áfram gert ráð fyrir lækkun tolla um næstu áramót í samræmi við samninga við Fríverslunarbandalag Evrópu og Efnahagsbandalagið og gildandi tollskrárlög.

Í ræðu minni við 1. umr. fjárlagafrv. vakti ég athygli á nokkrum atriðum, sem eigi lágu ljós fyrir þegar frv. var samið. Vék ég þar að væntanlegum samningum um skuldir ríkissjóðs vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, fyrirsjáanlegri lántöku ríkissjóðs, verðábyrgð vegna lántöku til að endurlána togaraeigendum og ekki síst að veik fjárhagsstaða ríkissjóðs mundi kalla á auknar endurgreiðslur lána og vaxta á næsta ári.

Í framsögu formanns fjvn. fyrir áliti meiri hl. n. var gerð ítarleg grein fyrir einstökum breytingum á frv. á milli umr. Ég ætla mér aðeins að fara örfáum orðum um helstu atriði þeirra breytinga sem orðið hafa frá því að frv. var fyrst lagt fram.

Gjöld færð á rekstrarreikningi og fjárfestingu hjá A-hluta stofnunum hafa hækkað úr 57 milljörðum og 400 millj. kr. í 58 milljarða og 900 millj. Þessi breyting hefur þó orðið bæði með hækkun og lækkun gjalda. Í fyrsta lagi er hér reiknað með færslu verkefna til sveitarfélaga að fjárhæð um 400 millj. kr. samkv. upphaflegum tölum frv., sem hins vegar að sameiginlegu mati sveitarstjórna og rn. væru réttar metið sem nær 460 millj. kr. Þá hafa gjöld markaðra tekjustofna alls lækkað um 200 millj. frá frv., en hins vegar nemur hækkun á öðrum gjaldaliðum um 2 milljörðum kr., þannig að nettóhækkun er um 1 milljarð og 500 millj. kr. Meginástæður gjaldahækkunarinnar eru eftirtalin atriði:

Til Ríkisábyrgðasjóðs 200 millj. kr. vegna togara, til samræmis við nýjar launa- og verðlagsforsendur 200 millj., stöður áður án heimilda 75 millj., til Byggingarsjóðs verkamanna 120 millj., til niðurgreiðslna 700 millj. og loks vaxtagreiðslur um 500 millj. kr.

Þar sem tekjuhliðin hefur samkv. því, sem ég sagði áðan, hækkað í 60 milljarða og 300 millj. kr., þegar tillit hefur verið tekið til framlengingar vörugjaldsins og áhrifa endurskoðunar á þjóðhagsforsendum fyrir næsta ár, verða tekjur umfram gjöld um 1 milljarð 500 millj. kr. Hins vegar verður niðurstaða lánahreyfinga nú neikvæð um nálægt 1 milljarð og 100 millj. kr. í stað jákvæðrar niðurstöðu um 200 millj. í frv. Þessa breytingu um 1 milljarð og 300 millj. kr. er einkum að rekja til þess, að almennar afborganir af skuldum ríkissjóðs eru nú áætlaðar um 1 milljarð 150 millj. kr. hærri en áður. Hér vega þyngst afborgun af yfirdráttarskuld við Seðlabankann 600 millj. og greiðslur vegna gengisbóta og annarra skuldbindinga vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins um 420 millj. Þessar síðast töldu greiðslur eru mjög mikilvægar til þess að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og peningamálum landsins á næstu missirum.

Heildarniðurstaðan verður áætlaður greiðsluafgangur um 360 millj. eða um 140 millj. kr. hærri en í frv.

Eins og fram kom hér áðan verður niðurstaðan sú, að heildarútgjöld fjárlagafrv. eru nú áætluð 58 milljarðar 869 millj. kr., sem er um 29–29.5% áætlaðrar þjóðarframleiðslu ársins 1976. Þetta er svipað hlutfall og gert var ráð fyrir í upphaflegri gerð fjárlagafrv., þegar tillit er tekið til aukinnar hlutdeildar sveitarfélaga í söluskatti og samsvarandi tilfærslu gjalda. I þessu sambandi er einnig rétt að nefna aukin útgjöld sjúkratrygginga og nauðsynlega tekjuöflun vegna þess með álagi á útsvar sem nemur tæplega 0.5% af áætlaðri þjóðarframleiðslu.

