20.12.1975
Sameinað þing: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

1. mál, fjárlög 1976

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að fjárlagafrv. þetta sé ómerkt plagg. Ber til þess margar ástæður, þær helstar að allt er óvíst í launamálum landsmanna, þar eð ósamið er um kaup og kjör nær allra launastétta, og alger óvissa um afkomu flestra atvinnugreina. Þá tel ég að ríkisstj. hafi á líðandi ári sýnt slíka óspilunarsemi í eyðslu að forkastanlegt sé og í hinu nýja fjárlagafrv. sé engin aðhaldssemi sýnd varðandi beina eyðslu, en ósanngjarnar álögur stórlega auknar á almenning og á þá helst sem síst geta undir nýjum álögum staðið. — Á ónýta flík tjóar ekki að setja nýja bót. Í ónýtri flík er ekkert þráðarhald. Vegna þessa hef ég ekki látið mér detta í hug að bera fram nokkrar brtt. við þetta fjárlagafrv.

En ég segi eins og Hrafn rauði sagði við Sigurð Orkneyjajarl í lokabardaga Sigurðar, Brjánsorrustu: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“ — Ég greiði ekki atkv.