20.12.1975
Sameinað þing: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

1. mál, fjárlög 1976

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Þegar svokölluð vinstri stjórn sat að völdum var að ósk alþýðusamtakanna sett upp hagræðingarnefnd til þess að vinna að hagræðingu á málum vinnumarkaðarins. Ég tók þátt í því starfi og taldi stefnt í rétta átt. Því miður dró af störfum þeirrar nefndar. Þegar ég var fjmrh. jók ég við fjárveitingu til þessarar starfsemi og í fjárlagafrv. nú er hún tæpar 6 millj. kr. Ég taldi ekki minni þörf á því að hagræðing væri gerð í versluninni og tel að hagræðingarstarfsemi í verslun sé ekki minna í þágu neytenda heldur en Kaupmannasamtakanna. Ég tel, að það væri því spor aftur á bak að hverfa frá þessu, og mun beita mér fyrir því í ríkisstj. að veruleg hagræðing verði tekin upp í verslun og á því megi byggja ákvörðun um verðlag. Ég segi því nei við þessari till.