Síðustu áætlanir um útgjöld ríkissjóðs og þjóðarframleiðslu í ár benda til þess, að hlutur ríkisútgjalda í þjóðarframleiðslu verði rúmlega 30% í ár. Þetta er nokkru hærra hlutfall en reiknað var með í upphafi ársins, en heldur lægra en á árinu 1974. Með fjárlagafrv. og þeim ráðstöfunum öðrum, sem því eru tengdar, er þannig stefnt að því að auka alls ekki hlut ríkisútgjalda í þjóðarframleiðslu á árinu 1976 frá því sem búast má við í ár.

Tilfærsla verkefna til sveitarfélaga eins og sú, sem nú er gert ráð fyrir, er, þótt ýmsum hafi þótt hún orka tvímælis, hiklaust skref í rétta átt, þ. e. í átt til valddreifingar og beinni verka- og ábyrgðarskiptingar. Það er athyglisvert nú sem fyrr, að þótt ýmsir játi því og fagni raunar í almennum umr. að rétt sé að færa verkefni og tekjur til sveitarfélaga, þá hefur á stundum reynst erfitt að fá sömu menn til að fallast á raunverulega einstaka liði þessarar tilfærslu. Þetta liggur í eðli málsins og er elski um að sakast.

Það er ásetningur ríkisstj. að auka svo aðhald með rekstri stofnana og ríkisfyrirtækja að tryggt verði eftir mætti að starfað verði innan ramma fjárl. á næsta ári. Að undanförnu hefur verið unnið að því í fjmrn., ríkisbókhaldi og ríkisendurskoðun að semja reglugerðir um skil innheimtumanna á innheimtufé ríkissjóðs og um bókhald ríkisins. Ég hef í dag staðfest reglugerðir í þessum efnum.

Helstu nýmæli reglugerðar um bókhald eru þessi:

1. Tekinn verður í notkun nýr talnalykill bókhalds og fjárlaga til nota hjá öllum ríkisaðilum í A- og B-hluta ríkisreiknings.

2. Greina skal útgjöld í bundin og óbundin. Bundinn hluti gjalda og útgjöld vegna efnislegra fjármuna eru þær fjárráðstafanir sem eigi verður komist hjá ef halda skal viðkomandi starfsemi í lágmarki innan viðkomandi reikningsárs. Óbundinn hluti gjalda og útgjöld vegna efnislegra fjármuna eru þær fjárráðstafanir sem fresta má á reikningsárinu. Tilgangur með aðgreiningu þessari er að skapa aukinn sveigjanleik í fjármálastjórn ríkisins.

3. Öllum ríkisaðilum er skylt að gera áætlun um greiðslustreymi samkv. fjárl. fyrir hvern mánuð reikningsársins. Áætlunargerð þessi á að efla til muna virkt fjárveitingaeftirlit fjmrn., og ber að skila fjmrn. eigi síðar en 20. dag hvers mánaðar reikningstölum liðins mánaðar með samanburði við greiðsluáætlun. Munu nú við lokaafgreiðslu fjárlaga öllum ríkisaðilum send sérstök eyðublöð frá fjmrn. til notkunar við gerð greiðsluáætlunar fyrir árið 1976.

4. Afrit af öllum meiri háttar verksamningum skal skila fjmrn. innan tveggja vikna frá undirritun. Gildir þetta hjá þeim ríkisaðilum, er ákvæði laga nr. 52/1966 ná til.

Reglugerðin um reikningsskil innheimtumanna ríkissjóðs kemur í stað reglugerðar um opinber reikningsskil frá árinu 1955. Gerðar eru nú auknar kröfur um uppgjör og styttur er frestur innheimtumanna til að skila yfirlitum um innheimtu. Enn fremur er ákvæði um, að fjmrn. gefi fyrirmæli um hversu oft hinir einstöku innheimtumenn skuli skila innheimtufé í ríkissjóð innan mánaðarins.

Ég hef ákveðið að frá og með næstu áramótum skuli nýskipan tekin upp við greiðslu reikninga og greiðslubeiðna frá rn. hjá ríkisféhirði, á þann veg, að kröfur um greiðslur, er berast til ríkisféhirðis í viku hverri, skulu greiddar í lok næstu viku. Með þessari skipan skapast möguleiki á samtíma bókun og endurskoðun er telja verður mikilvægt skref til aukins aðhalds með útgjöldum stofnana og ríkisfyrirtækja. Jafnframt verði tekin upp tölvuvinnsla á greiðslum úr ríkissjóði og um leið gerður samanburður við greiðsluáætlanir stofnana.

