23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti, góðir íslendingar. Hjá því getur varla farið að sérhverjum hugsandi manni á Íslandi sé ljóst að nú er illa komið högum íslendinga á sviði efnahagsmála. Ástæðan er einfaldlega sú, að í raun og veru hefur landið verið stjórnlaust að því er efnahagsmál snertir s. l. 3–4 ár. Afleiðing þessa stjórnleysis er fyrst og fremst meiri verðbólga en áður eru dæmi til um frá því að farið var að mæla þetta efnahagsfyrirbæri og a. m. k. Evrópumet í þessum efnum. Jafnhliða er ógnvekjandi halli í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd. Hann nemur nú hvorki meira né minna en tíunda hluta þjóðarframleiðslunnar. Þjóðin er beinlínis farin að lífa á erlendum lántökum.

1. apríl s. l. námu skuldir íslendinga erlendis til langs tíma tæpum 55 milljörðum kr. Þær hafa þrefaldast á um það bil 4 árum, miðað við sama gengi á dollar, og hinn gildi gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar er ekki aðeins horfinn, bankarnir hafa safnað miklum lausaskuldum erlendis. Sérfræðingar hafa spáð því að eftir 3–4 ár muni þjóðin þurfa að nota um það bil fimmtung gjaldeyristekna sinna til að standa straum af vöxtum og afborgunum af þessum gífurlegu skuldum sem safnað hefur verið á örfáum undanförnum árum.

Nú kynni einhver að segja að almenningur og atvinnuvegir hljóti að búa við góðæri í skjóli þessarar skuldasöfnunar, eins og fjölmörg dæmi eru um að skuldakóngar lifa í vellystingum praktuglega. En ekki er því að heilsa. Í fyrsta skipti um langt skeið þarf íslenskur almenningur að sætta sig við lægri ráðstöfunartekjur í ár en í fyrra, allt að 1/6 hluta og margar greinar útflutningsatvinnuveganna sem og ýmis framleiðsla fyrir innlendan markað á við mikla rekstrarerfiðleika að etja.

Eðlilegt er að menn spyrji: Hvernig í ósköpunum hefur annað eins og þetta getað gerst? Var hér ekki gífurlegt góðæri á árunum eftir 1970, bæði meiri verðhækkanir erlendis en áður höfðu átt sér stað og góður afli? Jú, það er rétt. En stundum hefur verið sagt að meiri vandi sé að stjórna í góðæri en á erfiðum árum. Þeim vanda reyndust íslensk stjórnvöld ekki vaxin. Þegar lukkuhjólið snerist og erfiðleikarnir tóku að steðja að reyndust valdhafar óviðbúnir. Niðurstaðan varð ringulreið og upplausn. Þetta á ekki aðeins við um fyrrverandi valdhafa, heldur einnig þá sem við stjórnartaumunum tóku eftir síðustu kosningar. Sama ráðleysið hefur einkennt núv. ríkisstj. og hina fyrrverandi.

Það er athyglisvert að á þessu stjórnleysistímabili undanfarinna ára hafa allir flokkar átt aðild að ríkisstj. nema Alþfl. Ábyrgð SF á óstjórninni er þó tvímælalaust minnst þar eð hluti þeirra sagði skilið við ráðleysisstefnuna. Samt er það ekki ætlun mín að hafa það að efni þessara orða minna að ræða liðinn tíma og deila á fyrrv. og núv. valdhafa fyrir mistök þeirra. Eins og nú er komið málum tel ég mestu máli skipta að vekja athygli á að takist ekki að snúa við á þeirri óheillabraut í efnahagsmálum, sem þjóðin hefur lent í, er sjálft efnahagssjálfstæði þjóðarinnar í hættu. Og glati þjóð efnahagssjálfstæði sínu að meira eða minna leyti, hversu lengi tekst henni þá að halda stjórnmálasjálfstæði sínu?

Til slíks má ekki koma. Nauðsyn ber til þess að snúast gegn vandanum. Eins og málum er nú komið er hins vegar ljóst að enginn einn aðili er þess megnugur að vinna bug á þeim erfiðleikum sem við er að etja. Það er ekki á valdi stjórnvalda einna að leysa vandann. Það er ekki á valdi launþegasamtaka einna né vinnuveitenda. Þessir valdamestu aðilar í landinu verða í samstarfi við stjórnmálaflokkana að takast sameiginlega á við vandann.

Í þessu sambandi er það mjög athyglisvert að forustumenn Alþýðusambands Íslands hafa undanfarið gefið yfirlýsingar um að þeir séu vegna þess óvenjulega erfiða ástands sem ríkir reiðubúnir til þess að fylgja ábyrgri stefnu í launamálum og stuðla að vinnufriði. Þeir hafa lýst nauðsyn þess að ráðast gegn orsökum verðbólgunnar í stað þess að berjast við afleiðingar hennar. Þeim er ljóst að slíkt verður ekki gert nema í samstarfi við ríkisvaldið. Jafnljóst er að grundvallarforsenda þess að slíkt samstarf geti tekist hlýtur að vera að ríkisstj. njóti almenns trausts. Slíks trausts launþega hefur ríkisstj. ekki notið.

Í júní s. l. voru niðurgreiðslur á kjöti og mjólk auknar, og við gerð kjarasamninganna gaf ríkisstj. fyrirheit um að kaupmáttur yrði ekki skertur með því að þessar niðurgreiðslur yrðu lækkaðar. Stuttu síðar var hins vegar lagt á 12% vörugjald sem jók útgjöld almennings um tvöfalda þá upphæð sem aukning niðurgreiðslnanna kostaði. Slík vinnubrögð hæfa ekki í samskiptum við samtök launþega. Þau skapa ekki það traust sem er nauðsynlegt til þess að hægt sé að takast sameiginlega á við vandann. Ef unnt á að reynast að draga verulega úr vexti verðbólgunnar, — engum dettur í hug að hægt sé að stöðva hana með einu átaki, — þá verður sameiginlegt átak ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins að koma til. Kjarni þess þarf annars vegar að vera ábyrgar ráðstafanir ríkisstj. og Alþ., og hins vegar skynsamleg launastefna af hálfu launþegasamtaka sem fyrst og fremst verður að taka mið af hagsmunum hinna lágt launuðu og tryggja þá gegn ranglátri kjaraskerðingu, En hér verður ríkisvaldið að ganga á undan með fordæmi sem vekur traust.

Í þessu sambandi hlýtur það að valda vonbirgðum að hæstv. forsrh. sagði orðrétt í ræðu sinni að án efa væri hyggilegt að setja kaupmáttarmarkmið fremur lægra en hærra í upphafi hins nýja samningstímabils. Ef þetta þýðir að kaupmáttur eigi enn að minnka er þetta köld kveðja til launþega einmitt þegar nauðsyn var boðskapar um jákvæðar aðgerðir af hálfu þings og stjórnar, og slíkar ráðstafanir eru tvímælalaust mögulegar.

Þótt tími minn sé stuttur skal ég nefna nokkur mál þar sem það er á valdi Alþ. og ríkisstj. að gera breytingar sem verða mundu launþegum til hagsbóta og jafnframt auka þjóðartekjur þegar yfir lengri tíma er litið.

Í fyrsta lagi nefni ég nauðsyn þess að gera gagngerar breytingar á skattakerfinu. Núverandi tekjuskattsheimta er orðin að ranglátri skattgreiðslu launafólks. Ég er þeirrar skoðunar að stefna eigi að algjöru afnámi tekjuskatts til ríkisins og að sveitarfélög eigi að hluta að taka upp aðra tekjustofna í stað útsvara. Fyrsta skrefið í þessa átt ætti að stiga þegar ákvæðin um söluskattsstigið vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og Norðfirði falla niður. Þá ætti að nota tekjurnar af þeim til lækkunnar tekjuskatts á almennum launatekjum.

Í öðru lagi nefni ég þann vanda, sem mikill fjöldi fólks, einkum ungt fólk, á við að etja vegna þeirra lausaskulda sem hefur verið efnt til í sambandi við húsbyggingar. Þeim þarf að vera hægt að breyta í föst lán.

Í þriðja lagi nefni ég vandamál lífeyrissjóðanna og það gífurlega misrétti sem þar er á ferðinni vegna mismunandi reglna um verðtryggingu.

Í fjórða lagi er nauðsynlegt að vekja athygli á þeirri stefnu sem enn er fylgt í fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Þar er enn þá ætt áfram í blindni án nokkurrar heildarstefnu, án athugana á hagkvæmni þeirra verkefna sem lagt er út í. Samtímis því sem í ár er gert ráð fyrir yfir 30% minnkun fjármunamyndunar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla, miðað við sama verðlag, er gert ráð fyrir næstum 80% aukningu á sviði rafvirkjana og rafveitna, og mun þó ekki öll sagan um Kröfluvirkjunarævintýrið sögð í því sambandi vegna furðulegs feluleiks sem þar er leikinn. En það er spá mín og margra annarra að þar muni verða um að ræða mikið fjármálahneyksli. Stefnan í fjárfestingarmálum má ekki miðast við það að þjóna stjórnmálahagsmunum manna sem vilja verða smákóngar í kjördæmi sínu, heldur verða heildarhagsmunir og heildarsjónarmið að ráða.

Í fimmta og síðasta lagi nefni ég nauðsyn þess að gera breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum til þess að gera landbúnaðarframleiðsluna ódýrari og fjölbreyttari. Það yrði neytendum til hagsbóta strax og bændum þegar til lengdar léti. Við verðum smám saman að hætta að framleiða t. d. kjöt og osta fyrir útlendinga og greiða þeim einn milljarð á ári fyrir að borða afurðirnar. Og við eigum að stefna að því að sú hagsbót, sem ríkissjóður veitir neytendum í formi niðurgreiðslna, verði smám saman að frjálsu ráðstöfunarfé neytendanna. Þá vex verðgildi þeirra fyrir þá.

Ég hef hér nefnt fimm svið þar sem ég tel ríkisstj. verða að sýna fákvæðan vilja til þess að bæta hag launþega ef von á að vera til þess að launþegasamtökin taki fyrir sitt leyti þátt í lausn vandans. Eins og nú standa sakir geta launþegasamtökin ekki treyst ríkisstj. Það er ekki von. Enn sem komið er hafa ráðstafanir hennar ekki verið með þeim hætti að hún eigi traust skilið.

Það eru ekki aðeinis launþegarnir í Alþýðusambandi Íslands sem treysta ekki ríkisstj. Ekki á það síður við um opinbera starfsmenn sem eiga nú þegar í beinni styrjöld við ríkisstj. Það er í raun og veru ekki einleikið hversu illa ríkisstj. gengur að afla sér trausts. Nær allur fiskiskipafloti landsmanna er hættur veiðum vegna deilna við ríkisstj. Og hún á ekki aðeins í útistöðum við launþega, heldur einnig við atvinnurekendur. Útgerðarmenn hafa gagnrýnt hana harðlega. Iðnrekendur hafa kvartað undan sinnuleysi um sín mál. En nú yfir tók þó þegar Verslunarráð Íslands sendi öllum alþm. í þingbyrjun bréf með neyðarlegu skensi um ríkisstj. og þá þm. sem styðja hana. Þm. fengu sendan rauðan blýant með áskorun um að nota hann til þess að strika út ónauðsynleg ríkisútgjöld. Þótt hér hafi eflaust að hluta verið um gamansemi að ræða, duldist þó engum, að broddur var í gamninu, þegar höfð var hliðsjón af því hvaðan skeytið kom.

En þess vegna nefni ég þetta, að hér er einmitt dæmi um það sem nú er einna alvarlegasta tákn tímanna hér á Íslandi. Traust almennings á ríkisvaldinu hefur beðið alvarlegan hnekki — ekki aðeins almennings, heldur einnig forustumanna atvinnulífsins. Pólitískir spákaupmenn fara allra sinna ferða. Hróplegt ranglæti í skattgreiðslum viðgengst. Fámennir hópar manna taka sér þau laun sem þeim sýnist. Menn virðast meira að segja ekki lengur vera jafnir fyrir lögum. Hvernig á slíkt þjóðfélag að standast til frambúðar? Hvernig á þjóðin að varðveita sjálfstæði sitt á sviði efnahagsmála og stjórnmála, nema hér verði á gagnger breyting? Hér þarf að verða hugarfarsbreyting, fyrst og fremst hjá ráðandi mönnum. Þarf að hætta að láta reka á reiðanum. Það þarf að fara að stjórna landinu. Þá fyrst er von til þess að aftur komist á eðlilegt ástand í landinu. Þá fyrst getur vaknað réttmæt von um að íslenskt þjóðfélag verði heilbrigt og réttlátt. — Góða nótt.