20.12.1975
Sameinað þing: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

1. mál, fjárlög 1976

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl. telur frv. það til fjárl., sem nú er til lokameðferðar hér á Alþ., vera glöggan vott þess að ríkisstj hefur ekki tekist að móta heilbrigða heildarstefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem dregið geti verulega úr verðbólgunni, tryggt atvinnu, bætt lífskjör launafólks og lagt traustan grundvöll að öruggum rekstri atvinnuveganna. Þingflokkur Alþfl. telur auk þess að þetta frv., sem stjórnarflokkarnir virðast nú ætla að samþykkja, muni reynast pappírsgagn eitt, eins og fjárlög yfirstandandi árs reyndust, þar eð ósamið er um kaup og kjör við svo að segja alla launþega landsins, ómögulegt er að vita hver niðurstaðan verður og allt er því á huldu um hver laun verða á næsta ári. Svo mikil óvissa ríkir jafnvel um afkomu atvinnuveganna, að einnig sú staðreynd gerir margar þær áætlanir, sem fjárlagafrv. er byggt á, mjög vafasamar. Í efnahagsmálum þjóðarinnar ríkir því stjórnleysi og ringulreið. Af þeim sökum hafa þm. Alþfl. ákveðið að láta stjórnarflokkana eina bera ábyrgð á samþykkt þess og sitja hjá við þessa lokaatkvgr. —- Ég greiði ekki atkv.