Þá mun Innkaupastofnun ríkisins gert skylt að tilkynna fjmrn. um allar meiri háttar pantanir frá stofnunum og ríkisfyrirtækjum, þannig að rn. geti haldið eftir af fjárveitingum viðkomandi aðila fé til greiðslu á innkaupum hjá Innkaupastofnun ríkisins.

Ég tel tvímælalaust, að með þessum aðgerðum skapist meiri möguleiki á góðri fjármálastjóra ríkisins og ekki þurfi að leysa úr fjárhagsvandamáli stofnana og ríkisfyrirtækja eftir að í ógöngur er komið. Með bættri upplýsingamiðlun í ríkiskerfinu má koma í veg fyrir ýmis fjárhagsvandamál í tíma hjá stofnunum og ríkisfyrirtækjum.

Herra forseti. Undir lok þessarar 3. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1976 þykir mér hlýða að minnast þess fáum orðum, að í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta fjárlagafrv. var afgreitt frá Alþ. Hinn 24. ágúst 1875 var fjárlagafrv. fyrir fjárhagsárin 1876 og 1877 samþ. frá Alþ. Konungur staðfesti fjárl. 15. okt. 1875. Fjárlögin fyrir árið 1976 marka því aldaskil í fjárlagagerðinni.

Því er ekki að neita að efni fjárlagaumr. er yfirleitt þannig, að ætla mætti að fjmrh. væri svipað innanbrjósts og Páli Ólafssyni þegar hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessum tímamótum mér mál

er við að standa,

umhverfis því augað sér

ekkert nema vanda.“

Vandamál líðandi stundar eru jafnan áleitin við fjárlagaafgreiðsluna. Á hinn bóginn er þessi vandi einmitt sá sem fylgdi vegsemd fjárforræðis fyrir landið. Fyrstu fjárl., sem samþ. voru, voru til tveggja ára, námu 452 þús. kr. og höfðu hækkað í meðförum þingsins um 9.2% eða úr frv.-tölunni 414 þús. kr. Þessi fjárhæð hefur naumast verið hærri hundraðshluti af þjóðarframleiðslunni en 3%, þótt heimildir í þessum efnum séu næsta ótraustar sem nærri má geta. Þegar þessar tölur eru bornar saman við tölurnar fyrir næsta ár, sem ég nefndi áðan, kemur glöggt í ljós, hve mikið vatn hefur til sjávar runnið á þessari öld um farvegi ríkisfjármálanna.

En þótt margt sé breytt er annað samt við sig. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að ljúka máli mínu með því að vitna til nokkurra orða úr grein prófessors Ólafs Björnssonar fyrrum alþm. um tekjuöflun hins opinbera í riti sem Alþingissögunefnd gaf út árið 1953 um Alþingi og fjárhagsmálin, en þar segir, með leyfi forseta:

„Um það bil er Alþingi fékk löggjafarvald í fjármálum með stjórnarskránni frá 1874 var skattalöggjöf landsins mjög úrelt orðin. Frá því er Alþingi var endurreist árið 1845 höfðu á hverju þingi borist fleiri eða færri bænarskrár úr einstökum héruðum þar sem farið var fram á lagfæringar á skattalöggjöfinni, bæði almennt og í einstökum atriðum, en flestum slíkum bænaskrám var vísað frá með þeim forsendum, að undirbúningur gagngerðra breytinga á skattalöggjöfinni stæði fyrir dyrum og væri rétt að allar meiri háttar breytingar á henni yrðu látnar bíða þar til hin fyrirhugaða allsherjarendurskoðun hefði farið fram. Af endurskoðun þessari varð þó ekki fyrr en árið 1875, að skipuð var þriggja manna n. með konungsúrskurði 29. okt. 1875 til þess að semja ný skattalög fyrir Ísland.“

Það er ekki laust við að sumt af þessu láti kunnuglega í eyrum. En það kann að vera mönnum nokkur hughreysting, að skattanefndin frá því 1875 skilaði 1877 merku áliti sem varð undirstaða mikillar og þarfrar breytingar skattalög fyrir Ísland.“

Ég vil svo að lokum endurtaka þakkir mínar til hv. fjvn. fyrir störf hennar í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu.